20.10.08

Efnahagsástandið virðist draga fram það versta í mörgu fólki. Bloggheimar loga af sjálfumglaðri vandlætingu og sleggjudómum. Það er nánast sama hvar er gripið niður, fólk heimtar blóð og leyfir sér ótrúlegan dónaskap gagnvart náunganum. Nú síðast fékk Dorit á baukinn, fyrir að benda okkur á hið sjálfsagða en áður var búið að níða skóinn af stórum hluta af stjórnmálamönnum og stjórnsýslu Íslands - auk helstu viðskiptajöfra síðustu ára.

Bandaríkjamenn lentu í alvarlegu áfalli 11. sept. 2001, fylltust heilagri vandlætingu og ákváðu að heimurinn yrði aldrei samur. Þeir viku til hliðar hefðbundnum gildum eins og alþjóðarétti og mannréttindum. Niðurstaðan var ekki góð og segja má að viðbrögð þeirra hafi valdið meiri skaða en hörmungarnar sjálfar.

Hér heima heyrast hugmyndir um að reka samstundis alla stjórn Seðlabankans, boða samstundis til kosninga, neyða helstu ráðamenn landsins til að segja af sér, ganga tafarlaust og án umræðu í Evrópusambandið, fella úr gildi lög um umhverfismat, hefja ofveiði á þorski og ráðast í stórfellda eignaupptöku hjá fólki sem ekki hefur svo mikið sem verið ákært, hvað þá heldur dæmt.

Við urðum vissulega fyrir áfalli en við megum ekki víkja til hliðar grunngildum okkar samfélags; umburðarlyndi og réttarríkinu. Það er stundum sagt að maður eigi ekki að hugsa um vandamál heldur lausnir en nákvæmlega núna væri það okkur öllum hollt að velta vandanum fyrir okkur áður en við krefjumst lausna. Kannski er vandinn einmitt fólginn í ofurtrú á lausnir og "þetta reddist" hugsanahætti. Ef núverandi ástand hefur sýnt okkur eitthvað þá er það að hlutir reddast ekki alltaf og það er mikilvægt að bera virðingu fyrir skoðunum fólks (líka erlendra greiningaraðila) sem er á annarri skoðun en við sjálf. Ef okkur tekst ekki að læra þessi sannindi erum við dæmd til að endurtaka þennan leik.

12.10.08

Tilvistarkreppa

Þessi færsla er góð áminning. Að sjálfsögðu er tap margra gríðarlegt og sárast fyrir eldra fólk sem á litla möguleika á að vinna tapið upp. Við sem yngri erum getum hins vegar ekki kvartað. Þrátt fyrir tap og fyrirsjáanlega kjaraskerðingu verða lífskjör okkar áfram með því besta sem gerist í heiminum - í sögu mannkyns.

Kreppan sem allir tala um er tilvistarkreppa. Við þurfum að horfast í augu við að við erum lítil vanmáttug þjóð - ekki stórust í heimi, ekki töframenn í viðskiptum, höfum ekki efni á hömmerum eða Range Roverum og getum ekki leyft okkur að kalla Dani nískupúka.

Það er sjálfsagt að beita sjálfsblekkingum og reyna að finna sökudólga í því fólki sem þessa mánuðina er í forystu stjórnmála og atvinnulífs. En þegar upp er staðið verðum við að horfast í augu við að sem þjóð eyddum við langt um efni fram, skuldsettum heimilin í landinu, hlóðum upp yfirdrætti og trúðum því að allt væri í lagi.

Matvælaöryggi

Í liðinni viku tilkynnti framkvæmdastjóri Bónus að matvælaskortur væri yfirvofandi - þá helst á innfluttri ferskvöru. Jafnframt ráðlagði hann fólki að byrgja sig upp af vörum. Væntanlega tilheyrði þessi "ráðgjöf" sama flokki og ráðgjöf "bankaráðgjafa", en viðvörunin var samt nægjanlega trúverðug til að fólk hamstraði vörur alla síðustu viku.

Ég hef haldið því fram áður að óheftur og tollfrjáls innflutningur mjólkur- og kjötvara myndi valda hruni í innlendri framleiðslu. Það sem meira er: Á tiltölulega fáum árum myndu möguleikar okkar á að endurreisa framleiðsluna verða að engu, því eitt helsta einkenni búskapar er mjög hátt hlutfall fasts kostnaðar miðað við veltu (betur útskýrt í ofangreindri tilvísun).

Það eru einungis nokkrir mánuðir síðan Hagar börðust fyrir stórauknu frelsi í innflutningi á matvælum en núna segjast sömu aðilar ekki geta ábyrgst ferskvöruinnflutning til landsins.

Það mun örugglega ekki líða á löngu áður en talsmenn smásöluverslana taka aftur upp þráðinn og krefjast þess, fyrir hönd almennings, að fá að leggja í rúst innlenda framleiðslu á mjólk og kjöti. Minnumst þess þá hvernig þurrmjólk er á bragðið.

Bankaráðgjöf

Bankarnir kölluðu sölumenn sína "ráðgjafa"!