29.1.09

Þegar rykið sest...

Nú þegar fréttatímar fjalla um fleira en ólæti á Austurvelli er ástæða til að staldra við og skoða sumt af því sem hefur gerst:

-------

ESB-áhugi Samfylkingarinnar hefur dofnað og ESB-aðild er ekki lengur forsenda ríkisstjórnarsamstarfs. Allt tal um flýtimeðferð og einhliða upptöku evru hefur hljóðnað. Hugmynd um kosningu um viðræður, sem Samfylkingin gerði grín að fyrir nokkrum vikum er skyndilega þeirra helsta baráttumál.

Andstaða við álversbyggingar er ekki lengur forgangsatriði hjá VG.

Eins slæmar og pólistískar ráðningar geta verið, þá virðast pólitískir brottrekstrar í lagi. Formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur enn ekki gert athugasemdir við grófar persónulegar árásir á opinberan embættismann í Seðlabanka Íslands. Þó er greinilegt að hluti þessara árása er af pólitískum toga. Sá hefur þó ekki brotið af sér í embætti svo vitað sé.

Kauphöll Íslands virðist fyrirmunað að láta í ljós alvarlegar áhyggjur af ítrekuðum játningum forráðamanna fyrirtækja/banka þar sem fram kemur að sýnarviðskipti til að halda uppi gengi hlutabréfa í Kauphöll voru algeng á undanförnum árum.

Samtök húsafriðunarsinna og aðrir áhugamenn á því sviði hafa ekki mótmælt þótt unnar hafi verið ítrekaðar skemmdir á dýrmætustu húsbyggingum þjóðarinnar - jafnvel tilraunir til íkveikju.

Kröfunni um endurnýjun í liði stjórnmálamanna hefur verið mætt með því að tveir ungir samfylkingarmenn hafa stigið til hliðar og tveir af aldurshöfðingjum Alþingis stíga fram.

Kröfunni um meiri faglegan bakgrunn ráðamanna er mætt með því að út fer fjármálaráðherra með mastersgráðu í náttúrufræði og forsætisráðherra með mastersgráður í bæði alþjóðastjórnmálum og hagfræði en inn kemur fjármálaráðherra með jarðfræðipróf og forsætisráðherra með flugfreyjumenntun.

Kröfunni um aukið lýðræði og aukið vald fólksins er mætt með því að út fer ríkisstjórn með tvo þriðju þingsæta en inn kemur stjórn með minnihluta þingsæta og þar að auki verða í þeirri stjórn aðilar sem ekki hafa verið kosnir af fólkinu - væntanlega valdir án auglýsingar eða opins ráðningarferlis.

Kröfunni um aukna ábyrgð stjórnmálamanna er mætt með því að verðandi forsætisráðherra tekur ekki þátt í stjórnarmyndunarviðræðum.

Neyðarstjórn kvenna ætlar að bjóða fram og berjast fyrir auknu jafnrétti kynjanna. Flokkurinn er aðeins opinn fyrir konur. Hann er að sögn talsmanns þverpólistískur - nema hvað það eru ekki hægrisinnaðar konur í honum.

Aðrir flokkar hafa verið stofnaðir með það yfirlýsta markmið að berjast gegn flokkakerfinu.

---------
Velkomin til Nýja Íslands!

11.1.09

Norski sjávarútvegssamningurinn

Norðmenn sóttu um aðild að ESB. Þeir sömdu um sjávarútvegsmál og náðu niðurstöðu (sem síðan var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu). Eru nokkrar líkur á að okkar niðurstaða yrði verulega frábrugðin þeirri norsku? Af hverju láta menn þá eins og við getum með engu móti vitað hvaða niðurstaða fáist í sjávarútvegspakkann nema með því að fara í aðildarviðræður? Kann ekki einhver norsku??

5.1.09

Bændur og ESB I

Auðlindin sagði frá því í dag að margir bændur sæju fram á gjaldþrot. Ástæðan er fall krónunnar. Landbúnaðarframleiðsla einkennist meðal annars af mjög háu hlutfalli fasts kostnaðar miðað við breytilegan kostnað. Þess vegna skiptir vaxtastig verulega miklu máli fyrir bændur. Vextir hérlendis hafa lengi verið mjög háir og verða það áfram. Þess vegna hafa margir bændur tekið lán í erlendri mynt en eru um leið orðnir mjög háðir gengissveiflum. Gengissveiflur verða alltaf miklar í meðan við höldum í krónuna.

Ég get vel skilið að bændur sjá mikla ógn í niðurfellingu innflutningshafta. Sú ógn er raunveruleg. En ógnin sem felst í háum vöxtum og óstöðugu gengi er sannarlega líka raunveruleg.