26.5.08

Sveigjanleg borgarpólitík

Borgarmálin taka á sig sérkennilegar myndir þessa dagana.

Um 4% borgarbúa styðja borgarstjórann sem myndar meirihluta með D-lista sem hefur 34% fylgi sem er sammála minnihlutanum, sem nýtur stuðnings meirihluta kjósenda um að flugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni en 60% borgarbúa eru ósammála þeim.

Til að flækja málið enn frekar verðlaunaði borgin skipulagstillögu fyrir Vatnsmýrina sem borgarstjóri telur meingallaða en minnihlutinn í borginni (sem nýtur stuðnings meirihluta kjósenda) og hluti meirihlutans telur tillöguna mjög góða því hún sé svo opin og sveigjanleg. Reyndar vantar í hana helstu samgöngumannvirki og í stað þéttrar byggðar fáum við breiðstræti og tjörn og tillagan er ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag en hvað með það - hún er sveigjanleg!

Sama má segja um hið pólitíska landslag í borginni: Það er sveigjanlegt.

25.5.08

Ólæst reiðhjól

Einhvern tíman las ég bók eftir Francis Fukuyama þar sem höfundurinn færði rök fyrir því að traust (eða félagslegur auður á fræðimáli) væri undirstaða velmegunar. Býsna sannfærandi lesning. Mér flaug þessi bók í hug þegar ég gekk fram hjá grunnskólanum á Hvanneyri í vikunni: Hvert einasta reiðhjól var ólæst.

16.5.08

Umrót í sveitarstjórnum

Það er óhætt að fullyrða að síðustu tvö ár hafa verið róstursöm í sveitarstjórnarmálum. Meirihlutar hafa fallið í eftirminnilega í Árborg, Bolungarvík, Reykjavík, Reykjavík og Akranesi og kannski síður eftirminnilega (fyrir mig) á fleiri stöðum. Í öllum ofangreindum tilfellum hafa þessar breytingar verið skyndilegar og ekki er hægt að halda því fram að þær hafi verið endastöð langvarandi stjórnarkreppu. Málefnaágreiningur hefur ekki alltaf verið mjög augljós þeim sem standa utan hringiðunnar en persónulegar deilur þeim mun greinilegri.

Í öllum tilfellum fylgdu slitunum háværar og ómálefnalegar umræður þar sem orð eins og "svik" og "óheiðarleiki" voru óspart notuð ásamt grófum persónulýsingum. Fólk, sem fyrir tveimur árum var falið það mikilvæga hlutverk að annast sameiginlega sjóði og leiða stefnumörkun sveitarfélaganna til framtíðar, hefur sýnt af sér fádæma óháttvísi. Það er eðlilegt að í starfi sveitarstjórna komi upp ágreiningur innan framboða og á milli þeirra, en við sem höfum boðið okkur fram til starfa á þessum vettvangi verðum að sýna ákveðið fordæmi um hvernig deilumál eru leyst. Þar hafa ýmsir brugðist.

Ég held að þær uppákomur sem við höfum orðið vitni að undanfarið hafi tvenn langtímaáhrif. Í fyrsta lagi draga þær úr trausti almennings á sveitarstjórnum. Í öðru lagi draga þær úr líkunum á að myndaðir verði meirihlutar sem byggja á stuðningi lítilla flokka eða flokksbrota. Reynslan sýnir okkur einfaldlega að litlir flokkar og flokksbrot eru óstöðug enda oft mynduð í kringum fá afmörkuð málefni. Það getur vissulega verið freistandi fyrir kjósendur að setja atkvæði sitt á þessi afmörkuðu málefni, en það getur ekki talist heppilegt fyrir lýðræðið til lengri tíma litið. Stefnumörkun pólitískra afla þarf að koma frá grasrótinni og hún þarf að fela í sér heildarsýn á það hvernig við viljum að samfélagið þróist. Málefnasamstarf ráðandi afla þarf svo að byggja á samræðu og málamiðlunum. Litlir eins-málefnisflokkar geta ekki gert málamiðlanir og þess vegna eru þeir ekki áhugaverðir samstarfsaðilar. Þessu virtust ýmsir hafa gleymt en atburðir liðinna missera ættu að hressa upp á minnið.

13.5.08

Olían kostar sitt

Ég setti persónulegt met í morgun: Tók olíu á Passatinn fyrir 10.400.- ... íslenskar. Keyrði svo sparakstur það sem eftir lifði dags og reiknaði gróðann.

Fjölskyldubíllinn okkar er keyrður um 40 þús. km á ári. Það þýðir að fyrir hvern lítra sem bíllinn eyðir pr. 100 km borgum við 66 þús. ... íslenskar. Munurinn á Passatnum sem eyðir 6,5 og standard slyddujeppa sem eyðir 12,5 á hundraðið er tæplega 400 þús. á ári ...íslenskar. Fyrir þann pening kæmist ég í sund þrisvar á dag alla daga ársins. Og þar sem sundlaugin er lokuð á föstudaginn langa þyrfti ég að fara fjórum sinnum suma daga. Ég gæti líka keypt mér ríflega 4000 dollur af skyr.is - meira en 11 á dag, líka á aðfangadag. Þetta væri nú kannski ekki neitt sérstök tilvera, en moralen er að það er hægt að gera margt fyrir 396 þús. íslenskar (ennþá).

Ef ég ætti slyddujeppa og æki á 90 km/klst eyddi ég olíu fyrir 1.856 á tímann! Þetta er næstum því fimm sinnum dýrara en að fara í bíó, sem þó er orðið syndsamlega dýrt. Þegar ég var krakki var ódýrt sport að fara í bíltúr, en nú er það lúxus sem einungis þeir efnameiri geta leyft sér.

Það virðist sem OPEC sé að takast það sem umhverfisverndarsinnar hafa barist fyrir í 50 ár: Að fá fólk til að verða meðvitað um eldsneytiseyðslu. Hjálpin kemur oft úr óvæntri átt!

12.5.08

Vor í Borgarfirði


Græni liturinn er að ná tökum á tilverunni og að jafnaði orðið hlýrra úti en í ísskáp. Það þýðir "vor" á Íslandi. Við gerum ekki meiri kröfur til veðursins.

Þetta gæsapar var að spóka sig fyrir neðan hjá mér í morgun og lét sér fátt um finnast þótt ég sæti með kaffibolla og myndavél á svölunum. Engin fyrir neðan húsið hafa verið friðlönd einhverja áratugi og fuglalíf þar er með eindæmum. Maður skammast sín eiginlega fyrir að hafa ekki brennandi áhuga á fuglaskoðun.

Þegar maður býr í sveitinni geta ársíðirnar orðið yfirþyrmandi. Síðasta haust vöknuðum við reglulega um fjögurleitið þegar hundruð (eða jafnvel þúsundir) gæsa flugu yfir húsið okkar á leið frá náttstað upp í beitilöndin. Nú eru það mófuglarnir, stöku endur og karrar sem eiga sviðið.
Posted by Picasa

9.5.08

Umferðarteppa í Borgarnesi

Á leiðinni heim úr vinnunni lenti ég í umferðarteppu á leiðinni frá gamla bænum í Borgarnesi upp á Hvanneyri. Ég skil ekki ennþá hvað gerðist - veit ekki til þess að vörubílstjórar hafi verið að mótmæla - og ekki eru bændur byrjaðir að hleypa kúnum út. Ekki einu sinni alvarleg skuldahalamengun á vegunum.

En... ég lenti í því að þurfa að bíða á gatnamótum Borgarbrautar og Brúartorgs - örugglega meira en tvær mínútur. Það er algerlega óásættanlegt og ég mun undirbúa tillögu um mislæg gatnamót á Borgarbrautinni fyrir næstu fjárhagsáætlunargerð hjá Borgarbyggð (eða amk umferðarljós).

Þegar maður býr úti á landi vill maður vera laus við umferðarteppur. Maður lítur á stöðvunarskyldu sem alvarlega íhlutun í sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og að rauð eða græn ljós tilheyri fæðingarhátíð frelsarans en ekki hvítasunnu. Við sem búum úti á landi viljum gjarnan vera í friði (það er þess vegna sem við búum úti á landi en ekki í Grafarholti) og við viljum geta notið þess frelsis sem DREIFbýlið felur í sér.

Margt fólk á höfuðborgarsvæðinu hefur því miður áttað sig á hversu mikil lífsgæði felast í deifbýli og í hvert skipti sem vottar fyrir frídegi í dagatalinu þeysir þetta fólk út á land - til okkar! Við förum hins vegar bara heim, þótt við ættum í raun og veru að nota tækifærið og fara til höfuðborgarinnar og njóta fámennisins. Þarna verður vandamálið til: Við á leiðinni heim en allir aðrir á leiðinni að heiman.

Auðvitað væri lífið einfaldara ef allir myndu bara velja sér búsetu á þeim stað sem þeir vildu helst eiga heima. Þá þyrfti enginn að fara neitt og ég kæmist heim úr vinnunni án þess að lenda í umferðarteppu.

7.5.08

Sólarlag í Borgarfirði

Það er erfitt að kvarta yfir útsýninu úr stofunni heima. Snæfellsjökull - sennilega í 80-90 km fjarlægð og sólin - aðeins lengra frá (um 8 ljósmínútur).

Svona útsýni kostar .... ekki neitt úti á landi. Sorrý þið sem búið á höfuðborgarsvæðinu.
Posted by Picasa

6.5.08

Frumkvöðull Vesturlands

Í dag var frumkvöðladagurinn haldinn hátíðlegur á Vesturlandi. Hápunktur dagsins var þegar Frumkvöðull Vesturlands var útnefndur. Nítján voru tilnefndir en sigurvegarinn var Erla Björk Örnólfsdóttir, forstöðumaður Varar - Sjávarrannsóknaseturs við Breiðafjörð. Erla Björk er vísindamaður par excellence og hefur náð að fjármagna rekstur rannsóknsetursins að miklu leyti með öflun rannsóknastyrkja. Sjávarrannsóknasetrið í Ólafsvík er gott dæmi um að öflug þekkingarstarfsemi á góða vaxtarmöguleika á landsbyggðinni þegar rétta fólkið er við stjórnvölinn.

Ef við lítum á þessa útnefningu í víðara samhengi þá er hún líka viðurkenning á mikilvægi háskóla og rannsóknasetra fyrir frumkvöðlastarf og nýsköpun í dreifbýli. Á Vesturlandi eru tveir háskólar, þrír framhaldsskólar og all-nokkur rannsóknasetur, bæði í húmaník og náttúrufræði. Á Snæfellsnesi eru auk Varar, Náttúrustofa Vesturlands, Háskólasetur Snæfellsness og Þjóðgarður Snæfellsness. Samanlagt hafa þessi fjögur setur tæplega 20 starfsmenn. Það munar um minna.

Dreifbýlið á Íslandi stendur frammi fyrir því að sjávarútvegur og landbúnaður geta ekki lengur staðið undir eðlilegum vexti svæðasamfélaga. Sjávarútvegur getur ekki veitt meira - landbúnaðurinn getur ekki selt meira. Og sífelldar tækniframfarir þýða að störfum fækkar. Landsbyggðin þarf því að finna upp á öðrum atvinnutækifærum sem aldrei fyrr.

Einhverntíman heyrði ég sagt að dreifbýli hefði bara tvennt að bjóða nútíma hagkerfi: Auðlindir og hugvit. Nú virðist sem auðlindanálgunin sé hætt að vera spennandi. Eftir stendur hugvitið.
Posted by Picasa

5.5.08

Engin á Hvanneyri

...nei þetta var ekki prentvilla. Það á að standa engin á Hvanneyri með einu enni. Hvanneyrarengin eru ein meginástæðan fyrir því að hér var stofnaður bændaskóli árið 1889. Þá var tilbúinn áburður ekki til-búinn og þess vegna voru flæðiengi gríðarlega verðmæt til heyskapar. Árviss flóð í Hvítá báru með sér næringarefni sem gerðu Hvanneyrarengi að gósenlandi. Gulstörin verður allt að mannhæðarhá á sumrin og enn í dag slegin þó umfangið sé minna en áður. Það sem ekki er slegið leggst undir vetur myndar síðan endalausar breiður af rotnandi sinu. Þessi mynd er tekin vorkvöld í maí þegar ný strá eru að byrja að stinga upp kollinum.
Posted by Picasa

Ánægðir Vestlendingar

Könnun sem SSV gerði á viðhorfum Vestlendinga sýndi að við erum býsna sátt. Sátt við búsetuskilyrðin, leikskólana, atvinnuöryggið og framhaldsskólana. Líka háskólana. Sérstaka athygli vekur að við metum mikils friðsæld, náttúrufegurð og öryggi. Leggjum áherslu á að greið umferð er líka lífsgæði.

Könnunin sýnir fólk sem er meðvitað um gæði þess að búa úti á landi - fólk sem býr úti á landi af því að það vill njóta þess sem dreifbýlið hefur umfram höfuðborgarsvæðið. Könnunin sýnir að yfir 90% Vestlendinga (að Dalamönnum undanskyldum) finnst mjög eða frekar gott að búa á Vesturlandi. Þetta eru sláandi niðurstöður. Hvar er barlómurinn? Hvar er byggðavandinn? Hvar eru átthagafjötrarnir? Hefðbundin byggðaumræða á ekki lengur við á Vesturlandi. Hér er þörf fyrir nýja tegund af byggðastefnu - stefnu sem byggir á almennum aðgerðum en ekki sértækum - stefnu sem ýtir undir fjölbreyttari atvinnutækifæri en ekki varnarbaráttu - stefnu sem setur samgöngur, fjarskipti og opinbera þjónustu í enn meiri forgang en verið hefur.

Kollegar mínir hjá SSV eiga hrós skilið fyrir gott verk en nú er það okkar - ásamt sveitarfélögum á svæðinu að vinna áfram á grundvelli hins breytta landslags.

3.5.08

Ljósleiðari í Arnarneshrepp

Í Mogganum í vikunni var frétt sem sagði frá ljósleiðaravæðingu Arnarneshrepps. Sveitarfélagið borgaði um 26 milljónir til að 55 heimili gætu tengst ljósleiðara og fengið þar með fullt aðgengi að nútímaþjónustu á vefnum. Þótt ég sé almennt ekki fylgjandi opinberum afskiptum af samkeppnismörkuðum tel ég að þetta hafi verið afar rétt ákvörðun hjá sveitarstjórn Arnarneshrepps. Þarna var markaðurinn ekki að virka - mikilvæga grunnþjónustu vantaði í samfélagið og það er ekkert sjálfsagðara en samfélagið taki ákvörðun um að nota sameiginlega sjóði til að greiða ákveðinn stofnkostnað.

Ég held að öflug fjarskipti og samgöngur séu grundvallar forsenda þess að dreifbýli á Íslandi geti dafnað. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða atvinnurekstur eða frístundir - fjarskipti skipta höfuðmáli. Meir að segja í sauðfjárræktinni, einni hefðbundnustu atvinnugrein landsins, hamla nettengingar á landsbyggðinni framþróun á nauðsynlegum hugbúnaði fyrir bændur. Fjarskipti eru einnig lykilatriði fyrir ýmis konar einyrkjastarfsemi s.s. bókhaldsþjónustu, hönnunarvinnu eða almenn ritstörf.

Samfélög sem hafa ekki upp á margt að bjóða í hefðbundinni afþreyingu gera vel í að vera með betri nettengingar en gerist og gengur. Ungt fólk í dag velur sér búsetu. Ef landsbyggðin ætlar að vera samkeppnishæf.... þá þarf hún að vera samkeppnishæf.