Fór í boð með erlendum sendiherrum í Fossatúni. Þar voru sendiherrar amk 50 ríkja að snæða kvöldmat eftir skoðunarferð um Vesturland. Sá danski gat sagt "ég er danski sendiherrann á Íslandi" á vel frambærilegri íslensku. Hann hélt því fram að ekki aðeins væri Danmörk það land sem stæði Íslandi næst, heldur væri Ísland það land sem stæði Danmörku næst. Sennilega er það rétt - þessar tvær þjóðir ættu að hætta hnútukasti og leggja í staðinn enn meiri rækt við sameiginlegan menningararf.
Íranski sendiherrann koma á óvart. Var nokkuð ánægður með landið og taldi að við ættum heilmikla möguleika "great potential". Við hefðum nóg af vatni, bæði heitu og köldu og landrými væri yfirdrifið. Veðrið vissulega þreytandi en ekki svo slæmt. Við þyrftum hins vegar að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf. Hátækni - ekki þungaiðnað sem færi illa með náttúruna - hátækni og hugbúnaðarþróun. Til þess vantaði vel menntað fólk - miklu fleira fólk. Hann taldi að 5-10 milljónir væri mátulegt. Til að ná því væri ekki um annað að ræða en flytja inn fólk - við gætum tæplega náð þessum fjölda í bráð með náttúrulegri fjölgun.
Ég benti á að svona margir innflytjendur gætu haft áhrif á menningararfinn okkar - tungumálið og vinsældir skólaljóðana en þá var mér bent á að það væri að sjálfsögðu nauðsynlegt að stýra aðstreyminu og taka engan inn í landið sem ekki lærði íslensku. Síðan mættum við ekki vera hrædd við hnattvæðingu og fjölbreytta menningu. Mér fannst skrítið að taka leiðbeiningum um umburðarlyndi og fjölmenningu frá Írana og spilaði út "the ultimate": Við erum ríkasta þjóð í heimi - af hverju ættum við að flytja inn 9,7 milljónir útlendinga. En Íranski sendiherrann blikkaði ekki auga og sagði mér að það gæti breyst og ég yrði að hugsa um unga fólkið. Ungt fólk þyrfti áhugaverðara samfélag og ef við værum bara 300 þúsund myndi unga fólkinu leiðast, það myndi ekki finna sér áhugaverð störf og það myndi flytja burt.
Tveimur dögum síðar las ég nýja stefnumörkun Skota í byggðamálum. Þar var fjölgun íbúa talin eitt af mikilvægustu atriðunum fyrir áframhaldandi þróun dreifbýlis.
23.6.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli