Í gærkvöldi hélt sveitarfélagið íbúafund á Hvanneyri. Rektor Landbúnaðarháskólans sagði frá hugmyndum skólans um framtíðaruppbyggingu. Stefnt er að mikilli fjölgun nemenda næstu árin og ljóst að umsvifin munu hafa veruleg áhrif á íbúaþróun á Hvanneyri. Á fundinum voru íbúar (ekki mjög gamlir) sem mundu þá tíð þegar einungis voru 50 íbúar með lögheimili á Hvanneyri. Nú losa þeir 300 og ekki er ólíklegt að sú tala muni tvöfaldast á næstu 10-15 árum.
Þegar ég kom fyrst til Hvanneyrar fyrir tæplega 20 árum þekktu allir alla og ríflega það. Núna þekkja ekki lengur allir alla, þótt vissulega þekki flestir flesta. Ég held það megi segja að Hvanneyri sé mjög áhugavert dæmi um þróun þéttbýlis - bæði út frá skipulagsmálum og í samfélagslegu tilliti. Staðurinn hefur allar forsendur til áframhaldandi vaxtar; landrými er mikið, umhverfið fallegt, samgöngur góðar og kjölfestuatvinnurekandi staðarins (LBHÍ) í miklum vexti.
Það er hins vegar mikilvægt að stækkunin sé sjálfbær. Með því á ég við að "samfélagið" fylgi með íbúaþróuninni. Samfélag er nefnilega annað og meira en hópur af fólki á sama stað - samfélag felur í sér menningu, siði, sögur og ekki síst tengsl milli fólks. Ef þetta netverk nær ekki að vaxa samhliða íbúafjölgun veikist "samfélagið" og það er slæmt.
Sterk samfélög einkennast af trausti, félagslegum auði og ríkri samkennd. Veik samfélög eru sundurlaus og "kemur-mér-ekki-við" verður ríkjandi viðhorf. Við treystum þeim sem við þekkjum og náum að samsvara okkur við. En til að samsvara okkur við gildi annarra verðum við að kynnast þeim og það tekur tíma. Þess vegna er hraður vöxtur ekki endilega jákvæður fyrir samfélög.
...en hraður vöxtur er betri en hraður samdráttur....
30.4.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli