25.11.11

Milljarð á Ísafjörð

Fór til Ísafjarðar í síðustu viku á ársfund atvinnuþróunarfélaga. Veðrið gott og við hjónaleysin ákváðum að gera ferð úr þessu og fara hringinn.

Ísafjörður er einn allra fallegasti bær landsins og það er aðdáunarvert hvað bæjaryfirvöldum hefur tekist að byggja upp skemmtilegan og virkan miðbæ. Þarna, um miðjan nóvember var fólk á gangi út um allan bæ því að ólíkt flestum öðrum smábæjum á Íslandi er miðbær Ísafjarðar miðpunktur verslunar og þjónustu. (Þetta er að sjálfsögðu stóra vandamál Reykjavíkur en þar hafa borgaryfirvöld haft þá stefnu að skipuleggja stór verslunarhverfi/miðstöðvar utan miðbæjarins með þeirri mjög svo fyrirsjáanlegu afleiðingu að Reykvíkingar koma sjaldan í 101 að degi til).

Annað sem maður tekur eftir þegar langt er milli Ísafjarðarferða, er hversu samgöngur um djúpið eru orðnar góðar. Þröskuldar eru notaleg leið og Steingrímsfjarðarheiðin minnir helst á Holtavörðuheiði - tiltölulega þægilegur fjallvegur. Auðvitað mætti smella brú á einn eða tvo firði ennþá en í öllum megindráttum er þetta fljótfarið. Þá eru nýju Bolungarvíkurgöngin mikil vegabót og núna má segja að Flateyri, Suðureyri, Súðavík, Bolungarvík og Ísafjörður séu orði eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Þingeyri er aðeins lengra frá og framtíð þess byggðalags hlýtur að teljast óviss.

En samt fækkar fólki. Sennilega vantar betri möguleika á háskólamenntun á Ísafjörð og tvímælalaust fleiri opinber störf. Flutningur opinberra starfa (ekki stofnana) út á land ætti að vera forgangsatriði allra ráðuneyta og ríkisstofnana. Þetta eru örugg störf sem skapa nauðsynlegan stöðugleika í fámennari samfélögum. Og oft eru þetta störf sem henta vel fyrir menntaðar konur en það er einmitt sá hópur sem fyrst flýr landsbyggðina. Sennilega þarf meira til á Ísafirði en ég er á því að við eigum að taka slaginn þarna. Ákveða hreinlega að snúa við búsetuþróuninni á Ísafjarðarsvæðinu. Til dæmis með því að kalla saman hóp færustu manna og skipuleggja 10 ára verkefni sem hefði hálfan til einn milljarð á ári til ráðstöfunar til eflingar búsetu á svæðinu. Þetta eru vissulega miklir fjármunir en samt ekki nema um helmingur Héðinsfjarðargangna. Og við gætum lært af þessu.

10.11.11

Akureyri, Alta, Sisimiut...


Myndin hér við hliðina sýnir fólksfjöldabreytingar í bæjum og þorpum á norðurheimskautssvæðinu. Þetta er mjög áhugaverð mynd og ekki bara vegna óvenjulegs sjónarhorns á heiminn. Þarna sést til dæmis að Anchorage, Reykjavík, Murmansk og Krasnojask eru stærstu borgirnar á þessu svæði en á meðan rússnesku borgirnar glíma við fólksfækkun þá er töluverð fjölgun í Reykjavík og Anchorage. Reyndar er vandasamt að túlka fólksfjöldaþróun í Rússlandi því allmenn fólksfækkun er í landinu.

Annað sem sést á þessu korti er að á Nýfundnalandi, Grænlandi, Íslandi, Skandinavíu og í Rússlandi er almenn fækkun í minnstu stöðunum en flestir stærri staðir bæta við sig af fólki. Þessi þróun er ekki eins augljós í Alaska og ástæðurnar fyrir því eru meðal annars að fæðingartíðni í litlu bæjunum þar er ennþá tiltölulega há. Þannig er það ekki séríslenskt fyrirbæri að fólk flytji frá litlum þorpum á landsbyggðinni og inn í stærri kjarnana.

Á Grænlandi eru bara tveir bæir sem bæta við sig íbúafjölda: Nuuk og Sisimiut. Á báðum stöðum eru góðir framhalds- og háskólar. Á Íslandi eru þetta Reykjavík og Akureyri sem báðir eru háskólabæir. Í Skandinavíu, Bodø, Tromsø, Alta, Luleå, Rovaniemi. Allt háskólabæir. Eins og áður sagði fylgir Rússland aðeins öðrum lögmálum meðal annars vegna þess að þar er landið enn að jafna sig á löngu tímabili miðstýrðs hagkerfis.

En kannski er það mikilvægasta sem myndin sýnir okkur, að vöxtur er ekki sjálfsagður. Stórar borgir í Rússlandi eins og Murmansk og Krasnojask glíma við fólksfækkun. Sama má segja um marga miðlungsstóra bæi í Norður-Skandinavíu. Fólk sækir einfaldlega til þeirra staða sem bjóða upp á tækifæri til menntunar og góða þjónustu. Og og hversu mikið sem maður getur pirrað sig á vexti Reykjavíkur á kostnað landsbyggðarinnar þá getum við að minnsta kosti huggað sig við að þetta er almenn þróun í stórum hluta okkar heimshluta. Og vissulega værum við verr sett ef Reykjavík væri líka að tapa fólki til stærri borgar utan Íslands.


9.11.11

...léttleiki tilverunnar

Ákveðið vandamál að vera til; maður þarf að mynda sér skoðun á málefnum sem eru eiginlega ekki málefni heldur einkamál fólks.

Kona segir alþjóð að hún hafi verið beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi af hendi föður síns sem nú er látinn. Önnur ættmenni hennar efast. Hálf þjóðin telur að núverandi yfirmaður þeirra samtaka sem faðirinn vann hjá seinni hluta starfsæfi sinnar eigi að segja starfi sínu lausu. Og okkur hinum er gert að hafa skoðun! Ég er hreinlega ekki viss...

Og hópur fólks (kvenna) klæðir sig í dulargerfi og lýsir því yfir að ónafngreindir menn hafi sýnt áhuga á að kaupa kynlífsþjónustu. Þær afhentu lögreglunni nöfn þessara manna og vonuðust hugsanlega eftir því að þeir yrðu handteknir (sem lögum samkvæmt var ekki hægt) ... og væntanlega vonuðust þær líka til þess að verða ekki sjálfar handteknar fyrir yfirlýst brot á lögum (sem hefði verið hægt).

Þetta er eiginlega óttaleg vitleysa, svo ekki sé meira sagt en samt notar skuldum hrjáð þjóð tækifærið og ræðir ekki um annað í tvær til þrjár vikur.

8.11.11

Sala Grímsstaða

Það er hver að verða síðastur að hafa skoðun á kauptilboði Huang Nobu í jörðina Grímsstaði á Fjöllum því fljótlega mun innanríkisráðherra opinbera hvort hann veiti undanþágu frá lögum vegna kaupana. Það er auðvelt að hafa margar skoðanir á þessu máli. Í fyrsta lagi liggur fyrir að aðilar utan EES mega ekki kaupa land á Íslandi. Hins vegar er líka ljóst að þau lög halda ekki því hver sem er getur stofnað skúffu í Evrópu og látið hana kaupa landið. Þess vegna skyldi maður ætla að við þyrftum að fara í ákveðna prinsipp umræðu um hvort við séum til í að leyfa útlendingum að kaupa allt land á Íslandi. Kannski er það í góðu lagi en kannski ekki en aðalatriðið er að samkvæmt núverandi lögum er þetta hægt. Þessi umræða hefur ekki átt sér stað.

Þess í stað hefur mestöll umræðan snúist um mögulegar og ómögulegar ástæður fyrir því að þessi ágæti maður hefur áhuga á Grímsstöðum og honum eru miskunarlaust gerðar upp bæði afar göfugar og afar vafasamar ástæður. Þetta skiptir hins vegar sáralitlu máli því notkun á landi er takmörkuð með lögum og í skipulagi sveitarfélaga. Grímsstaðir voru búnir að vera til sölu í langan tíma og það þurfti því varla að koma á óvart að einhverjum skyldi einhverntíman detta í hug að kaupa.

Þegar upp er staðið þá er hér um að ræða einkamál. Einn maður selur öðrum manni land. Rétt eins og einn maður selji öðrum manni bíl. Við eigum ekki að þurfa að ræða þetta. Ef við viljum ekki að jörð á borð við Grímsstaði sé seld þá eigum við ekki að hafa hana í einkaeign. Svo einfalt er það.