9.5.09

Etanól út - rafmagn inn!

Ný rannsókn vísindamanna við Kaliforníuháskóla sýnir að það er mun betra að breyta lífmassa í rafmagn en etanól. Etanól hefur um árabil verið notað sem umhverfisvænt eldsneyti á lítið breyttar bensínvélar. Gallinn við etanólið er hins vegar að framleiðsla þess keppir við matvælaframleiðslu og það er ekki áhugavert til lengdar í heimi sem berst við að lifa af einni jörð.

Sprengihreyfillinn nýtir orku mjög illa og þess vegna er hagkvæmara að brenna lífmassann og nýta orkuna til að hlaða rafhlöður fyrir rafbíla. Þetta mun ekki draga úr framleiðslu á lífmassa til skemmri tíma en til lengri tíma litið styrkir þetta stöðu rafbílsins. Og þar sem rafbíllinn getur notað rafmagn frá vindmyllum, sólarsellum eða kjarnorku, þá er líklegt að eftirspurn eftir lífmassa til orkuframleiðslu minnki.

Þetta eru líka góðar fréttir fyrir Ísland því við eigum mikið af rafmagni en lítið af lífmassa. Við ættum mjög auðvelt með að skipta stærstum hluta okkar bílaflota yfir í rafbíla á tiltölulega fáum árum. Þar með værum við mikil til óháð innfluttri olíu og gætum komist nálægt því að vera orkulega sjálfbær.

Engin ummæli: