5.5.08

Ánægðir Vestlendingar

Könnun sem SSV gerði á viðhorfum Vestlendinga sýndi að við erum býsna sátt. Sátt við búsetuskilyrðin, leikskólana, atvinnuöryggið og framhaldsskólana. Líka háskólana. Sérstaka athygli vekur að við metum mikils friðsæld, náttúrufegurð og öryggi. Leggjum áherslu á að greið umferð er líka lífsgæði.

Könnunin sýnir fólk sem er meðvitað um gæði þess að búa úti á landi - fólk sem býr úti á landi af því að það vill njóta þess sem dreifbýlið hefur umfram höfuðborgarsvæðið. Könnunin sýnir að yfir 90% Vestlendinga (að Dalamönnum undanskyldum) finnst mjög eða frekar gott að búa á Vesturlandi. Þetta eru sláandi niðurstöður. Hvar er barlómurinn? Hvar er byggðavandinn? Hvar eru átthagafjötrarnir? Hefðbundin byggðaumræða á ekki lengur við á Vesturlandi. Hér er þörf fyrir nýja tegund af byggðastefnu - stefnu sem byggir á almennum aðgerðum en ekki sértækum - stefnu sem ýtir undir fjölbreyttari atvinnutækifæri en ekki varnarbaráttu - stefnu sem setur samgöngur, fjarskipti og opinbera þjónustu í enn meiri forgang en verið hefur.

Kollegar mínir hjá SSV eiga hrós skilið fyrir gott verk en nú er það okkar - ásamt sveitarfélögum á svæðinu að vinna áfram á grundvelli hins breytta landslags.

Engin ummæli: