Hagsmunaaðlar í landbúnaði hafa flestir lagst mjög ákveðið gegn ESB viðræðum. Ástæðan er tiltölulega einföld og í sjálfu sér skiljanleg. Innan ESB ríkja frjáls og óheft viðskipti með landbúnaðarvörur. Landbúnaður hérlendis stendst ekki samkeppni við evrópskan landbúnað og mun því tapa verulegri markaðshlutdeild. Forsvarsmenn bænda telja ólíklegt að útflutningur muni bæta upp tap á innlendum markaði og því muni innlend landbúnaðarframleiðsla dragast verulega saman.
Þetta er einmitt markmiðið með hinum sameiginlega markaði; að framleiðsla færist til þeirra svæða þar sem hún er hagkvæmust. Af hverju ættu Íslendingar að framleiða farsíma ef við getum keypt miklu ódýrari farsíma frá Finnlandi? Og af hverju ættu Finnar að rafgreina súrál ef þeir geta keypt miklu ódýrara ál frá Íslandi? Og eins má spyrja: Af hverju ættu Íslendingar að framleiða matvæli ef önnur ríki geta gert það ódýrar?
Svarið snýst um eðlismun á matvælum og öðrum vörum. Segjum til einföldunar að við höfum gert samning við Finna um að kaupa af þeim farsíma við seljum þeim ál í staðinn. Nú gerist það að þeir - af einhverjum ástæðum - hætta að eiga nóg af farsímum. Þeir hætta þess vegna að senda okkur nýja síma og bera við "forsendubresti". Við verðum pirruð og þurfum að sætta okkur við að nota gömlu farsímana okkar áfram. Jafnvel gætum við þurft að sætta okkur við að lifa í samfélagi án farsíma. Leiðinlegt - en ekki ómögulegt.
Ef við hefðum, í stað farsíma, samið við Finna um að sjá okkur fyrir matvælum værum við óneitanlega ver stödd. Samfélag án matvæla hrynur á viku.
Það sem er sérstakt við frumframleiðslu matvæla er að við lifum ekki án hennar. Við getum lifað án farsíma um aldur og æfi, líf án gallabuxna yrði vissulega litlaust en samt þess virði og við getum flest lifað án lyfja árum saman svo dæmi séu tekin. En 24 tímar án matar eru verulega óþægilegir og nokkrar vikur án matar eru dauðadómur yfir flestu fólki.
Þess vegna verðum við að tryggja að í landinu sé geta til að framleiða mat.
En... þess vegna er líka mjög líklegt að við getum samið við ESB um að framleiðslugetan verði tryggð.
11.4.09
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli