17.7.08

Tímaferðalög

Ein besta sönnun þess að tímaferðalög eru ekki möguleg er að ég hef ekki hitt mig, eða neinn annan tímaferðalang... ennþá.

Ég er nýkominn úr tveimur "in vivo" tímaferðalögum. Prófaði eldsmíði einn dag. Smíðaði "krók/snaga" og þann ljótasta kertastjaka sem heimurinn hefur séð. (Sá er nú í vörslu Sorpurðunar Vesturlands.) En reynslan fær mig til að votta járnsmiðum fyrri alda djúpa virðingu. Það er svosem skiljanlegt hvernig menn slóu skeifur, nagla og litla hnífa. En brynjur, verkfæri, potta og pönnur! Respekt.

Hitt tímaferðalagið var tjaldútilega sumarsins. Sól, hiti og silungur uns sólin settist. Þá tók við kuldi, trekkur og tjalddýna. Maður dúðar sig ofan í svefnpoka og vaknar ítrekað í kuldahrolli þangað til klukkan slær fimm. Þá skríður hitinn upp í 35 gráður og maður liggur í móki næstu tímana. Hvernig í ósköpunum komust menn í Norðurpólinn?

Kannski þekkti fólk ekki hugtakið "að vakna úthvíldur". Var úrvinda á hverju kvöldi eftir skeifusmíði úr mýrarrauðu járni. Fór með hálfum huga inn í lúsugt rúmið og sótti hughreystingu í Hallgrím Pétursson.