9.5.08

Umferðarteppa í Borgarnesi

Á leiðinni heim úr vinnunni lenti ég í umferðarteppu á leiðinni frá gamla bænum í Borgarnesi upp á Hvanneyri. Ég skil ekki ennþá hvað gerðist - veit ekki til þess að vörubílstjórar hafi verið að mótmæla - og ekki eru bændur byrjaðir að hleypa kúnum út. Ekki einu sinni alvarleg skuldahalamengun á vegunum.

En... ég lenti í því að þurfa að bíða á gatnamótum Borgarbrautar og Brúartorgs - örugglega meira en tvær mínútur. Það er algerlega óásættanlegt og ég mun undirbúa tillögu um mislæg gatnamót á Borgarbrautinni fyrir næstu fjárhagsáætlunargerð hjá Borgarbyggð (eða amk umferðarljós).

Þegar maður býr úti á landi vill maður vera laus við umferðarteppur. Maður lítur á stöðvunarskyldu sem alvarlega íhlutun í sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og að rauð eða græn ljós tilheyri fæðingarhátíð frelsarans en ekki hvítasunnu. Við sem búum úti á landi viljum gjarnan vera í friði (það er þess vegna sem við búum úti á landi en ekki í Grafarholti) og við viljum geta notið þess frelsis sem DREIFbýlið felur í sér.

Margt fólk á höfuðborgarsvæðinu hefur því miður áttað sig á hversu mikil lífsgæði felast í deifbýli og í hvert skipti sem vottar fyrir frídegi í dagatalinu þeysir þetta fólk út á land - til okkar! Við förum hins vegar bara heim, þótt við ættum í raun og veru að nota tækifærið og fara til höfuðborgarinnar og njóta fámennisins. Þarna verður vandamálið til: Við á leiðinni heim en allir aðrir á leiðinni að heiman.

Auðvitað væri lífið einfaldara ef allir myndu bara velja sér búsetu á þeim stað sem þeir vildu helst eiga heima. Þá þyrfti enginn að fara neitt og ég kæmist heim úr vinnunni án þess að lenda í umferðarteppu.

Engin ummæli: