Ísafjörður er einn allra fallegasti bær landsins og það er aðdáunarvert hvað bæjaryfirvöldum hefur tekist að byggja upp skemmtilegan og virkan miðbæ. Þarna, um miðjan nóvember var fólk á gangi út um allan bæ því að ólíkt flestum öðrum smábæjum á Íslandi er miðbær Ísafjarðar miðpunktur verslunar og þjónustu. (Þetta er að sjálfsögðu stóra vandamál Reykjavíkur en þar hafa borgaryfirvöld haft þá stefnu að skipuleggja stór verslunarhverfi/miðstöðvar utan miðbæjarins með þeirri mjög svo fyrirsjáanlegu afleiðingu að Reykvíkingar koma sjaldan í 101 að degi til).
Annað sem maður tekur eftir þegar langt er milli Ísafjarðarferða, er hversu samgöngur um djúpið eru orðnar góðar. Þröskuldar eru notaleg leið og Steingrímsfjarðarheiðin minnir helst á Holtavörðuheiði - tiltölulega þægilegur fjallvegur. Auðvitað mætti smella brú á einn eða tvo firði ennþá en í öllum megindráttum er þetta fljótfarið. Þá eru nýju Bolungarvíkurgöngin mikil vegabót og núna má segja að Flateyri, Suðureyri, Súðavík, Bolungarvík og Ísafjörður séu orði eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Þingeyri er aðeins lengra frá og framtíð þess byggðalags hlýtur að teljast óviss.
En samt fækkar fólki. Sennilega vantar betri möguleika á háskólamenntun á Ísafjörð og tvímælalaust fleiri opinber störf. Flutningur opinberra starfa (ekki stofnana) út á land ætti að vera forgangsatriði allra ráðuneyta og ríkisstofnana. Þetta eru örugg störf sem skapa nauðsynlegan stöðugleika í fámennari samfélögum. Og oft eru þetta störf sem henta vel fyrir menntaðar konur en það er einmitt sá hópur sem fyrst flýr landsbyggðina. Sennilega þarf meira til á Ísafirði en ég er á því að við eigum að taka slaginn þarna. Ákveða hreinlega að snúa við búsetuþróuninni á Ísafjarðarsvæðinu. Til dæmis með því að kalla saman hóp færustu manna og skipuleggja 10 ára verkefni sem hefði hálfan til einn milljarð á ári til ráðstöfunar til eflingar búsetu á svæðinu. Þetta eru vissulega miklir fjármunir en samt ekki nema um helmingur Héðinsfjarðargangna. Og við gætum lært af þessu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli