11.5.09

Rífum Þingvallakirkju!

Berlusconi er tvímælalaust litríkasti þjóðarleiðtogi Evrópu - og einn þeirra sérstökustu í heimi. Örugglega spilltur, en svo innilega laus við það sem Danir kalla "situationsfornemmelse" að maður hlýtur að fyllast aðdáun.

Nýjasta útspil hans var að hrósa borgarstjóranum í Róm með því að bera kirkjur borgarinnar saman við ómerkilega timburkirkju sem hann var eitt sinn dreginn úr rúmi til að berja augum. Kirkjan var svo ómerkileg að hann var ekki einu sinni klár á því í hvaða landi hún var - en giskaði á Finnland. Finnar, sem eru með sérkennilegasta þjóðarhúmor Evrópu, klikkuðu á að njóta stundarinnar og móðguðust. Töldu ómögulegt að þetta gæti verið finnsk kirkja. Ekki vegna þess að það væri ekki yfirdrifið af ljótum timburkirkjum í Finnlandi, heldur hefði ítalski þjóðarleiðtoginn aldrei stoppað nægjanlega lengi í hinu skógum prýdda landi til að skoða úrval afskekktra kirkna.

Hins vegar var eitthvað við lýsingu Berlusconi sem hringdi bjöllu hjá Finnum. Ljót, afskekkt timburkirkja í norðlægu landi. Það könnuðust þeir við. "Þetta hlýtur að vera Þingvallakirkja á Íslandi." Hún er afskekkt, lítil og ómerkileg timurkirkja sem allir þjóðarleiðtogar eru neyddir til að skoða ef þeir hætta sér í opinbera heimsókn til Íslands. Enginn hafði þorað að segja það áður, en fyrst á það var minnst - jú, mikið rétt - þetta hlýtur að vera Þingvallakirkja.

Kann að hljóma illa fyrir Íslendinga - en við ættum ef til vill bara að þakka Finnum fyrir þann kurteisisvott að minnast ekki á hina þrjá skyldu-áfangastaði erlendra þjóðhöfðinga: Hverinn sem hefur ekki gosið í 30 ár; foss sem má skoða á sérhverju póstkorti, og virkjun sem hefur 15% orkunýtingu.

Norræn samstaða - klikkar ekki!

9.5.09

Etanól út - rafmagn inn!

Ný rannsókn vísindamanna við Kaliforníuháskóla sýnir að það er mun betra að breyta lífmassa í rafmagn en etanól. Etanól hefur um árabil verið notað sem umhverfisvænt eldsneyti á lítið breyttar bensínvélar. Gallinn við etanólið er hins vegar að framleiðsla þess keppir við matvælaframleiðslu og það er ekki áhugavert til lengdar í heimi sem berst við að lifa af einni jörð.

Sprengihreyfillinn nýtir orku mjög illa og þess vegna er hagkvæmara að brenna lífmassann og nýta orkuna til að hlaða rafhlöður fyrir rafbíla. Þetta mun ekki draga úr framleiðslu á lífmassa til skemmri tíma en til lengri tíma litið styrkir þetta stöðu rafbílsins. Og þar sem rafbíllinn getur notað rafmagn frá vindmyllum, sólarsellum eða kjarnorku, þá er líklegt að eftirspurn eftir lífmassa til orkuframleiðslu minnki.

Þetta eru líka góðar fréttir fyrir Ísland því við eigum mikið af rafmagni en lítið af lífmassa. Við ættum mjög auðvelt með að skipta stærstum hluta okkar bílaflota yfir í rafbíla á tiltölulega fáum árum. Þar með værum við mikil til óháð innfluttri olíu og gætum komist nálægt því að vera orkulega sjálfbær.

25.4.09

Aukinn stuðningur við einhliða upptöku Evru

Grein í European Voice í fyrradag fjallar um einhliða upptöku evru í austur Evrópu. Greinin ber yfirskriftina "Why unilateral adoption of the euro should be tolerated" og höfundurinn Ludek Niedermayer er núverandi forstjóri Deloitte í Mið-Evrópu en fyrrverandi "deputy governor of the Czech National Bank". Semsagt ekki alger liðléttingur.

Umræðan um að opna myntbandalagið fyrir löndum sem ekki uppfylla núverandi skilyrði er ekki einskorðuð við Ísland heldur snýst hún að mestu um ríkin fyrir botni Eystrasalts, Austur Evrópu og ríki fyrrverandi Júgóslavíu. Tvö þeirra síðastnefndu, Svartfjallaland og Kosovo hafa reyndar nú þegar tekið upp Evruna einhliða þótt þau mæli ekki með því að aðrir geri það sama.

Samkvæmt ofurbloggaranum Tony Barber hjá Financial Times leggst ESB gegn einhliða evruupptöku annarra ríkja af ótta við mögulegan óstöðugleika sem því fylgdi. Evran sem gjaldmiðill er ekki nema 10 ára gömul hagfræðitilraun sem á sér engin fordæmi og því vilja menn fara varlega. Hins vegar blasir við að óstöðugleikinn er staðreynd og í núverandi stöðu þarf að lágmarka skaðann af fjármálakreppunni og koma í veg fyrir að hún dýpki enn frekar.

Það er á þeim nótum sem Ludek Niedermayer rökstyður þá skoðun sína að ESB eigi að búa til einskonar millistig Evruaðildar (semi-membership). Þannig auka-aðild geti aukið stöðugleika og aðstoðað illa stæð ríki á jaðri Evrusvæðisins við að ná tökum á efnahagsvanda sínum. Slæmt efnahagsástand þessara ríkja sé veruleg ógnun við stöðuguleika á Evrusvæðinu og því geti Evruvæðing þeirra verið einfaldasta og ódýrasta leiðin til aðstoðar.

Umræðan um útvíkkun Evrusvæðisins mun örugglega halda áfram og það er mikil einföldun að slá þennan möguleika út af borðinu án skoðunar eins og talsmenn Samfylkingarinnar hafa gert síðustu daga. Við eigum þvert á móti að kynna okkur vandlega stöðu þeirra ríkja sem nú eru að velta þessum möguleika fyrir sér. Það kann vel að vera að þar eigum við samleið.

Við skulum þó aldrei líta á einhliða upptöku Evru sem leið til að öðlast (eða viðhalda) sjálfstæði frá Evrópusambandinu. Minnumst orða Jürgen Stark stjórnarmanns í Evrópska Seðlabankanum á fundi Viðskiptaráðs í febrúar 2008:

"After all, a currency is a key attribute of sovereignty. Sharing a common currency implies sharing a common political destiny."

22.4.09

Er fyrningaleiðin raunhæf?

Fyrningaleið Samfylkingar í sjávarútvegi hlýtur að vera gölluð! Ég hef ekki náð að hugsa hana til enda en reynum að sjá þetta fyrir okkur:

Fyrirtæki A er nýbúið að fjárfesta í kvóta og ætlar ekki að fjárfesta meir næstu árin heldur keyra sinn bát, afla tekna og greiða niður skuldir. Þá kemur ríkið og tekur af þeim 5% veiðiheimildanna. Og svo aftur næsta ár. Að fjórum árum liðnum hefur fyrirtæki A misst 20% veiðiheimildanna! Fyrirtækið stendur augljóslega illa því fasti kostnaðurinn við útgerðina deilist á minni afla. Með þessu áframhaldi fer fyrirtækið á hausinn á örfáum árum.

Á meðan hefur ríkið eignast þennan kvóta og hlýtur að ætla sér að úthluta honum aftur. Það má gera með þremur leiðum:

1. Uppboðsmarkaði: Þá eiga allir jafnan rétt en þau fyrirtæki sem hafa best aðgengi að fjármagni standa best. Ef okkar fyrirtæki A nær ekki að kaupa kvóta á uppboðinu, þá stendur það verr næst - og ennþá verr þarnæst og mun lenda í gjaldþroti mjög hratt.

2. Pólitískri úthlutun: Leið sem við þekkjum allt of vel; þetta er leið spillingar og vinargreiða.

3. Útleigu til sömu aðila: Þá setur ríkið leigugjald á kvótann en leigir til sömu aðila aftur. Í raun virkar þessi leið eins og sérstakur skattur á atvinnugreinina.

Byrjum á að útiloka leið 2. Leið 3 þýðir að kvóti færist ekki milli aðila - aldrei! Ef fyrirtæki fara á hausinn þá þarf ríkið að grípa til leiðar 1 (eða 2 sem var útilokuð) og sterkustu fyrirtækin fá aukninguna.

Í núverandi kerfi getur nægjusamur útgerðarmaður aflað sér kvóta og átt hann síðan í friði og ró og stundað sínar veiðar. Hann þarf ekki að selja og hann þarf ekki að kaupa. Fyrningaleiðin mun setja þetta í uppnám og neyða útgerðarmenn til að vera stöðugt að endurfjármagna kvótakaup eða borga stöðuga leigu til ríkisins fyrir að afla þjóðinni gjaldeyris.

Ég get ekki séð hvaða réttlæti er í því!

18.4.09

Fáum við danskt ástand eftir kosningar?

Ég var í Kaupmannahöfn í vikunni, sem er ekki í frásögur færandi. Bjó í Danmörku um árabil og nýti hvert tækifæri til að kíkja við. Núna var óvenjulangt síðan síðast og eins hafði ég óvenju rúman tíma. Kannski þess vegna tók ég sérstaklega eftir hversu rík Kaupmannahöfn er af fólki sem er ekki að fara neitt.

Margir Íslendingar telja það til sjarma Danmerkur að þar er mikið af fólki sem hangir og "hygger sig". Finnst að Danir séu svo afslappaðir og lausir við lífsgæðakapphlaupið að þar hljóti að vera gott að búa. En þegar betur er að gáð er myndin aðeins flóknari.

Í fyrsta lagi eru margir þeirra sem sitja á bekkjunum og sötra bjór í raun alkóhólistar á framfæri ríkisins (ekki að ástæðulausu að rónar eru oft kallaðir "bænkevarmere"). Atvinnuleysi hefur verið viðloðandi vandamál í Danmörku um margra áratuga skeið og þar fyrir utan er mikið dulið atvinnuleysi sem er dekkað af félagslega kerfinu. Þetta fólk - oft annarrar eða jafnvel þriðju kynslóðar atvinnuleysingjar" hefur engan áhuga á að vinna og vill miklu frekar slappa af og hugga sig, ferðamönnum til ánægju en samfélaginu (og eigin heilsu) til bölvunar.

Í öðru lagi er víðast mjög erfitt að fá greidda yfirvinnu. Vinnuvikan er 37 tímar og yfirvinna sjaldnast í boði (amk ekki launuð), þannig að fólk hefur einfaldlega ekkert val. Þetta gefur að sjálfsögðu afslappaðra yfirbragð á mannlífinu en ég held að margir Íslendingar væru ósáttir við að missa yfirvinnuna sína og vera neyddir til að vinna slétta 37 tíma á viku.

Í þriðja lagi er skattakerfið eins og snýtt út úr hugmyndafræði VG. Þannig er lægsta skattþrepið 42%, síðan er mellemskat á 57,3% og loks topskat fyrir þá sem hafa leyft sér að vinna of mikið sem tekur tæp 63% af hverri viðbótarkrónu (sjá heimild). Ef einhver skyldi hafa náð að byggja upp sparnað, þá tekur ríkið hliðstæðar prósentur af fjármagnstekjum. Og hversu mikið skyldi maður þurfa að þéna til að fara milli skattþrepa: Mellemskatten kemur inn ef maður fær meira en 28.900 dkr á mánuði! (Núna er þetta kerfi reyndar að breytast þökk sé stjórn Anders Fogh en það mun taka langan tíma að vinda ofan af flóknu og þunglamalegu skattakerfi.)

Hvað þýðir þetta? Jú, nákvæmlega að áhugi fólks á að vinna sér inn hærri laun verður afar lítill. Hjól atvinnulífsins snúast hægar, nýsköpun verður minni og vinnumarkaðurinn ósveigjanlegur. Nokkuð sem Danir hafa þurft að berjast við í mörg ár.

Afslappað mannlíf er vissulega eftirsóknarvert og oft finnst manni að við Íslendingar gætum farið aðeins hægar. En við höfum val - og amk sum okkar (rétt um 20% þegar þetta er skrifað) vilja áfram hafa þetta val.

Og eitt er víst: Við munum ekki "hygge" okkur út úr þrengingunum.

17.4.09

"Við skulum sjá til"

Ég varð töluvert hissa þegar ég sá auglýsingar Sjálfstæðisflokkins á baksíðu Skessuhorns og Póstsins. Þar var mynd af Steingrími J. Sigfússyni og við hliðina hin ógnvekjandi orð "Við skulum sjá til" sem hann hafði látið falla aðspurður um komandi stjórnarsamstarf og ESB 3. apríl sl. Nokkru neðar stóð þykkum stöfum:

"Trúir því einhver að ríkisstjórn Samfylkingar og VG muni ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu?"

Ég get ómögulega áttað mig á hvert flokkurinn minn er að fara með þessari auglýsingu. Eru aðildarviðræður virkilega svona hræðileg tilhugsun? Munu aðildarviðræður setja fyrirtæki á hausinn eða auka á vandamál heimilanna? Munu aðildarviðræður eyðileggja orðspor okkar á alþjóðavettvangi? Nei, aðildarviðræður eru algerlega hættulausar og í versta falli gagnslaus æfing í diplómasiu.

...og jafnvel þótt sumir kjósendur myndu trúa því að aðildaviðræður færðu þjóðarbúið á barm glötunar þá er hæpið að treysta Sjálfstæðisflokknum fyrir því að sækja ekki um aðild. Á nýafstöðnum Landsfundi var borin upp tillaga sem efnislega sagði: Við viljum ekki sækja um aðild. Hún var felld með öllum þorra atkvæða. Þess í stað var samþykkt tillaga sem formaður Evrópunefndar lýsti sem málamiðlunartillögu. Landsfundurinn sagði með öðrum orðum: "Við skulum sjá til..."

12.4.09

Ekki fréttir...

Ótrúlega margt að gerjast úti í heimi á meðan við höfum gert naflaskoðun að þjóðaríþrótt. Hér eru punktar úr helgarblogginu:

YouTube Is Doomed
Google tapar 470 milljónum dollara skv. Credit Suisse... á Youtube! Samkvæmt þessu bloggi mun tapið bara halda áfram. Og það sem meira er - höfundur telur að dagar Youtube séu taldir.

Sólareldavél vinnur 75 þús. dollara verðlaun
Hún lætur ekki mikið yfir sér en Future forum telur að sólareldavélin sé ein besta leiðin til að berjast við hlýnun jarðar.

Borga 10 mill. dollara fyrir rafmagnsbíl
Keppnin Progressive Automotive X-Price heldur áfram. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með frá byrjun má geta þess að keppnin snýst um að framleiða bíl sem kemst 100 mílur á galloni (um 2,3 l/100 km). Nú eru 111 keppendur eftir og bílarnir farnir að taka á sig áhugaverðar myndir.

Betri stræti á 3 mín.
Samtök með hið lofandi en lítt hógværa nafn Good hafa sent frá sér vel útfærða vefgrafík sem sýnir hvernig hægt er að gera hefðbundin gatnamót öruggari og áhugaverðari fyrir gangandi og hjólandi umferð. Mjög flott útfærsla. Ekki skemmir að heimasíða samtakana heitir www.good.is!

Víða nógu kalt fyrir netþjónabú
Fyrirtækið Green Grid hefur sett upp reiknivél á netinu sem sýnir hversu auðvelt er að nýta náttúrulega loftkælingu til að kæla netþjónabú. Reiknivélin nær því miður ekki til Íslands.

...

11.4.09

Fæðuöryggi

Hagsmunaaðlar í landbúnaði hafa flestir lagst mjög ákveðið gegn ESB viðræðum. Ástæðan er tiltölulega einföld og í sjálfu sér skiljanleg. Innan ESB ríkja frjáls og óheft viðskipti með landbúnaðarvörur. Landbúnaður hérlendis stendst ekki samkeppni við evrópskan landbúnað og mun því tapa verulegri markaðshlutdeild. Forsvarsmenn bænda telja ólíklegt að útflutningur muni bæta upp tap á innlendum markaði og því muni innlend landbúnaðarframleiðsla dragast verulega saman.

Þetta er einmitt markmiðið með hinum sameiginlega markaði; að framleiðsla færist til þeirra svæða þar sem hún er hagkvæmust. Af hverju ættu Íslendingar að framleiða farsíma ef við getum keypt miklu ódýrari farsíma frá Finnlandi? Og af hverju ættu Finnar að rafgreina súrál ef þeir geta keypt miklu ódýrara ál frá Íslandi? Og eins má spyrja: Af hverju ættu Íslendingar að framleiða matvæli ef önnur ríki geta gert það ódýrar?

Svarið snýst um eðlismun á matvælum og öðrum vörum. Segjum til einföldunar að við höfum gert samning við Finna um að kaupa af þeim farsíma við seljum þeim ál í staðinn. Nú gerist það að þeir - af einhverjum ástæðum - hætta að eiga nóg af farsímum. Þeir hætta þess vegna að senda okkur nýja síma og bera við "forsendubresti". Við verðum pirruð og þurfum að sætta okkur við að nota gömlu farsímana okkar áfram. Jafnvel gætum við þurft að sætta okkur við að lifa í samfélagi án farsíma. Leiðinlegt - en ekki ómögulegt.

Ef við hefðum, í stað farsíma, samið við Finna um að sjá okkur fyrir matvælum værum við óneitanlega ver stödd. Samfélag án matvæla hrynur á viku.

Það sem er sérstakt við frumframleiðslu matvæla er að við lifum ekki án hennar. Við getum lifað án farsíma um aldur og æfi, líf án gallabuxna yrði vissulega litlaust en samt þess virði og við getum flest lifað án lyfja árum saman svo dæmi séu tekin. En 24 tímar án matar eru verulega óþægilegir og nokkrar vikur án matar eru dauðadómur yfir flestu fólki.

Þess vegna verðum við að tryggja að í landinu sé geta til að framleiða mat.

En... þess vegna er líka mjög líklegt að við getum samið við ESB um að framleiðslugetan verði tryggð.

10.4.09

Eru allar ívilnanir slæmar?

Steingrímur J. Sigfússon hefur miklar áhyggjur af því að ríkið veiti álveri í Helguvík of mikla fyrirgreiðslu. Ef marka má fyrirgreiðslur til Alcoa Fjarðaráls má ætla að þær verði 0,5% af stofnkostnaði. Reglur á evrópska efnahagssvæðinu leyfa 17%.

Samt finnst Steingrími að íslenska ríkið sé að veita of ríflegar ívilnanir til erlendra fyrirtækja og lætur að því liggja að hann hyggist breyta þessu. Kannski mun hann leggja til sérstaka skattheimtu á erlend fyrirtæki sem hafa áhuga á að hefja starfsemi hérlendis?? Fyrst þessi 0,5% eru svona hræðileg þá þarf væntanlega að grípa til stórtækra aðgerða.

Sannleikurinn er sá að flest ríki beita ríkulega ýmiskonar ívilnunum til að lokka til sín erlendar fjárfestingar. Þau vita eins og er að þessir fjármunir koma margfalt til baka í skatttekjum og jákvæðum margfeldisáhrifum. Þetta sést ofurvel á áhrifasvæði Fjarðaráls á Austurlandi (hálfbyggð hús á Austfjörðum sýna einmitt að svæðið tók þátt í uppsveiflunni).

Hins vegar mættu stjórnvöld marka sér skýrari stefnu um hvers konar fyrirtæki þau vilja fá til landsins. Álvinnsla er ekkert annað en einfaldur útflutningur á orku en margfeldisáhrifin eru lítil. Við þurfum að höfða mun sterkar til alþjóðlegra hátæknifyrirtækja og fyrirtækja í lyfjaiðnaði. Fyrirtækja sem ráða til sín vel menntað fólk og borga laun í samræmi við það.

Skilaboð VG eru röng - Ísland þarf nauðsynlega á erlendri fjárfestingu að halda og stjórnvöld eiga að vera tilbúin til að veita nauðsynlegar ívilnanir.

6.4.09

SPRON klúður

Er þetta ekki óttalegt klúður með yfirtöku ríkisins á SPRON? Bankinn var í óðaönn að semja við lánadrottna, þá tekur ríkið hann og setur í þrot og skipar skilanefnd. Innlánin eru umsvifalaust færð yfir í Kaupþing, sem þýðir að menn ætluðu SPRON greinilega ekkert framhaldslíf. Hinsvegar virðist skilanefndin á öðru máli því hún setur heimabankann, vörumerki og fleiri innviði á sölu og tekur tilboði MP.

Þá virðast menn uppgvöta að tilgangur MP hafi ekki verið að skreyta húsið sitt með smáranum heldur að reka banka og Kaupþing panikerast yfir því að hugsanlega muni einhverjir viðskiptavinir vilja taka út innlánin sín og færa yfir í MP. Seðlabankinn og FME virðast líka fara í panik og setja málið allt í uppnám.

Á meðan er viðskiptaráðherra aðallega upptekinn af því að tala niður lög um bankaleynd, tala niður krónuna og semja frumvarp sem leyfir niðurfellingu saka þeirra sem hafa framið fjárglæpi.

Er nema von að maður fyllist vantrú af og til?

5.4.09

Svikin siðbót

Nú verð ég seint talinn til stuðningsmanna Vinstri Grænna og gæti þess vegna verið hlutdrægur í dómum mínum um þennan ágæta stjórnmálaflokk. En ég átti von á meiri siðbót þegar þeir kæmust til valda.

Ég átti von á að þeir myndu þola í einhverjar vikur í minnihlutastjórn áður en þeir færu að kvarta yfir því hvað það væri erfitt að þurfa að hafa samráð um alla mögulega hluti.

Ég átti von á að þeir myndu gæta sín á pólitískum ráðningum - svo ekki sé talað um pólitískum brottrekstrum.

Ég átti von á að þeir myndu standa vörð um stjórnarskrána og ekki taka í mál að breyta henni korteri í kosninar í andstöðu við þriðjung Alþingis.

Ég átti von á að þeir myndu leggja meiri áherslu á löggjafarvaldið og minni áherslu á framkvæmdavaldið.

Ég átti von á að þeir myndu leggja áherslu á öll framboð fengju ríflegan tíma til að keyra sína kosningabaráttu þannig að þjóðin fengi ráðrúm til að mynda sér skoðun fyrir kosningar.

En VG kom mér á óvart og í stað siðbótar fengum við að upplifa enn meiri yfirgang, klíkuskap og eiginhagsmunapot en nokkurn tíman áður.

Ég hef alltaf verið ósammála þeirri pólitík sem VG hafa haldið á lofti en ég hélt að þeir gætu þó komið með áhugaverða aðferðafræði inn í íslensk stjórnmál. Nú hefur komið í ljós að svo er ekki; VG er gamaldags vinstriflokkur með gamaldags vinstrisjónarmið og gamaldags vinstri aðferðafræði.

Ég get auðveldlega sætt mig við þetta en það hlýtur að vera erfitt fyrir suma þeirra stuðningsmanna að kyngja þessu.

29.3.09

Fönix

Þá er lokið sögulegum landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Yfirskrift fundarins var "Göngum hreint til verks" og þótt ályktun fundarins um Evrópusambandsaðild hafi ekki verið í anda þess slagorðs verður að segjast að margt annað var hreint og beint:
  • Þorgerður Katrín hélt magnaða ræðu og sýndi enn og aftur að hún er einn áhugaverðasti stjórnmálamaður samtímans. Hún uppskar mjög sannfærandi kosningu í varaformanninn.
  • Á meðan Samfylkingin tók stóran krók í kring um raunverulegt formannskjör þá kusu Sjálfstæðismenn milli tveggja jafnoka. Kosningabaráttan var snörp en niðurstaðan skýr; ný kynslóð hefur tekið við forystu flokksins.
  • Davíð Oddsson hélt drottningarræðu sem minnti fundarmenn á að hann var mikill leiðtogi, frábær ræðumaður og einstakur húmoristi. En um leið sýndi hann fundinum að hans tími er liðinn.
Við taka spennandi tímar í Sjálfstæðisflokknum. Það er kaldhæðni örlaganna (og mannana) að þeir stjórmálaflokkar sem helst kröfðust endurnýjunar skutu sér undan henni en sá flokkur sem lengst stóð keikur endurnýjaði bæði áherslur og fólk. Rétt eins og fuglinn Fönix.

9.3.09

Meintur formannsskortur Samfylkingar

...afskaplega sérstök staða sem komin er upp hjá Samfylkingunni. Bæði formaður og varaformaður hafa sagt af sér og pólitískur leiðtogi flokksins vill ekki leiða hann. Það er útaf fyrir sig sérstakt og myndi yfirleitt kalla á alvarlega innri endurskoðun. Hins vegar er krísan ekki stærri en svo að eftir þrjár vikur verður haldið landsþing og þá kjósa menn nýjan formann. Nú þegar er amk einn í framboði og góður tími fyrir aðra að melda sig. En viti menn: Um þetta er rætt um land allt sem eitt meiriháttar vandamál og að nú verði að pína Jóhönnu Sigurðardóttur til að "taka að sér" formennskuna. Jafnvel þótt fyrir liggi að a) hún hafi ekki áhuga og b) hún muni ekki hafa burði til að leiða flokkinn lengi.

Mjög hliðstæð staða er uppi í Sjálfstæðisflokknum. Formaðurinn mun hætta vegna veikinda og einn í framboði til formanns. En þar hafa menn ekki skilgreint stöðuna sem krísu heldur verkefni sem bíður landsfundar.

Einu sinni var í tísku að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn gæti ekki lifað án Davíðs Oddssonar. Reyndin varð sú að formannsskiptin gengu greiðlega og Geir tók við án vandamála. Nú virðist hins vegar augljóst að Samfylkingin mun eiga mjög erfitt með að takast á við tilveru án Ingibjargar Sólrúnar.

6.2.09

Röng frétt um ESB-yfirgang

Í Vísi þann 4. feb. síðastliðinn var frétt undir fyrirsögninni "viðvörunarljósin gagnvart ESB loga skært". Þar sagði:

" Ímyndið ykkur stöðu ykkar innan ESB ef sambandið ákvæði einn daginn að nýta fiskistofnana ykkar í þágu aðildarríkjanna allra," segir Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, í samtali við Útveginn.

"Hugmyndir ykkar um fullveldisrétt myndu þá reynast léttvægar. Þar er reynsla Íra frá því í síðustu viku gott dæmi,"

Greint er frá þessu á vefsíðu LÍÚ. Þar segir að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi fyrir helgina út rökstudda álitsgerð þar sem Írum er skipað að breyta löggjöf sinni þannig að hægt sé að nýta olíuauðlindir þeirra í þágu aðildarríkjanna ef nauðsyn krefur til. Írsk stjórnvöld hafa tvo mánuði til að bregðast við, að öðrum kosti verður þeim stefnt fyrir dómstól Evrópusambandsins." http://www.visir.is/article/20090204/VIDSKIPTI06/713058974/-1

----------

Þarna er verið að vísa í "rökstutt álit" framkvæmdastjórnar ESB sem vissulega var sent Írum en fjallar alls ekki um olíuauðlindir heldur um neyðarolíubirgðir. Í raun er verið að banna Írum að leyfa eigendum þessara olíubirgða að veðsetja birgðirnar því þær þurfi að vera til reiðu ef önnur ríki ESB lenda í olíuskorti:

"The Commission has found that Irish legislation from 2007 allows strategic stocks to be pledged as security for loans granted to the holder of those stocks. However, stocks held pursuant to the Directive may not be used as collateral or encumbered by any charges whatsoever." Álitið er að finna á heimasíðu ESB.

En það hljómaði betur hinsegin...

29.1.09

Þegar rykið sest...

Nú þegar fréttatímar fjalla um fleira en ólæti á Austurvelli er ástæða til að staldra við og skoða sumt af því sem hefur gerst:

-------

ESB-áhugi Samfylkingarinnar hefur dofnað og ESB-aðild er ekki lengur forsenda ríkisstjórnarsamstarfs. Allt tal um flýtimeðferð og einhliða upptöku evru hefur hljóðnað. Hugmynd um kosningu um viðræður, sem Samfylkingin gerði grín að fyrir nokkrum vikum er skyndilega þeirra helsta baráttumál.

Andstaða við álversbyggingar er ekki lengur forgangsatriði hjá VG.

Eins slæmar og pólistískar ráðningar geta verið, þá virðast pólitískir brottrekstrar í lagi. Formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur enn ekki gert athugasemdir við grófar persónulegar árásir á opinberan embættismann í Seðlabanka Íslands. Þó er greinilegt að hluti þessara árása er af pólitískum toga. Sá hefur þó ekki brotið af sér í embætti svo vitað sé.

Kauphöll Íslands virðist fyrirmunað að láta í ljós alvarlegar áhyggjur af ítrekuðum játningum forráðamanna fyrirtækja/banka þar sem fram kemur að sýnarviðskipti til að halda uppi gengi hlutabréfa í Kauphöll voru algeng á undanförnum árum.

Samtök húsafriðunarsinna og aðrir áhugamenn á því sviði hafa ekki mótmælt þótt unnar hafi verið ítrekaðar skemmdir á dýrmætustu húsbyggingum þjóðarinnar - jafnvel tilraunir til íkveikju.

Kröfunni um endurnýjun í liði stjórnmálamanna hefur verið mætt með því að tveir ungir samfylkingarmenn hafa stigið til hliðar og tveir af aldurshöfðingjum Alþingis stíga fram.

Kröfunni um meiri faglegan bakgrunn ráðamanna er mætt með því að út fer fjármálaráðherra með mastersgráðu í náttúrufræði og forsætisráðherra með mastersgráður í bæði alþjóðastjórnmálum og hagfræði en inn kemur fjármálaráðherra með jarðfræðipróf og forsætisráðherra með flugfreyjumenntun.

Kröfunni um aukið lýðræði og aukið vald fólksins er mætt með því að út fer ríkisstjórn með tvo þriðju þingsæta en inn kemur stjórn með minnihluta þingsæta og þar að auki verða í þeirri stjórn aðilar sem ekki hafa verið kosnir af fólkinu - væntanlega valdir án auglýsingar eða opins ráðningarferlis.

Kröfunni um aukna ábyrgð stjórnmálamanna er mætt með því að verðandi forsætisráðherra tekur ekki þátt í stjórnarmyndunarviðræðum.

Neyðarstjórn kvenna ætlar að bjóða fram og berjast fyrir auknu jafnrétti kynjanna. Flokkurinn er aðeins opinn fyrir konur. Hann er að sögn talsmanns þverpólistískur - nema hvað það eru ekki hægrisinnaðar konur í honum.

Aðrir flokkar hafa verið stofnaðir með það yfirlýsta markmið að berjast gegn flokkakerfinu.

---------
Velkomin til Nýja Íslands!

11.1.09

Norski sjávarútvegssamningurinn

Norðmenn sóttu um aðild að ESB. Þeir sömdu um sjávarútvegsmál og náðu niðurstöðu (sem síðan var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu). Eru nokkrar líkur á að okkar niðurstaða yrði verulega frábrugðin þeirri norsku? Af hverju láta menn þá eins og við getum með engu móti vitað hvaða niðurstaða fáist í sjávarútvegspakkann nema með því að fara í aðildarviðræður? Kann ekki einhver norsku??

5.1.09

Bændur og ESB I

Auðlindin sagði frá því í dag að margir bændur sæju fram á gjaldþrot. Ástæðan er fall krónunnar. Landbúnaðarframleiðsla einkennist meðal annars af mjög háu hlutfalli fasts kostnaðar miðað við breytilegan kostnað. Þess vegna skiptir vaxtastig verulega miklu máli fyrir bændur. Vextir hérlendis hafa lengi verið mjög háir og verða það áfram. Þess vegna hafa margir bændur tekið lán í erlendri mynt en eru um leið orðnir mjög háðir gengissveiflum. Gengissveiflur verða alltaf miklar í meðan við höldum í krónuna.

Ég get vel skilið að bændur sjá mikla ógn í niðurfellingu innflutningshafta. Sú ógn er raunveruleg. En ógnin sem felst í háum vöxtum og óstöðugu gengi er sannarlega líka raunveruleg.