10.4.09

Eru allar ívilnanir slæmar?

Steingrímur J. Sigfússon hefur miklar áhyggjur af því að ríkið veiti álveri í Helguvík of mikla fyrirgreiðslu. Ef marka má fyrirgreiðslur til Alcoa Fjarðaráls má ætla að þær verði 0,5% af stofnkostnaði. Reglur á evrópska efnahagssvæðinu leyfa 17%.

Samt finnst Steingrími að íslenska ríkið sé að veita of ríflegar ívilnanir til erlendra fyrirtækja og lætur að því liggja að hann hyggist breyta þessu. Kannski mun hann leggja til sérstaka skattheimtu á erlend fyrirtæki sem hafa áhuga á að hefja starfsemi hérlendis?? Fyrst þessi 0,5% eru svona hræðileg þá þarf væntanlega að grípa til stórtækra aðgerða.

Sannleikurinn er sá að flest ríki beita ríkulega ýmiskonar ívilnunum til að lokka til sín erlendar fjárfestingar. Þau vita eins og er að þessir fjármunir koma margfalt til baka í skatttekjum og jákvæðum margfeldisáhrifum. Þetta sést ofurvel á áhrifasvæði Fjarðaráls á Austurlandi (hálfbyggð hús á Austfjörðum sýna einmitt að svæðið tók þátt í uppsveiflunni).

Hins vegar mættu stjórnvöld marka sér skýrari stefnu um hvers konar fyrirtæki þau vilja fá til landsins. Álvinnsla er ekkert annað en einfaldur útflutningur á orku en margfeldisáhrifin eru lítil. Við þurfum að höfða mun sterkar til alþjóðlegra hátæknifyrirtækja og fyrirtækja í lyfjaiðnaði. Fyrirtækja sem ráða til sín vel menntað fólk og borga laun í samræmi við það.

Skilaboð VG eru röng - Ísland þarf nauðsynlega á erlendri fjárfestingu að halda og stjórnvöld eiga að vera tilbúin til að veita nauðsynlegar ívilnanir.

Engin ummæli: