Ég setti persónulegt met í morgun: Tók olíu á Passatinn fyrir 10.400.- ... íslenskar. Keyrði svo sparakstur það sem eftir lifði dags og reiknaði gróðann.
Fjölskyldubíllinn okkar er keyrður um 40 þús. km á ári. Það þýðir að fyrir hvern lítra sem bíllinn eyðir pr. 100 km borgum við 66 þús. ... íslenskar. Munurinn á Passatnum sem eyðir 6,5 og standard slyddujeppa sem eyðir 12,5 á hundraðið er tæplega 400 þús. á ári ...íslenskar. Fyrir þann pening kæmist ég í sund þrisvar á dag alla daga ársins. Og þar sem sundlaugin er lokuð á föstudaginn langa þyrfti ég að fara fjórum sinnum suma daga. Ég gæti líka keypt mér ríflega 4000 dollur af skyr.is - meira en 11 á dag, líka á aðfangadag. Þetta væri nú kannski ekki neitt sérstök tilvera, en moralen er að það er hægt að gera margt fyrir 396 þús. íslenskar (ennþá).
Ef ég ætti slyddujeppa og æki á 90 km/klst eyddi ég olíu fyrir 1.856 á tímann! Þetta er næstum því fimm sinnum dýrara en að fara í bíó, sem þó er orðið syndsamlega dýrt. Þegar ég var krakki var ódýrt sport að fara í bíltúr, en nú er það lúxus sem einungis þeir efnameiri geta leyft sér.
Það virðist sem OPEC sé að takast það sem umhverfisverndarsinnar hafa barist fyrir í 50 ár: Að fá fólk til að verða meðvitað um eldsneytiseyðslu. Hjálpin kemur oft úr óvæntri átt!
13.5.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli