28.6.08

Höfuðborgarkreppa

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings lætur hafa eftir sér í ruv.is að yfirvofandi kreppa sé bundin við höfðuðborgarsvæðið - landsbyggðin græði á hagstæðu gengi, enda sé hún aðallega í útflutningsframleiðslu. Nú veit ég að Ásgeir veit betur - en því miður eru margir aðrir sem ekki vita betur.

Um hvað snýst yfirvofandi "kreppa" á höfuðborgarsvæðinu. Vandamál við fjármögnun húsnæðis? Atvinnuleysi? Hækkandi verð nauðsynja? Lágt markaðsverð á húsnæði? Allt þetta er "eðlilegt ástand" á landsbyggðinni og hefur verið lengi. Síðustu 10 ár hefur íbúum Dalabyggðar fækkað um meira en 10% og ekkert í greiningu Ásgeirs bendir til annars en sú þróun haldi áfram. Ekkert bendir heldur til þess að íbúum höfuðborgarsvæðisins munu fækka um tugi prósenta næstu árin. Samt er kreppa yfirvofandi á höfuðborgarsvæðinu en ekki í Dalabyggð!

Gríðarleg þensla síðustu ára með tilheyrandi kaupmáttaraukningu var að mestu bundin við höfuðborgarsvæðið, Akureyri og mið-Austurland. Þegar þessu óvenjulega þensluskeiði lýkur, þá er hæpið að tala um kreppu og alls ekki fréttnæmt að áhrifana gæti helst þar sem þenslan var mest.

Og varðandi uppgangstíma á landsbyggðinni, þá þarf fjármagn til uppbyggingar og fjármagn til uppbyggingar fæst amk ekki hjá Kaupthing bank. Getur verið að lánadeildin lesi ekki skýrslur greiningardeildarinnar?

Engin ummæli: