10.11.11

Akureyri, Alta, Sisimiut...


Myndin hér við hliðina sýnir fólksfjöldabreytingar í bæjum og þorpum á norðurheimskautssvæðinu. Þetta er mjög áhugaverð mynd og ekki bara vegna óvenjulegs sjónarhorns á heiminn. Þarna sést til dæmis að Anchorage, Reykjavík, Murmansk og Krasnojask eru stærstu borgirnar á þessu svæði en á meðan rússnesku borgirnar glíma við fólksfækkun þá er töluverð fjölgun í Reykjavík og Anchorage. Reyndar er vandasamt að túlka fólksfjöldaþróun í Rússlandi því allmenn fólksfækkun er í landinu.

Annað sem sést á þessu korti er að á Nýfundnalandi, Grænlandi, Íslandi, Skandinavíu og í Rússlandi er almenn fækkun í minnstu stöðunum en flestir stærri staðir bæta við sig af fólki. Þessi þróun er ekki eins augljós í Alaska og ástæðurnar fyrir því eru meðal annars að fæðingartíðni í litlu bæjunum þar er ennþá tiltölulega há. Þannig er það ekki séríslenskt fyrirbæri að fólk flytji frá litlum þorpum á landsbyggðinni og inn í stærri kjarnana.

Á Grænlandi eru bara tveir bæir sem bæta við sig íbúafjölda: Nuuk og Sisimiut. Á báðum stöðum eru góðir framhalds- og háskólar. Á Íslandi eru þetta Reykjavík og Akureyri sem báðir eru háskólabæir. Í Skandinavíu, Bodø, Tromsø, Alta, Luleå, Rovaniemi. Allt háskólabæir. Eins og áður sagði fylgir Rússland aðeins öðrum lögmálum meðal annars vegna þess að þar er landið enn að jafna sig á löngu tímabili miðstýrðs hagkerfis.

En kannski er það mikilvægasta sem myndin sýnir okkur, að vöxtur er ekki sjálfsagður. Stórar borgir í Rússlandi eins og Murmansk og Krasnojask glíma við fólksfækkun. Sama má segja um marga miðlungsstóra bæi í Norður-Skandinavíu. Fólk sækir einfaldlega til þeirra staða sem bjóða upp á tækifæri til menntunar og góða þjónustu. Og og hversu mikið sem maður getur pirrað sig á vexti Reykjavíkur á kostnað landsbyggðarinnar þá getum við að minnsta kosti huggað sig við að þetta er almenn þróun í stórum hluta okkar heimshluta. Og vissulega værum við verr sett ef Reykjavík væri líka að tapa fólki til stærri borgar utan Íslands.


Engin ummæli: