Brynhildur Guðjónsdóttir fékk tvær Grímur í kvöld sem þýðir að Borgarnes fékk tvær Grímur. Hvernig er það miðað við höfðatölu? Ein á hverja þúsund. Fékk höfuðborgarsvæðið þá 160? Höfðatala er frábær þegar maður er fámennur.
En óháð höfðatölu þá er það staðreynd að við höfum eignast atvinnuleikhús í Borgarfirði. Í fyrra var það Mr. Skallagrímsson og núna Brák. Inn á milli Mýramaður Gísla Einars og Svona eru menn með KK og Einari Kára. Allt afburðasýningar.
Leikhús Landnámssetursins í Borgarnesi eru sérstakar. Þær eru eiginlega ekki sviðsettar heldur fluttar - allt að því maður á mann. Stemmingin er baðstofustemming þar sem leikararnir hefja sýningar á að kynna sig. Svo hefst sagan.
Sýning Brynhildar er sérstök fyrir þær sakir að hún varpar nýju ljósi á Egils sögu. Á það hvernig keltnesk menning blandaðist þeirri norrænu í gegn um fóstrurnar. Á stöðu kvenna á landnámsöld. Og á mótunarár Egils. Brynhildur - rétt eins og Benedikt árið á undan - meðhöndlar Egilssögu eins og hún hlýtur að hafa verið ætluð: Sem sögu! Þegar sagan rúllar skiptir engu hvort hún er sönn eða skálduð - það eina sem skiptir máli er hvort hún sé nægjanlega trúverðug til að fanga hugann og hrífa okkur með. Það tókst hjá Brynhildi og þess vegna var sýning hennar góð.
13.6.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli