29.3.09

Fönix

Þá er lokið sögulegum landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Yfirskrift fundarins var "Göngum hreint til verks" og þótt ályktun fundarins um Evrópusambandsaðild hafi ekki verið í anda þess slagorðs verður að segjast að margt annað var hreint og beint:
  • Þorgerður Katrín hélt magnaða ræðu og sýndi enn og aftur að hún er einn áhugaverðasti stjórnmálamaður samtímans. Hún uppskar mjög sannfærandi kosningu í varaformanninn.
  • Á meðan Samfylkingin tók stóran krók í kring um raunverulegt formannskjör þá kusu Sjálfstæðismenn milli tveggja jafnoka. Kosningabaráttan var snörp en niðurstaðan skýr; ný kynslóð hefur tekið við forystu flokksins.
  • Davíð Oddsson hélt drottningarræðu sem minnti fundarmenn á að hann var mikill leiðtogi, frábær ræðumaður og einstakur húmoristi. En um leið sýndi hann fundinum að hans tími er liðinn.
Við taka spennandi tímar í Sjálfstæðisflokknum. Það er kaldhæðni örlaganna (og mannana) að þeir stjórmálaflokkar sem helst kröfðust endurnýjunar skutu sér undan henni en sá flokkur sem lengst stóð keikur endurnýjaði bæði áherslur og fólk. Rétt eins og fuglinn Fönix.

9.3.09

Meintur formannsskortur Samfylkingar

...afskaplega sérstök staða sem komin er upp hjá Samfylkingunni. Bæði formaður og varaformaður hafa sagt af sér og pólitískur leiðtogi flokksins vill ekki leiða hann. Það er útaf fyrir sig sérstakt og myndi yfirleitt kalla á alvarlega innri endurskoðun. Hins vegar er krísan ekki stærri en svo að eftir þrjár vikur verður haldið landsþing og þá kjósa menn nýjan formann. Nú þegar er amk einn í framboði og góður tími fyrir aðra að melda sig. En viti menn: Um þetta er rætt um land allt sem eitt meiriháttar vandamál og að nú verði að pína Jóhönnu Sigurðardóttur til að "taka að sér" formennskuna. Jafnvel þótt fyrir liggi að a) hún hafi ekki áhuga og b) hún muni ekki hafa burði til að leiða flokkinn lengi.

Mjög hliðstæð staða er uppi í Sjálfstæðisflokknum. Formaðurinn mun hætta vegna veikinda og einn í framboði til formanns. En þar hafa menn ekki skilgreint stöðuna sem krísu heldur verkefni sem bíður landsfundar.

Einu sinni var í tísku að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn gæti ekki lifað án Davíðs Oddssonar. Reyndin varð sú að formannsskiptin gengu greiðlega og Geir tók við án vandamála. Nú virðist hins vegar augljóst að Samfylkingin mun eiga mjög erfitt með að takast á við tilveru án Ingibjargar Sólrúnar.