Í Mogganum í vikunni var frétt sem sagði frá ljósleiðaravæðingu Arnarneshrepps. Sveitarfélagið borgaði um 26 milljónir til að 55 heimili gætu tengst ljósleiðara og fengið þar með fullt aðgengi að nútímaþjónustu á vefnum. Þótt ég sé almennt ekki fylgjandi opinberum afskiptum af samkeppnismörkuðum tel ég að þetta hafi verið afar rétt ákvörðun hjá sveitarstjórn Arnarneshrepps. Þarna var markaðurinn ekki að virka - mikilvæga grunnþjónustu vantaði í samfélagið og það er ekkert sjálfsagðara en samfélagið taki ákvörðun um að nota sameiginlega sjóði til að greiða ákveðinn stofnkostnað.
Ég held að öflug fjarskipti og samgöngur séu grundvallar forsenda þess að dreifbýli á Íslandi geti dafnað. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða atvinnurekstur eða frístundir - fjarskipti skipta höfuðmáli. Meir að segja í sauðfjárræktinni, einni hefðbundnustu atvinnugrein landsins, hamla nettengingar á landsbyggðinni framþróun á nauðsynlegum hugbúnaði fyrir bændur. Fjarskipti eru einnig lykilatriði fyrir ýmis konar einyrkjastarfsemi s.s. bókhaldsþjónustu, hönnunarvinnu eða almenn ritstörf.
Samfélög sem hafa ekki upp á margt að bjóða í hefðbundinni afþreyingu gera vel í að vera með betri nettengingar en gerist og gengur. Ungt fólk í dag velur sér búsetu. Ef landsbyggðin ætlar að vera samkeppnishæf.... þá þarf hún að vera samkeppnishæf.
3.5.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli