29.8.13

Fyrsta maraþonið




Ég hljóp mitt fyrsta maraþon í Reykjavíkurmaraþoni 2013. Þetta var töluverður áfangi fyrir mig persónulega og því langaði mig að skjalfesta ferðasöguna. Maraþon er jú ferðalag miklu frekar en keppni og eins og öll ferðalög þá getur verið erfitt að staðsetja nákvæmlega hvar sagan byrjar því aðdragandinn hlýtur alltaf að vera langur. “Út og heim aftur” hét ferðasaga Hobbitans og sennilega er ekki hægt að hugsa sér betra nafn á ferðasögu. Út í óvissuna – út vil ek – út að borða – út um allt – út að hlaupa… og heim aftur.

Út frá sjónarmiðum krónólógíu er sennilega heppilegast að láta söguna byrja þar sem hún endar: Við endamarkið í Lækjargötu fyrir réttu ári þegar ég lauk hálfu í Reykjavíkurmaraþoninu á tímanum 1:43. Þar tók ég ákvörðun um að mæta aftur að ári og láta gamlan draum rætast og hlaupa heilt maraþon. Þá hafði ég hlaupið Háfslækjarhringinn með Stefáni Gíslasyni tvö ár í röð en ekki æft með skipulegum hætti svo ég vissi að með skipulögðum æfingum ætti þetta að vera fyllilega raunhæft.

Veturinn leið án verulegra hlaupahléa svo ég náði 10-15 km flestar vikur. Alls ekki mikið en þó nóg til að halda haus. Þegar leið að vori var ekki komin almennileg regla á hlaupin og ég byrjaður að fá bakþanka en ég setti mér samt það markmið að hlaupa Selvogsgötu með áðurnefndum Stefáni um miðjan maí. Ég hafði lesið hlaupadagskrána hans einhvern tíman um veturinn og sett miðið á þetta hlaup því það var tiltölulega stutt og nálægt Reykjavík. Þegar til átti að taka var reyndist hlaupið aðeins stutt miðað við hin hlaupin hjá Stefáni; 26 km, sem var fimm kílómetrum lengra en ég hafði mest hlaupið áður og formið – eins og áður sagði – ekki sem best (þegar upp var staðið hlupum við 30 km með 400 m hækkun). Ég ákvað samt að of seint væri að hætta við – búinn að melda mig inn og kominn af víkingum.

Hlaupið var frá Kaldárseli ofan Hafnarfjarðar og eins og leið liggur (ekki) yfir að Selvogi. Seinni hluti leiðarinnar reyndist torfæra þar sem ekki vottaði fyrir götu og ég verð að viðurkenna að ég var farinn að hnjóta við þegar við nálguðumst malarveg sunnan fjalla eftir 26 km. Þá kom í ljós að bíllinn sem átti að sækja okkur var ekki alveg á réttum stað og þar sem við vorum sveitt og veðrið kalt lá beinast við að skokka áfram upp aflíðandi brekku. Bíllinn birtist fljótlega en þá bar svo við að Stefán og félagi hans töldu eðlilegt að hlaupa áfram út að kirkjunni sem þeir vildu meina að væri “rétt hjá”. Félaginn hafði reyndar hlaupið 17 km keppnishlaup daginn áður en það virtist ekki há honum mikið. Kona, sem einnig hljóp með okkur ákvað að setjast inn í bíl enda var hún í nýjum skóm og hafði hlaupið með flakandi blöðrur um nokkurt skeið án þess að hafa þar um mörg orð. Mér datt í hug að nefna að ég væri þriggja barna faðir og tvö þeirra hefðu ekki einu sinni lært mannganginn og því ef til vill óhepplegt ef ég félli frá svona snemma vors, en las stöðuna svo að kúlið væri mikilvægara, kastaði bakpokanum kæruleysislega í skottið og hélt áfram.

Gatan var ekki alltaf greið. Mynd: Stefán Gíslason.

Allan júnímánuð og viku af júlí dvöldum við hjónin í Rússlandi, á heimaslóðum Olgu. Ég náði út að hlaupa nokkrum sinnum en þegar heim kom var ljóst að nú þyrfti að taka ákvörðun: Annað hvort spýta í lófana og taka upp skipulegar æfingar eða láta hálft duga aftur. Ég leitaði á netinu eina kvöldstund og fann að lokum æfingaprógram sem mér sýnist ég ráða við. Viðurkenni að það er kannski ekki mikil reisn yfir því að æfa eftir prógrammi sem ber titilinn “Novice 1” en einhvers staðar þarf að byrja. Síðan liðu vikurnar, hlaupin fóru að fá forgang og þremur vikum fyrir hlaup var lengsti túr prógrammsins, 30 km. Ég var fyrir norðan og ákvað að hlaupa hringinn í kringum Svínavatn sem mér sýndist á Google maps að væri nánast nákvæmlega 30. Þetta var frekar rustic; malarvegur, engin orkugel, brúsarnir og beltið í bænum og eina stoppið á leiðinni var við Auðkúlurétt en þar hljóp ég niður að á til að fá mér vatnssopa. Hlaupið sóttist vel framanaf en eftir 13-14 km tók við mótvindur og töluverð hækkun sem varði í 3-4 km. Þetta fór eiginlega með mig og seinnihlutinn var frekar óþægilegur. Hálfmaraþonið leið framhjá á 1:50 og meðalhraðinn reyndist 5:17mín/km. Þetta var þó greinilega of hratt farið því ég þurfti 2-3 tíma til að jafna mig eftir hlaupið – einhver hafði slökkt á meltingarkerfinu (sennilega í von um að mikilvægari funksjónir myndu ekki bera varanlegan skaða) svo hádegismaturinn fékk ekki aðgang að smáþörmunum fyrr en í annarri tilraun.

Eftir þetta tóku við bærilegri vegalengdir en þar með sífellt meiri óvissa um hvert maður væri að fara. Ég ákvað samt að stefna á að klára á innan við fjórum tímum. Fannst fínt að hafa markmið og fjórir er heil tala og því hentug sem markmið. Galli að hafa ekki hlaupaúr því ef maður hleypur aðeins of hratt í byrjun, hrynur allt eftir 30 km en ef maður hleypur of hægt getur verið erfitt að vinna það upp. Og hvað gerist við líkamann eftir 30 km? Fær maður krampa? Rekst maður á vegg? Gefst maður hreinlega upp? Það hjálpaði lítið að spyrja reynda hlaupara ráða: “Ég tek nú bara hattinn ofan af fyrir öllum sem klára maraþon á minna en fjórum tímum” sagði einn. “Mitt fyrsta maraþon var bara það erfiðasta sem ég hef gert” sagði annar og best var “ …já það vilja flestir klára á innan við fjórum tímum” (les: …en fæstum tekst það í fyrsta skipti). Netið: “Það geta allir hlaupið 30 km en það eru síðustu 12 sem skipta máli”.

En á meðan öllu þessu fór fram, átti sér stað önnur atburðarás í “parallell universe” í grendinni. Hún Olga mín ákvað nefnilega að hlaupa 10 km svona rétt til að fá nasasjón af stemmingunni um fjórum vikum fyrir hlaup. Ég benti henni á að hún ætti bara að taka þessu rólega og byggja sig hægt upp því það væri varasamt að fara of hratt af stað. En áður en ég vissi af var hún farin að hlaupa 10-12 km svo 12-15 og þá var ekkert að gera nema öppgreida og skrá hana í hálft. Hún hélt áfram að æfa og hljóp lengst 18 km á æfingatímabilinu án þess að finna til neins. Býsna gott svona ári eftir barnsburð og enn með dótturina á brjósti!

Það stefndi því allt í að við færum saman á rásmarkið kl. 8.40 á laugardegi og allt í einu fór ég að velta fyrir mér að þessi hlaupapör sem maður les um í blöðunum væru kannski bara venjulegt fólk, þegar allt kemur til alls.



Dagurinn rann upp. Ég þurfti ekki að kvíða því að sofa yfir mig því dóttirin sér um ræsingu um sexleitið á hverjum degi. Þá var það bara hafragrauturinn með rúsinum, banani og kaffi. Systir mín hafði boðist til að passa svo tíminn leið hratt við undirbúning og frágang. Við mættum niður á Lækjargötu um hálftíma fyrir hlaup og komum töskunum fyrir í yfirfullum MR. Það var kalsaveður og ég var ánægður með að hafa valið síðerma bol fyrir daginn. Fyrr en varði stóðum við saman í rigningunni í græna ráshólfinu í miklum troðningi. Einhvers staðar í fjarska heyrðist maður tala í míkrafón um stund (seinna komst ég að því að það hefði verið forsetinn) og svo reið af skot. Ekkert gerðst um stund (enginn dó) en síðan losnaði um þvöguna og við runnum af stað.

Ég var búinn að ákveða að taka fyrri hlutann frekar rólega – hafði ekki áhuga á að vera að niðurlotum kominn einhvers staðar í Fossvogsdalnum, eigandi eftir að hlaupa út Ægissíðuna og út að Gróttu og til baka. Við Olga fylgdumst því að fram út nesið og til baka. Hún sagði mér hraðann annað slagið sem var um 5:35 mín/km. Ég var búinn að reikna út að ég þyrfti að halda 5:40 til að ná fjögurra tíma markmiðinu og var staðráðinn í að hlaupa hægt framan af og sjá frekar til seinni hlutann hvort ég ætti innistæðu fyrir auknum hraða. Eftir um 10 km ákvað ég að tími væri kominn til að auka hraðann aðeins en í raun var Olga alltaf stutt á eftir mér og klárað hálfmaraþonið aðeins 4-5 mínútum á eftir mér.



Á móts við Snorrabraut átti ég von á að sjá Elías, son minn og viti menn, það stóð heima. Hann var mættur með myndavélina og ég stoppaði aðeins til að spjalla við hann. Nokkrar sekúndur skipta ekki öllu máli á svona degi. Reykjavíkurmaraþon er miklu frekar uppskeruhátíð skokkara en íþróttaviðburður; hljómsveitar með reglulegu millibili, fólk úti á tröppum að berja potta, bílar sem flauta, feðgin með “áfram mamma” spjald og alls staðar brosandi andlit.

Ég reyndi að halda áfram á rólegu tempói en vissi í sjálfu sér ekkert hversu hratt ég fór. Sigtaði út bök sem virtust áreiðanleg og passaði að missa þau ekki langt fram úr mér. Vissi líka Snorra Birni á eftir mér en hann hafði stefnt á 4:10. Ég fékk mér gel númer tvö af fjórum við Íslandsbanka; var búinn að ákveða að taka þau frekar snemma ef ske kynni að meltingin færi í ólag. Stuttu seinna, eða við Holtagarða var svo boðið upp á banana og súkkulaði. Ég glutraði banananum niður en bruddi nokkra bita af súkkulaði. Formið ennþá mjög fínt: engin mæði og engir verkir nema smávægisleg eymsli í nára.

Áfram haldið og svo kom að krossgötunum við Kringlumýrarbraut. Hér héldu hálfmaraþonarar áfram en þetta árið var ég í hópi hinna, sem beygðu til vinstri. Þarna leið mér eins og maraþonið væri að byrja. Ég hafði ekki hlaupið þennan part af leiðinni áður svo þarna var farið út í óvissuna. Fyrst í stað var leiðin nokkuð á fótinn og ég hægði aðeins á mér því ég hafði lítinn áhuga á að fá krampa í kálfana svona snemma í hlaupinu. Reyndi í staðinn að einbeita mér að örsögunum sem liðu framhjá: Ameríkani stoppaði konu með hund og bað hana að taka mynd af sér; kona beið á gangstéttinni með Egils kristal og súkkulaði kex handa manninum sínum; einhverjir stukku út undir næsta sitkagreni að létta á sér; ég fór fram úr eldgömlum manni sem ég skildi ekki hvernig hafði komist alla þessa leið (á undan mér). Svona gengur þetta

Í Laugardalnum var 21 km markið og þar var loksins klukka: 1:59. Tæplega 15 mínútum frá tímanum mínum í hálfmaraþoninu í fyrra. Þá var ég hins vegar við það að æla en núna var ég hress og klár í annan hring. Ég sá að ef ég ætti að ná markmiðinu um að hlaupa á undir fjórum tímum yrði ég að fara seinni hlutann heldur hraðar en þann fyrri. Negatíft splitt, heitir það víst á fagmálinu og flestir reyndir hlauparar mæla með þannig skipulagi. Ég er ekki reyndur hlaupari en hef mikla reynslu í því að læra af öðrum og taldi ágætis líkur á að þetta myndi takast. Þarna náði ég að koma bananana í mig klakklaust, sem reyndar þýddi að ég hljóp næstu 1-2 km með leiðinda hlaupasting. Kannaðist svosem við þá stöðu því ég fékk yfirleitt hlaupasting þegar ég fór út að hlaupa eftir kvöldmat. Note to self: Láta banana bara eiga sig í maraþonhlaupum.

Smátt og smátt fór ég að auka hraðann. Héðan í frá held ég að varla meir en einn eða tveir hlauparar hafi farið fram úr mér en ég fór fram úr býsna mörgum (sem þýðir ekkert annað en að ég hafði stærra “negatíft splitt” en flestir í kringum mig). Áfram hélt ég að miða út fólk sem ég ætlaði mér að fylgja. Í 2-3 km hélt ég mig á eftir þremur hávöxnum og grönnum hlaupurum sem virtust taka þessu létt og spjölluðu saman í rólegheitum. Mér óaði einhvern vegin við að taka fram úr svona próurum og það var veitt mér ákveðna öryggistilfinningu að hafa þá svona á undan sér. En þegar við komum niður í Elliðaárdalinn var ekkert annað að gera. Þetta er svona eins og að lóga hundi – eitthvað sem maður bara verður að haska sér í og svo er það búið og gert. Næst tóku við tveir ameríkanar sem virkuðu líka mjög reyndir í þessum geira. Ég fylgdi þeim eftir mest allan Fossvogsdalinn en á endanum var þetta orðið pínlegt því ég lá hreinlega í hælunum á þeim. Það var því ekkert að gera nema lóga þeim líka. Eftir þetta hætti ég að mynda tilfinningaleg tengsl við bakhluta annarra hlaupara.

Við endimörk Fossvogsdalsins og við rætur Öskjuhlíðar voru nokkrar brekkur sem best var að fara varlega í og þar byrjaði ég að sjá fólk ganga við fót. Ekkert við því að gera; 27-28 km búnir og mikið eftir. Þarna versnaði veðrið líka og þegar við komum út á berangurinn við Nauthólsvík var nettur kalsi og suddi beint í andlitið. Þetta hentaði mér ágætlega, enda frekar vel klæddur en ég gat ímyndað mér að fyrir suma hafi þetta ekki verið sérlega notalegt. Þrjátíu km markið var við endann á flugvellinum. Tólf eftir. Þrjátíu og tveir og hvatningarliðið hrópaði að nú væru bara 10 eftir. Sú var tíð að ég var gjörsamlega búinn eftir stóra hringinn á Hvanneyri, sem er 5 km og hafði sem fjarlægt langtímamarkmið að ná að hlaupa tvo hringi. Of snemmt að hrósa sigri.

Við gatnamót Hofsvallagötu biðu systir mín og mágur og hrópuðu hvatningarorð og að dóttirin svæfi í nálægum barnavagni. “Já, alveg rétt – ég á dóttur”, hugsaði ég. Maður verður einkennilega introvert í svona hlaupi. Örlitlu lengra voru trommararnir ennþá og í miklu fjöri um það bil þremur tímum eftir að ég sá þá síðast. Þetta eru alvöru menn! Mér datt í hug að taka nokkur riverdans-spor en yfirmaður í deildinni, sem sér um viðburðastjórnun og kínetík taldi það af og frá. Fulltrúar allra vöðvahópa, sem að jafnaði tækju þátt í þannig verkefnum sætu á neyðarfundum með tengiliðum sínum frá lifur og lungum því einhver asni uppi í stjórnstöð neitaði að hætta að hlaupa, sama hvaða boð væru send um skort á aðföngum og hættu á ofhitun. Hmm… við náðum málamiðlun um að hendi skyldi lyft og kolli kinkað en lengra var þessu ekki þokað.

Úti á Gróttu fóru ýmis óþægindi að gera vart við sig en ekkert sem hafði teljandi áhrif. Ég breytti aðeins hlaupastílnum; stytti skrefin og reyndi að láta mig fljóta áfram. Hér og þar voru menn að teygja á kálfum og lærum aðrir gengu við fót og enn aðrir höltruðu áfram. Ég sá að ég hafði ekki yfir miklu að kvarta – dáðist að hörkunni í þeim sem héldu áfram með krampa og kvölum.

Áfram tikkuðu kílómetrarnir 37 – 38 – 39 – 40. Fjörutíu! Það er töluvert! “Hversu langir geta tveir km verið?” hugsaði ég og ákvað að trappa hraðann upp. Sleppti síðasta vatnsstoppinu og fór að lengja skrefin, leyfa mér þann munað að lenda á hælunum og brenna upp síðustu varabirgðunum. Það var góð tilfinning að hlaupa á góðu tempói inn Geirsgötuna og beygja inn á Lækjargötuna. Grænklæddur maður, sem ég hafði tekið framúr skömmu áður náði mér aftur á Lækjargötunni. Datt ekki í hug að fara í kapp við einhvern grænklæddan mann frá Bretlandi en reyndi frekar að njóta þess að hlaupa inn síðustu metrana. Ég var ekki í kappi við annað fólk – ég var að klára maraþon.

Þrátt fyrir endasprettinn náði ég að fókusera á klukkuna við endamarkið: 3:52 sem þýddi að ég hafði klárað á 3:50. Það var eiginlega eins og best var á kosið. Ég hafði klárað seinni hálfmaraþonið á 10 mín styttri tíma en það fyrra en var samt í ágætlega gönguhæfu ástandi. Novice 1 var kannski ekki alveg út í bláinn!



Eftir að hafa skilað flögu og fengið mér brauðbita hitti ég Olgu, Elías og barnavagninn. Olga hafði hlaupið sitt fyrsta hálfmaraþon á 2:02, sem verður að teljast virkilega góður tími, sérstaklega þar sem hún hafði ekki byrjað að hlaupa fyrr en fimm vikum fyrir hlaup. Hún var ótrúlega fersk – hafði farið heim í sturtu, fengið sér snarl, sótt dótturina í pössun og var komin niður í bæ aftur. Það kæmi mér ekki á óvart þótt hún tæki heilt maraþon á næsta ári.

Eftirköstin
Það var farið snemma að sofa um kvöldið og daginn eftir bar nokkuð á umkvörtunum frá hnjám ásamt góðri matarlyst. Olga upplýsti að síðstu 5 km hefði hún hlaupið á blöðrum – sennilega vegna þess að hún var í bómullarsokkum sem blotnuðu náttúrulega í rigningunni. Sem fyrrverandi atvinnumaður í göngu á háum hælum lét hún það lítið á sig fá en ég setti hlaupasokka á gjafalistann. Annars vorum við í ágætisformi og ánægð með okkur þegar við skáluðum í freyðivíni um kvöldið og ræddum um næstu markmið á hlaupasviðinu.

En við drekkum örugglega ekki blátt Powerade í bráð.


25.11.11

Milljarð á Ísafjörð

Fór til Ísafjarðar í síðustu viku á ársfund atvinnuþróunarfélaga. Veðrið gott og við hjónaleysin ákváðum að gera ferð úr þessu og fara hringinn.

Ísafjörður er einn allra fallegasti bær landsins og það er aðdáunarvert hvað bæjaryfirvöldum hefur tekist að byggja upp skemmtilegan og virkan miðbæ. Þarna, um miðjan nóvember var fólk á gangi út um allan bæ því að ólíkt flestum öðrum smábæjum á Íslandi er miðbær Ísafjarðar miðpunktur verslunar og þjónustu. (Þetta er að sjálfsögðu stóra vandamál Reykjavíkur en þar hafa borgaryfirvöld haft þá stefnu að skipuleggja stór verslunarhverfi/miðstöðvar utan miðbæjarins með þeirri mjög svo fyrirsjáanlegu afleiðingu að Reykvíkingar koma sjaldan í 101 að degi til).

Annað sem maður tekur eftir þegar langt er milli Ísafjarðarferða, er hversu samgöngur um djúpið eru orðnar góðar. Þröskuldar eru notaleg leið og Steingrímsfjarðarheiðin minnir helst á Holtavörðuheiði - tiltölulega þægilegur fjallvegur. Auðvitað mætti smella brú á einn eða tvo firði ennþá en í öllum megindráttum er þetta fljótfarið. Þá eru nýju Bolungarvíkurgöngin mikil vegabót og núna má segja að Flateyri, Suðureyri, Súðavík, Bolungarvík og Ísafjörður séu orði eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Þingeyri er aðeins lengra frá og framtíð þess byggðalags hlýtur að teljast óviss.

En samt fækkar fólki. Sennilega vantar betri möguleika á háskólamenntun á Ísafjörð og tvímælalaust fleiri opinber störf. Flutningur opinberra starfa (ekki stofnana) út á land ætti að vera forgangsatriði allra ráðuneyta og ríkisstofnana. Þetta eru örugg störf sem skapa nauðsynlegan stöðugleika í fámennari samfélögum. Og oft eru þetta störf sem henta vel fyrir menntaðar konur en það er einmitt sá hópur sem fyrst flýr landsbyggðina. Sennilega þarf meira til á Ísafirði en ég er á því að við eigum að taka slaginn þarna. Ákveða hreinlega að snúa við búsetuþróuninni á Ísafjarðarsvæðinu. Til dæmis með því að kalla saman hóp færustu manna og skipuleggja 10 ára verkefni sem hefði hálfan til einn milljarð á ári til ráðstöfunar til eflingar búsetu á svæðinu. Þetta eru vissulega miklir fjármunir en samt ekki nema um helmingur Héðinsfjarðargangna. Og við gætum lært af þessu.

10.11.11

Akureyri, Alta, Sisimiut...


Myndin hér við hliðina sýnir fólksfjöldabreytingar í bæjum og þorpum á norðurheimskautssvæðinu. Þetta er mjög áhugaverð mynd og ekki bara vegna óvenjulegs sjónarhorns á heiminn. Þarna sést til dæmis að Anchorage, Reykjavík, Murmansk og Krasnojask eru stærstu borgirnar á þessu svæði en á meðan rússnesku borgirnar glíma við fólksfækkun þá er töluverð fjölgun í Reykjavík og Anchorage. Reyndar er vandasamt að túlka fólksfjöldaþróun í Rússlandi því allmenn fólksfækkun er í landinu.

Annað sem sést á þessu korti er að á Nýfundnalandi, Grænlandi, Íslandi, Skandinavíu og í Rússlandi er almenn fækkun í minnstu stöðunum en flestir stærri staðir bæta við sig af fólki. Þessi þróun er ekki eins augljós í Alaska og ástæðurnar fyrir því eru meðal annars að fæðingartíðni í litlu bæjunum þar er ennþá tiltölulega há. Þannig er það ekki séríslenskt fyrirbæri að fólk flytji frá litlum þorpum á landsbyggðinni og inn í stærri kjarnana.

Á Grænlandi eru bara tveir bæir sem bæta við sig íbúafjölda: Nuuk og Sisimiut. Á báðum stöðum eru góðir framhalds- og háskólar. Á Íslandi eru þetta Reykjavík og Akureyri sem báðir eru háskólabæir. Í Skandinavíu, Bodø, Tromsø, Alta, Luleå, Rovaniemi. Allt háskólabæir. Eins og áður sagði fylgir Rússland aðeins öðrum lögmálum meðal annars vegna þess að þar er landið enn að jafna sig á löngu tímabili miðstýrðs hagkerfis.

En kannski er það mikilvægasta sem myndin sýnir okkur, að vöxtur er ekki sjálfsagður. Stórar borgir í Rússlandi eins og Murmansk og Krasnojask glíma við fólksfækkun. Sama má segja um marga miðlungsstóra bæi í Norður-Skandinavíu. Fólk sækir einfaldlega til þeirra staða sem bjóða upp á tækifæri til menntunar og góða þjónustu. Og og hversu mikið sem maður getur pirrað sig á vexti Reykjavíkur á kostnað landsbyggðarinnar þá getum við að minnsta kosti huggað sig við að þetta er almenn þróun í stórum hluta okkar heimshluta. Og vissulega værum við verr sett ef Reykjavík væri líka að tapa fólki til stærri borgar utan Íslands.


9.11.11

...léttleiki tilverunnar

Ákveðið vandamál að vera til; maður þarf að mynda sér skoðun á málefnum sem eru eiginlega ekki málefni heldur einkamál fólks.

Kona segir alþjóð að hún hafi verið beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi af hendi föður síns sem nú er látinn. Önnur ættmenni hennar efast. Hálf þjóðin telur að núverandi yfirmaður þeirra samtaka sem faðirinn vann hjá seinni hluta starfsæfi sinnar eigi að segja starfi sínu lausu. Og okkur hinum er gert að hafa skoðun! Ég er hreinlega ekki viss...

Og hópur fólks (kvenna) klæðir sig í dulargerfi og lýsir því yfir að ónafngreindir menn hafi sýnt áhuga á að kaupa kynlífsþjónustu. Þær afhentu lögreglunni nöfn þessara manna og vonuðust hugsanlega eftir því að þeir yrðu handteknir (sem lögum samkvæmt var ekki hægt) ... og væntanlega vonuðust þær líka til þess að verða ekki sjálfar handteknar fyrir yfirlýst brot á lögum (sem hefði verið hægt).

Þetta er eiginlega óttaleg vitleysa, svo ekki sé meira sagt en samt notar skuldum hrjáð þjóð tækifærið og ræðir ekki um annað í tvær til þrjár vikur.

8.11.11

Sala Grímsstaða

Það er hver að verða síðastur að hafa skoðun á kauptilboði Huang Nobu í jörðina Grímsstaði á Fjöllum því fljótlega mun innanríkisráðherra opinbera hvort hann veiti undanþágu frá lögum vegna kaupana. Það er auðvelt að hafa margar skoðanir á þessu máli. Í fyrsta lagi liggur fyrir að aðilar utan EES mega ekki kaupa land á Íslandi. Hins vegar er líka ljóst að þau lög halda ekki því hver sem er getur stofnað skúffu í Evrópu og látið hana kaupa landið. Þess vegna skyldi maður ætla að við þyrftum að fara í ákveðna prinsipp umræðu um hvort við séum til í að leyfa útlendingum að kaupa allt land á Íslandi. Kannski er það í góðu lagi en kannski ekki en aðalatriðið er að samkvæmt núverandi lögum er þetta hægt. Þessi umræða hefur ekki átt sér stað.

Þess í stað hefur mestöll umræðan snúist um mögulegar og ómögulegar ástæður fyrir því að þessi ágæti maður hefur áhuga á Grímsstöðum og honum eru miskunarlaust gerðar upp bæði afar göfugar og afar vafasamar ástæður. Þetta skiptir hins vegar sáralitlu máli því notkun á landi er takmörkuð með lögum og í skipulagi sveitarfélaga. Grímsstaðir voru búnir að vera til sölu í langan tíma og það þurfti því varla að koma á óvart að einhverjum skyldi einhverntíman detta í hug að kaupa.

Þegar upp er staðið þá er hér um að ræða einkamál. Einn maður selur öðrum manni land. Rétt eins og einn maður selji öðrum manni bíl. Við eigum ekki að þurfa að ræða þetta. Ef við viljum ekki að jörð á borð við Grímsstaði sé seld þá eigum við ekki að hafa hana í einkaeign. Svo einfalt er það.

11.5.09

Rífum Þingvallakirkju!

Berlusconi er tvímælalaust litríkasti þjóðarleiðtogi Evrópu - og einn þeirra sérstökustu í heimi. Örugglega spilltur, en svo innilega laus við það sem Danir kalla "situationsfornemmelse" að maður hlýtur að fyllast aðdáun.

Nýjasta útspil hans var að hrósa borgarstjóranum í Róm með því að bera kirkjur borgarinnar saman við ómerkilega timburkirkju sem hann var eitt sinn dreginn úr rúmi til að berja augum. Kirkjan var svo ómerkileg að hann var ekki einu sinni klár á því í hvaða landi hún var - en giskaði á Finnland. Finnar, sem eru með sérkennilegasta þjóðarhúmor Evrópu, klikkuðu á að njóta stundarinnar og móðguðust. Töldu ómögulegt að þetta gæti verið finnsk kirkja. Ekki vegna þess að það væri ekki yfirdrifið af ljótum timburkirkjum í Finnlandi, heldur hefði ítalski þjóðarleiðtoginn aldrei stoppað nægjanlega lengi í hinu skógum prýdda landi til að skoða úrval afskekktra kirkna.

Hins vegar var eitthvað við lýsingu Berlusconi sem hringdi bjöllu hjá Finnum. Ljót, afskekkt timburkirkja í norðlægu landi. Það könnuðust þeir við. "Þetta hlýtur að vera Þingvallakirkja á Íslandi." Hún er afskekkt, lítil og ómerkileg timurkirkja sem allir þjóðarleiðtogar eru neyddir til að skoða ef þeir hætta sér í opinbera heimsókn til Íslands. Enginn hafði þorað að segja það áður, en fyrst á það var minnst - jú, mikið rétt - þetta hlýtur að vera Þingvallakirkja.

Kann að hljóma illa fyrir Íslendinga - en við ættum ef til vill bara að þakka Finnum fyrir þann kurteisisvott að minnast ekki á hina þrjá skyldu-áfangastaði erlendra þjóðhöfðinga: Hverinn sem hefur ekki gosið í 30 ár; foss sem má skoða á sérhverju póstkorti, og virkjun sem hefur 15% orkunýtingu.

Norræn samstaða - klikkar ekki!

9.5.09

Etanól út - rafmagn inn!

Ný rannsókn vísindamanna við Kaliforníuháskóla sýnir að það er mun betra að breyta lífmassa í rafmagn en etanól. Etanól hefur um árabil verið notað sem umhverfisvænt eldsneyti á lítið breyttar bensínvélar. Gallinn við etanólið er hins vegar að framleiðsla þess keppir við matvælaframleiðslu og það er ekki áhugavert til lengdar í heimi sem berst við að lifa af einni jörð.

Sprengihreyfillinn nýtir orku mjög illa og þess vegna er hagkvæmara að brenna lífmassann og nýta orkuna til að hlaða rafhlöður fyrir rafbíla. Þetta mun ekki draga úr framleiðslu á lífmassa til skemmri tíma en til lengri tíma litið styrkir þetta stöðu rafbílsins. Og þar sem rafbíllinn getur notað rafmagn frá vindmyllum, sólarsellum eða kjarnorku, þá er líklegt að eftirspurn eftir lífmassa til orkuframleiðslu minnki.

Þetta eru líka góðar fréttir fyrir Ísland því við eigum mikið af rafmagni en lítið af lífmassa. Við ættum mjög auðvelt með að skipta stærstum hluta okkar bílaflota yfir í rafbíla á tiltölulega fáum árum. Þar með værum við mikil til óháð innfluttri olíu og gætum komist nálægt því að vera orkulega sjálfbær.