Ég var í Kaupmannahöfn í vikunni, sem er ekki í frásögur færandi. Bjó í Danmörku um árabil og nýti hvert tækifæri til að kíkja við. Núna var óvenjulangt síðan síðast og eins hafði ég óvenju rúman tíma. Kannski þess vegna tók ég sérstaklega eftir hversu rík Kaupmannahöfn er af fólki sem er ekki að fara neitt.
Margir Íslendingar telja það til sjarma Danmerkur að þar er mikið af fólki sem hangir og "hygger sig". Finnst að Danir séu svo afslappaðir og lausir við lífsgæðakapphlaupið að þar hljóti að vera gott að búa. En þegar betur er að gáð er myndin aðeins flóknari.
Í fyrsta lagi eru margir þeirra sem sitja á bekkjunum og sötra bjór í raun alkóhólistar á framfæri ríkisins (ekki að ástæðulausu að rónar eru oft kallaðir "bænkevarmere"). Atvinnuleysi hefur verið viðloðandi vandamál í Danmörku um margra áratuga skeið og þar fyrir utan er mikið dulið atvinnuleysi sem er dekkað af félagslega kerfinu. Þetta fólk - oft annarrar eða jafnvel þriðju kynslóðar atvinnuleysingjar" hefur engan áhuga á að vinna og vill miklu frekar slappa af og hugga sig, ferðamönnum til ánægju en samfélaginu (og eigin heilsu) til bölvunar.
Í öðru lagi er víðast mjög erfitt að fá greidda yfirvinnu. Vinnuvikan er 37 tímar og yfirvinna sjaldnast í boði (amk ekki launuð), þannig að fólk hefur einfaldlega ekkert val. Þetta gefur að sjálfsögðu afslappaðra yfirbragð á mannlífinu en ég held að margir Íslendingar væru ósáttir við að missa yfirvinnuna sína og vera neyddir til að vinna slétta 37 tíma á viku.
Í þriðja lagi er skattakerfið eins og snýtt út úr hugmyndafræði VG. Þannig er lægsta skattþrepið 42%, síðan er mellemskat á 57,3% og loks topskat fyrir þá sem hafa leyft sér að vinna of mikið sem tekur tæp 63% af hverri viðbótarkrónu (sjá heimild). Ef einhver skyldi hafa náð að byggja upp sparnað, þá tekur ríkið hliðstæðar prósentur af fjármagnstekjum. Og hversu mikið skyldi maður þurfa að þéna til að fara milli skattþrepa: Mellemskatten kemur inn ef maður fær meira en 28.900 dkr á mánuði! (Núna er þetta kerfi reyndar að breytast þökk sé stjórn Anders Fogh en það mun taka langan tíma að vinda ofan af flóknu og þunglamalegu skattakerfi.)
Hvað þýðir þetta? Jú, nákvæmlega að áhugi fólks á að vinna sér inn hærri laun verður afar lítill. Hjól atvinnulífsins snúast hægar, nýsköpun verður minni og vinnumarkaðurinn ósveigjanlegur. Nokkuð sem Danir hafa þurft að berjast við í mörg ár.
Afslappað mannlíf er vissulega eftirsóknarvert og oft finnst manni að við Íslendingar gætum farið aðeins hægar. En við höfum val - og amk sum okkar (rétt um 20% þegar þetta er skrifað) vilja áfram hafa þetta val.
Og eitt er víst: Við munum ekki "hygge" okkur út úr þrengingunum.
18.4.09
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Skrifa ummæli