12.10.08

Matvælaöryggi

Í liðinni viku tilkynnti framkvæmdastjóri Bónus að matvælaskortur væri yfirvofandi - þá helst á innfluttri ferskvöru. Jafnframt ráðlagði hann fólki að byrgja sig upp af vörum. Væntanlega tilheyrði þessi "ráðgjöf" sama flokki og ráðgjöf "bankaráðgjafa", en viðvörunin var samt nægjanlega trúverðug til að fólk hamstraði vörur alla síðustu viku.

Ég hef haldið því fram áður að óheftur og tollfrjáls innflutningur mjólkur- og kjötvara myndi valda hruni í innlendri framleiðslu. Það sem meira er: Á tiltölulega fáum árum myndu möguleikar okkar á að endurreisa framleiðsluna verða að engu, því eitt helsta einkenni búskapar er mjög hátt hlutfall fasts kostnaðar miðað við veltu (betur útskýrt í ofangreindri tilvísun).

Það eru einungis nokkrir mánuðir síðan Hagar börðust fyrir stórauknu frelsi í innflutningi á matvælum en núna segjast sömu aðilar ekki geta ábyrgst ferskvöruinnflutning til landsins.

Það mun örugglega ekki líða á löngu áður en talsmenn smásöluverslana taka aftur upp þráðinn og krefjast þess, fyrir hönd almennings, að fá að leggja í rúst innlenda framleiðslu á mjólk og kjöti. Minnumst þess þá hvernig þurrmjólk er á bragðið.

Engin ummæli: