Skrapp á fund í Riga, höfuðborg Lettlands. Gluggaði aðeins í sögu borgarinnar og landsins á leiðinni og fylltist aðdáun yfir margra alda veldi þessarar borgar. Miðbærinn er á heimsminjaskrá UNESCO og ekki að ástæðulausu því þarna er eitt mesta safn Art Nouveau bygginga sem fyrirfinnst í heiminum. Riga var ein hinna svokölluðu Hansaborga og er með mjög evrópskt yfirbragð.
Lettland fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991 og sótti fljótlega um aðild að Evrópusambandinu - til að tryggja sjálfstæði sitt. Hér á Íslandi er aðild að Evrópusambandinu hinsvegar yfirleitt talin fela í sér afsal sjálfstæðis; nokkuð sem mér finnst afar erfitt að skilja.
Sjálfstæðishugtakið hlýtur að fela í sér einhverskonar tilvísun í pólitískan, efnahagslegan og menningarlegan sjálfsákvörðunarrétt. Að enginn neyði mann til neins. Með aðild að ES fáum við formlega aðild að þeirri löggjafarvinnu sem við nú þegar lútum í gegn um EES. Varla minnkar sjálfstæði okkar þar. Efnahagsleg rök mæla flest með ES aðild, þannig að ef eitthvað er þá eykst okkar efnahagslega sjálfstæði við inngöngu. Menningarlega ætti aðild ekki að skipta máli. Það er því erfitt að sjá hvaða sjálfstæði tapast.
Þar fyrir utan má velta því fyrir sér hversu mikið sjálfstæði við höfum haft í gegnum tíðina. Landflótta Norðmenn sem hingað komu og stofnuðu fríríki sem á 200-300 árum beið efnahagslegt og pólitískt skipbrot. Norsk eyja frá 1262, síðan hluti af danska ríkinu þangað til Bretar og síðan Bandaríkjamenn hernámu landið í seinni heimstyrjöldinni. Síðan þá hafa Bandaríkjamenn séð alfarið um varnir landsins - nokkuð sem ekki beinlínis hefur boðið upp á sjálfstæða utanríkisstefnu og einhvern vegin hefur maður á tilfinningunni að við náum tæplega að höndla sjálfstæða stjórnun efnahagslífsins.
Það eru ýmis rök sem mæla gegn aðild að Evrópusambandinu, en afsal sjálfstæðis vegur ekki þungt.
7.9.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli