22.4.09

Er fyrningaleiðin raunhæf?

Fyrningaleið Samfylkingar í sjávarútvegi hlýtur að vera gölluð! Ég hef ekki náð að hugsa hana til enda en reynum að sjá þetta fyrir okkur:

Fyrirtæki A er nýbúið að fjárfesta í kvóta og ætlar ekki að fjárfesta meir næstu árin heldur keyra sinn bát, afla tekna og greiða niður skuldir. Þá kemur ríkið og tekur af þeim 5% veiðiheimildanna. Og svo aftur næsta ár. Að fjórum árum liðnum hefur fyrirtæki A misst 20% veiðiheimildanna! Fyrirtækið stendur augljóslega illa því fasti kostnaðurinn við útgerðina deilist á minni afla. Með þessu áframhaldi fer fyrirtækið á hausinn á örfáum árum.

Á meðan hefur ríkið eignast þennan kvóta og hlýtur að ætla sér að úthluta honum aftur. Það má gera með þremur leiðum:

1. Uppboðsmarkaði: Þá eiga allir jafnan rétt en þau fyrirtæki sem hafa best aðgengi að fjármagni standa best. Ef okkar fyrirtæki A nær ekki að kaupa kvóta á uppboðinu, þá stendur það verr næst - og ennþá verr þarnæst og mun lenda í gjaldþroti mjög hratt.

2. Pólitískri úthlutun: Leið sem við þekkjum allt of vel; þetta er leið spillingar og vinargreiða.

3. Útleigu til sömu aðila: Þá setur ríkið leigugjald á kvótann en leigir til sömu aðila aftur. Í raun virkar þessi leið eins og sérstakur skattur á atvinnugreinina.

Byrjum á að útiloka leið 2. Leið 3 þýðir að kvóti færist ekki milli aðila - aldrei! Ef fyrirtæki fara á hausinn þá þarf ríkið að grípa til leiðar 1 (eða 2 sem var útilokuð) og sterkustu fyrirtækin fá aukninguna.

Í núverandi kerfi getur nægjusamur útgerðarmaður aflað sér kvóta og átt hann síðan í friði og ró og stundað sínar veiðar. Hann þarf ekki að selja og hann þarf ekki að kaupa. Fyrningaleiðin mun setja þetta í uppnám og neyða útgerðarmenn til að vera stöðugt að endurfjármagna kvótakaup eða borga stöðuga leigu til ríkisins fyrir að afla þjóðinni gjaldeyris.

Ég get ekki séð hvaða réttlæti er í því!

Engin ummæli: