30.9.08

Gjaldþrot Íslands

Hluthafar Glitnis fara hamförum í fjölmiðlum þessa sólarhringana. Stærstu hluthafarnir hafa hagnast gríðarlega síðustu árin en hafa samt ekki séð ástæðu til að leggja aukið hlutafé inn í bankann. Samt víla þeir það ekki fyrir sér að saka íslenska ríkið um að hafa framið bankarán.

Fyrir liggur að Glitnir stefndi í þrot og að eigendur gátu ekki - eða vildu ekki - leyst vanda félagsins. Íslenska ríkið hafði þrjá kosti:

1. Láta Glitni fara í þrot.
2. Lána 84 milljarða króna.
3. Yfirtaka Glitni.

Fyrsti kostur var óhugsandi, enda hefði hann sett allt fjármálakerfi landsins í uppnám. Annar kostur hefði leyst skammtímavanda bankans, en væntanlega gert hann algerlega verðlausan á mörkuðum og gert honum algerlega ómögulegt að nálgast erlent lánsfé næstu misserin. Sú staða hefði smitað yfir á önnur fjármálafyrirtæki og því sett allt fjármálakerfi landsins í uppnám sbr. lið 1). Eftir stóð þriðji kosturinn!

Allt tal um að ríkið hafi á degi eitt hagnast á dæminu er markleysa því til að ríkið hagnist þarf kaupanda að hlutabréfunum. Ennþá hefur enginn lagt fram kauptilboð í hlut ríkisins á gengi dagsins. Ekki einu sinni þeir sem hafa nú hæst um að ríkið hafi hlunnfarið eigendur.

"Minniháttar" vandamál í "litlum" banka tóku tæpan fimmtung af gjaldeyrisvaraforða ríkisins. Jafngildi allra skatttekna af einstaklingum á einu ári! Hið alvarlega í stöðunni er að ef ríkið hefði misstigið sig í þessum björgunaraðgerðum, þá hefði staða hinna bankanna verið í uppnámi. Þar með væri hagkerfið Ísland á barmi gjaldþrots.

Engin ummæli: