Það er hver að verða síðastur að hafa skoðun á kauptilboði Huang Nobu í jörðina Grímsstaði á Fjöllum því fljótlega mun innanríkisráðherra opinbera hvort hann veiti undanþágu frá lögum vegna kaupana. Það er auðvelt að hafa margar skoðanir á þessu máli. Í fyrsta lagi liggur fyrir að aðilar utan EES mega ekki kaupa land á Íslandi. Hins vegar er líka ljóst að þau lög halda ekki því hver sem er getur stofnað skúffu í Evrópu og látið hana kaupa landið. Þess vegna skyldi maður ætla að við þyrftum að fara í ákveðna prinsipp umræðu um hvort við séum til í að leyfa útlendingum að kaupa allt land á Íslandi. Kannski er það í góðu lagi en kannski ekki en aðalatriðið er að samkvæmt núverandi lögum er þetta hægt. Þessi umræða hefur ekki átt sér stað.
Þess í stað hefur mestöll umræðan snúist um mögulegar og ómögulegar ástæður fyrir því að þessi ágæti maður hefur áhuga á Grímsstöðum og honum eru miskunarlaust gerðar upp bæði afar göfugar og afar vafasamar ástæður. Þetta skiptir hins vegar sáralitlu máli því notkun á landi er takmörkuð með lögum og í skipulagi sveitarfélaga. Grímsstaðir voru búnir að vera til sölu í langan tíma og það þurfti því varla að koma á óvart að einhverjum skyldi einhverntíman detta í hug að kaupa.
Þegar upp er staðið þá er hér um að ræða einkamál. Einn maður selur öðrum manni land. Rétt eins og einn maður selji öðrum manni bíl. Við eigum ekki að þurfa að ræða þetta. Ef við viljum ekki að jörð á borð við Grímsstaði sé seld þá eigum við ekki að hafa hana í einkaeign. Svo einfalt er það.
8.11.11
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli