Félag eldri borgara í Borgarnesi ályktaði nýlega um almenningssamgöngur, eins og Skessuhornið greinir frá á heimasíðu sinni. Ástæðan er nýleg umræða um að þjónusta Strætó nái til Borgarness, Selfoss og Keflavíkur. Tilraun með strætó upp á Akranes hafa gengið vonum framar. Einu vandamálin hafa verið yfirfullir vagnar - áður óþekkt vandamál hjá Strætó á Íslandi.
Áhugi nágrannabyggða Reykjavíkur á almenningssamgöngum er eðlilegt skref í því sem kalla má þéttbýlisvæðingu. Íbúar þessara svæða líta í auknum mæli á sig sem hluta af þéttbýli suðvesturhornins og gera þar af leiðandi kröfur um sambærilega þjónustu. Það er hins vegar ljóst að kostnaðurinn á hverja ferð verður ekki borinn uppi af núverandi gjaldskrá Strætó. Þá eru tvær leiðir: Hafa dýrara í lengri ferðirnar eða borga mismuninn úr sveitarsjóði. Hvorug leiðin er sérlega spennandi en líkleg niðurstaða er sambland beggja.
Í flestum erlendum borgum sem ég þekki til eru fargjöld í almenningssamgöngur mishá eftir því hversu langt maður ferðast. Það væri ekki óeðlilegt að maður þyrfti að borga meira fyrir að fara frá Lækjartorgi að Brúartorgi í Borgarnesi heldur en frá Lækjartorgi að Hlemmi.
Hversu mikill má munurinn vera? Ef við lítum á raunkostnað fyrir bílferð, þá kostar um 230 kr í göngin og til viðbótar eru um 75 km. Á bíl sem eyðir 10 lítrum á hundraðið og með bensínkostnað nálægt 150 kr þá er bara eldsneytiskostnaðurinn 1125. Samanlagður beinn útlagður kostnaður miðað við einn mann í bíl er því um 1350 krónur. Ég myndi halda að strætómiðinn mætti kosta á bilinu 30-50% af þessari upphæð.
ps. Skv. ríkisskattstjóra kostar hver ekinn km 75 kr. Hann telur því bílferðina suður kosta tæplega 6000 kall!
28.4.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli