Nákvæmlega hvers vegna viljum við ekki vera meðlimir í ESB? Væri ekki ágætt að fara að rifja það upp í ruglingslegri umræðu þessara vikna. Við tökum nú þegar upp allar reglugerðir sem skipta máli, erum hluti af opnum vinnumarkaði, höfum opið fjármálakerfi, erum að verða sammála um að krónan sé ekki lykillinn að árangursríkri efnahagsstjórn og höfum endalausar menningarlegar og sögulegar tengingar við Evrópu. Hvað er það þá sem við viljum ekki?
Mér dettur bara tvennt í hug: Sameiginleg stjórn fiskveiða og frjáls innflutningur landbúnaðarafurða. Meginregla ESB varðandi stjórn fiskveiða er að úthluta veiðiheimildum í takt við veiðireynslu. Við erum eina landið með veiðireynslu hér við land, svo við verðum væntanlega eina landið sem fær úthlutað veiðiheimildum. Restin er útfærsluatriði sem mun ekki komast á hreint fyrr en að loknum samningum.
Frjáls innflutningur landbúnaðarafurða er sennilega meiri grundvallarbreyting, þótt hún komi illa við færri. Á móti kemur að ESB hefur styrkt jaðarsvæði rausnarlega, en hæpið verður að telja að það bjargi landbúnaðinum. Hitt er svo annað mál að það virðist glettilega mikill áhugi meðal þjóðarinnar að fella niður innflutningshöft einhliða.
Við höfum margoft spurt sömu spurningana og við endum alltaf með sömu svörin: "Endanleg niðurstaða fæst ekki nema með aðildarviðræðum." Því þá ekki að hefja aðildarviðræður, koma þessum málum á hreint og kjósa síðan um samninginn? Ef okkur líst vel á niðurstöðuna þá segjum við já, ef okkur líst illa á, þá segjum við nei. Í báðum tilvikum munum við hafa tekið upplýsta ákvörðun. Er það svo slæmt?
23.9.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli