30.4.08

Íbúafundur á Hvanneyri

Í gærkvöldi hélt sveitarfélagið íbúafund á Hvanneyri. Rektor Landbúnaðarháskólans sagði frá hugmyndum skólans um framtíðaruppbyggingu. Stefnt er að mikilli fjölgun nemenda næstu árin og ljóst að umsvifin munu hafa veruleg áhrif á íbúaþróun á Hvanneyri. Á fundinum voru íbúar (ekki mjög gamlir) sem mundu þá tíð þegar einungis voru 50 íbúar með lögheimili á Hvanneyri. Nú losa þeir 300 og ekki er ólíklegt að sú tala muni tvöfaldast á næstu 10-15 árum.

Þegar ég kom fyrst til Hvanneyrar fyrir tæplega 20 árum þekktu allir alla og ríflega það. Núna þekkja ekki lengur allir alla, þótt vissulega þekki flestir flesta. Ég held það megi segja að Hvanneyri sé mjög áhugavert dæmi um þróun þéttbýlis - bæði út frá skipulagsmálum og í samfélagslegu tilliti. Staðurinn hefur allar forsendur til áframhaldandi vaxtar; landrými er mikið, umhverfið fallegt, samgöngur góðar og kjölfestuatvinnurekandi staðarins (LBHÍ) í miklum vexti.

Það er hins vegar mikilvægt að stækkunin sé sjálfbær. Með því á ég við að "samfélagið" fylgi með íbúaþróuninni. Samfélag er nefnilega annað og meira en hópur af fólki á sama stað - samfélag felur í sér menningu, siði, sögur og ekki síst tengsl milli fólks. Ef þetta netverk nær ekki að vaxa samhliða íbúafjölgun veikist "samfélagið" og það er slæmt.

Sterk samfélög einkennast af trausti, félagslegum auði og ríkri samkennd. Veik samfélög eru sundurlaus og "kemur-mér-ekki-við" verður ríkjandi viðhorf. Við treystum þeim sem við þekkjum og náum að samsvara okkur við. En til að samsvara okkur við gildi annarra verðum við að kynnast þeim og það tekur tíma. Þess vegna er hraður vöxtur ekki endilega jákvæður fyrir samfélög.

...en hraður vöxtur er betri en hraður samdráttur....

Gildi góðra vörumerkja

Hreiðar Már telur mikilvægt að Kaupþing sameinist SPRON til að tryggja sér gamalgróið vörumerki sem neytendur treysta. Það er gott að stjórnendur Kaupþings hafa áttað sig á gildi gamalgróinna vörumerkja. Þeir notuðu tugi milljóna til að má út öll ummerki Búnaðarbankans sem var eitt af best þekktu vörumerkjum fjármálageirans á Íslandi. Síðan var nokkurra ára flopp með KB-banka, áður en Kaupþing varð ofaná. Þá á að sameinast SPRON til að vinna traust íslenskra viðskiptavina. Það tekst örugglega.

ps. SPRON er sennilega eitt fyrsta raunverulega fórnarlamb bankakreppunnar. Gamalgróinn banki sem er kominn að fótum fram. Var settur á markað í haust og þeir fyrstu sem seldu var stjórn bankans.

28.4.08

Strætó á Vesturlandi

Félag eldri borgara í Borgarnesi ályktaði nýlega um almenningssamgöngur, eins og Skessuhornið greinir frá á heimasíðu sinni. Ástæðan er nýleg umræða um að þjónusta Strætó nái til Borgarness, Selfoss og Keflavíkur. Tilraun með strætó upp á Akranes hafa gengið vonum framar. Einu vandamálin hafa verið yfirfullir vagnar - áður óþekkt vandamál hjá Strætó á Íslandi.

Áhugi nágrannabyggða Reykjavíkur á almenningssamgöngum er eðlilegt skref í því sem kalla má þéttbýlisvæðingu. Íbúar þessara svæða líta í auknum mæli á sig sem hluta af þéttbýli suðvesturhornins og gera þar af leiðandi kröfur um sambærilega þjónustu. Það er hins vegar ljóst að kostnaðurinn á hverja ferð verður ekki borinn uppi af núverandi gjaldskrá Strætó. Þá eru tvær leiðir: Hafa dýrara í lengri ferðirnar eða borga mismuninn úr sveitarsjóði. Hvorug leiðin er sérlega spennandi en líkleg niðurstaða er sambland beggja.

Í flestum erlendum borgum sem ég þekki til eru fargjöld í almenningssamgöngur mishá eftir því hversu langt maður ferðast. Það væri ekki óeðlilegt að maður þyrfti að borga meira fyrir að fara frá Lækjartorgi að Brúartorgi í Borgarnesi heldur en frá Lækjartorgi að Hlemmi.

Hversu mikill má munurinn vera? Ef við lítum á raunkostnað fyrir bílferð, þá kostar um 230 kr í göngin og til viðbótar eru um 75 km. Á bíl sem eyðir 10 lítrum á hundraðið og með bensínkostnað nálægt 150 kr þá er bara eldsneytiskostnaðurinn 1125. Samanlagður beinn útlagður kostnaður miðað við einn mann í bíl er því um 1350 krónur. Ég myndi halda að strætómiðinn mætti kosta á bilinu 30-50% af þessari upphæð.

ps. Skv. ríkisskattstjóra kostar hver ekinn km 75 kr. Hann telur því bílferðina suður kosta tæplega 6000 kall!

27.4.08

Loksins Spaugstofulok

Það fór eins fyrir Spaugstofunni og mörgum þeim sem hún hæddi: Hún þekkti ekki vitjunartíma sinn. Þeir fáu þættir sem ég hef horft á síðustu vetur hafa verið lítið annað en veikur endurómur af gullöldinni. Grínið hefur misst fínleikann og skerpuna - orðið stórkallalegt eins og það sé samið fyrir þorrablót kallaklúbba. Tilraunir til þjóðfélagsádeilu hafa sveiflast á milli þessa að vera ófyndnar og meiðandi. Hugmyndavinnan fátækleg.

Laugardagskvöld eftir fréttir er "prime-time" í sjónvarpi. Við verðum að gera miklar kröfur til þess efnis sem ríkisfjölmiðillinn setur á þennan tíma, en ekki festa okkur í nostalgíu. Þátturinn í gær var klisjukennd tilraun til að skilja í sátt eftir óþægilegar uppákomur vetrarins. Gott grín þarf ekki að afsaka sig líkt og þarna var gert en "ástsælustu grínistar þjóðarinnar" verða að skilja við sáttir.

Okkur er lofað einum vetri enn - og svo ekki meir.

26.4.08

Tvö græn lón

Síðustu vikur hafa tveir aðilar opinberað hugmyndir um baðlón á Vesturlandi. Annars vegar er hópur fólks undir forystu Margrétar Bjarkar Björnsdóttur sem áformar að breyta Lýsuhól í ferðamannastað. Þar er að finna heitt ölkelduvatn sem hefur verið notað til heilsubótar og lækninga svo öldum skiptir. Heitt ölkelduvatn er raritet á okkar jörð og ef vel tekst til verður þetta einn af áhugaverðustu ferðamannastöðum á landinu.

Hitt græna lónið er hugmynd sem Kjartan Ragnarsson hefur unnið með í nokkurn tíma. Hún gengur út á að setja upp baðlón við Deildartunguhver og Reykjadalsá í Borgarfirði. Deildartunguhver er vatnsmesti hver í Evrópu og Kjartan er frumkvöðull af guðs náð. Það er því ástæða til að vera bjartsýnn.

Aflífun dýra

Skessuhornið birti stutta frétt um aflífun minka. Þar var rætt við Sif Traustadóttur sem er formaður dýralæknafélags Íslands um svokallaðar minkasíur. Þetta er veiðitæki sem drekkir minkum og hefur reynst afar árangursríkt. Sif segir: „Ég er hrædd um að uppi yrði fótur og fit ef við dýralæknar myndum aflífa hunda og ketti fólks á þennan hátt. Það virðist nefnilega ekki vera sama hvaða dýr er um að ræða. Ef á að aflífa mink má gera það á þennan hátt eða í lásboga eða annan ómannúlegan hátt, en ef um er að ræða dýr sem stendur fólki nær, þá gegnir öðru máli.“

Þetta eru orð í tíma töluð og vonandi heldur Dýralæknafélagið áfram með málið. Þótt ég sé hlynntur staðbundnum minkaveiðum til að vernda fugla og fiskalíf tel ég það siðferðislega skyldu okkar að lóga minkunum á mannúðlegan hátt. Við gerum strangar kröfur til aflífunar í sláturhúsum og það er engin ástæða til að þær kröfur eigi ekki líka við um veiðar.

25.4.08

Mótmæli

Mikið er notalegt að sjá hversu viðvaningslega lögreglan tók á vörubílstjórum í gær. Ég vil ekki búa í landi þar sem óeirðalögreglan er í góðri æfingu.

Verra að sjá viðvangisleg vinnubrögð fréttamanna; öllum ráðum beitt til að gera sem mest úr tiltölulega einfaldri uppákomu. Allar reglur um hlutlæga og yfirvegaða umfjöllun fjúka.

Er virkilega einhver sem hefur samúð með vörubílstjórum: Þeir vilja ódýrari olíu, þrátt fyrir að þeir búi nú þegar við eitt ódýrasta olíuverð í Evrópu og þeir vilja sleppa við að fylgja almennum reglum um hvíldartíma. Hvað næst: Sérstaka undanþágu frá reglum um að ganga frá farmi þannig að hann losni ekki?

23.4.08

Small is beautyful

Lítil ríki geta margt. Þau mega láta í sér heyra og eiga að axla ábyrgð í stórum heimi. En reynum að halda smá sans fyrir hlutföllum. Lýðræði byggir á sans fyrir hlutföllum. Ef maður er margir þá á maður mikinn rétt - ef maður er fáir á maður lítinn rétt. Við erum ekki aðeins fá - við erum örfá. Og við eigum ekki rétt á að sitja við sama borð og leiðandi þjóðir í heiminum. Við eigum ekki rétt á að sitja í Öryggisráðinu. Og jafnvel þótt við náum að sannfæra nógu marga leiðtoga þriðjaheims landa um að við munum síðar meir styðja þá til setu í Öryggisráðinu, til að við náum kjöri, þá munum við engu ráða.

Veðrið

Fyrsta bloggið - varla við hæfi að skrifa um annað en veðrið. Annað væri nánast föðurlandssvik. Í fyrsta skipti í mörg ár er þolanleg veðurspá fyrir sumardaginn fyrsta eftir þreytandi vetur. Sumardagurinn fyrsti er í takti við annað taktleysi okkar Íslendinga; þorum ekki að horfast í augu við veruleikann. Sumarið er bara tveir mánuðir og hvorugur góður . Eins og franskur sendiherra í Danmörku sagði eitt sinni um veðrið þar: Vont veður í fjóra mánuði og vetur í átta.