6.5.08

Frumkvöðull Vesturlands

Í dag var frumkvöðladagurinn haldinn hátíðlegur á Vesturlandi. Hápunktur dagsins var þegar Frumkvöðull Vesturlands var útnefndur. Nítján voru tilnefndir en sigurvegarinn var Erla Björk Örnólfsdóttir, forstöðumaður Varar - Sjávarrannsóknaseturs við Breiðafjörð. Erla Björk er vísindamaður par excellence og hefur náð að fjármagna rekstur rannsóknsetursins að miklu leyti með öflun rannsóknastyrkja. Sjávarrannsóknasetrið í Ólafsvík er gott dæmi um að öflug þekkingarstarfsemi á góða vaxtarmöguleika á landsbyggðinni þegar rétta fólkið er við stjórnvölinn.

Ef við lítum á þessa útnefningu í víðara samhengi þá er hún líka viðurkenning á mikilvægi háskóla og rannsóknasetra fyrir frumkvöðlastarf og nýsköpun í dreifbýli. Á Vesturlandi eru tveir háskólar, þrír framhaldsskólar og all-nokkur rannsóknasetur, bæði í húmaník og náttúrufræði. Á Snæfellsnesi eru auk Varar, Náttúrustofa Vesturlands, Háskólasetur Snæfellsness og Þjóðgarður Snæfellsness. Samanlagt hafa þessi fjögur setur tæplega 20 starfsmenn. Það munar um minna.

Dreifbýlið á Íslandi stendur frammi fyrir því að sjávarútvegur og landbúnaður geta ekki lengur staðið undir eðlilegum vexti svæðasamfélaga. Sjávarútvegur getur ekki veitt meira - landbúnaðurinn getur ekki selt meira. Og sífelldar tækniframfarir þýða að störfum fækkar. Landsbyggðin þarf því að finna upp á öðrum atvinnutækifærum sem aldrei fyrr.

Einhverntíman heyrði ég sagt að dreifbýli hefði bara tvennt að bjóða nútíma hagkerfi: Auðlindir og hugvit. Nú virðist sem auðlindanálgunin sé hætt að vera spennandi. Eftir stendur hugvitið.
Posted by Picasa

Engin ummæli: