29.12.08

Dagur lágkúrunnar!

Mikið er leiðinlegt að Jón Ásgeir taki það nærri sér að vera kallaður sökudólgur. Hann sem aldrei hefur sagt órökstutt styggðaryrði um nokkurn mann.

Hann hefur verið leiðandi í íslensku viðskiptalífi síðustu árin og allmörg hans fyrirtækja eru annað hvort gjaldþrota eða í greiðslustöðvun. Skuldir þessara fyrirtækja eru okkar að borga - hann hefur víst nóg með snekkjuna, þotuna og íbúðirnar. Egill rifjaði upp hvaða fyrirtæki hann á:

Baugur Group
Gaumur
Hagar
Stoðir Invest
Styrkur Invest
Stoðir/FL-Group (tapaður eignarhlutur í Glitni, Tryggingamiðstöðin, fasteignir)
Byr
Hagkaup
Bónus
10-11
Skeljungur
Teymi
Ogvodafone
Húsasmiðjan
Blómaval
Fréttablaðið
DV
Stöð 2
Birtingur (tímarit)
BT
Te og Kaffi
Eymundsson/Penninn
Vífílfell
101 Hótel
Aðföng (innflutningur fyrir verslanir)
Hýsing
Ferskar kjötvörur
Bananar
Debenhams
Karen Millen
All Saints
Warehouse
Top Shop
Zara
Oasis
Dorothy Perkins
Coast
Evens
Útilíf
Jane Norman

EJS
HugurAx
Landsteinar Strengur
Kögun
Eskill
Skýrr
Tal

Securitas

En slæmur rekstur, áhættusækni, endalaus skuldsetning, hringamyndun og fjölmargir digrir reikningar á Kyrrahagseyjum - ekkert af þessu er á hans ábyrgð. Hann er fórnarlamb og sannur vinur litla mannsins!

....ég er hræddur um að lágkúra íslensks viðskiptasiðferðis hafi náð nýjum metum í dag.


28.12.08

Ríkisábyrgðir

Einn af (mörgum) mögulegum lærdómum sem draga má af bankakreppunni er að ríkisstjórnir bjarga bönkum og tryggja innistæður innlánseigenda langt umfram lögbundin lágmörk. Sú staðreynd að íslenska ríkinu mistókst að bjarga íslensku bönkunum breytir engu þar um.

Með þessa nýju vitneskju í huga munu bankamenn að öðru óbreyttu verða enn áhættusæknari í framtíðinni.

...og:

Þessar auknu de facto bakábyrgðir ríkisstjórna (les: almennings) þýða að ríkisstjórnir munu setja fjármálaheiminum mun strangari kröfur um áhættustýringu og upplýsingagjöf.

22.12.08

Þetta voru allt mistök - sorrý...

Nú hafa stjórnendur Landsbankans viðurkennt að "mistök" hafi verið gerð þegar hlutabréfasjóðir voru auglýstir sem áhættulausir. Glitnir hefur líka viðurkennt að mistök hafi verið gerð þegar núverandi bankastjóri bankans gerði heiðarlega tilraun til að eignast hlutabréf í bankanum, en mistókst. (Ég er ekki frá því að Björgólfur hafi meir að segja talað um mistök en Jón Ásgeir hefur engin mistök gert ennþá - hins vegar er hann sannfærður um að bæði íslenska dómskerfið og Samkeppnisstofnun geri ítrekuð mistök.)

Kannski er þetta rétt - kannski gerði hópur fólks í Landsbankanum þau mistök að telja sjóðina fullkomlega örugga. Kannski er líka rétt að bankastjóri Glitnis varð af 180 milljóna hlut í bankanum fyrir handvömm einhverra miðlara. Kannski...

En ef þetta voru allt mistök... þá hefur maður ekki óskaplega mikið traust á því fólki sem vann - og vinnur í bönkunum.

16.12.08

Sameining FME og SÍ

Stundum eru "ekki-fréttir" mun merkilegri en "fréttir". Nú stendur til að sameina Fjármálaeftirlit og Seðlabanka Íslands og svo virðist sem öllum þyki það sjálfsagt. Á þingi er málið ekki rætt, nema sem hvert annað formsatriði sem þarf að ljúka af.

En af hverju á að sameina FME og SÍ? Þarna er verið að snúa við nýlegri breytingu sem var framkvæmd á málefnalegum forsendum og að erlendri fyrirmynd. Engin málefnaleg rök hafa komið fram sem réttlæta sameininguna og í raun hefur enginn kallað eftir þeim. Nóg hefur verið rætt um starf FME og SÍ og meint afglöp, en þegar kemur að róttækum breytingum á stjórnskipulagi þessara stofnana þá hefur enginn neitt til málana að leggja.

Getur verið að sameining FME og SÍ snúist alls ekki um starfsemi þessara stofnana, heldur einungis um forstöðumenn þeirra?

...og er meðvirkni okkar í feluleiknum algjör?

(sjá meira um feluleiki á http://deiglan.com/index.php?itemid=12344)

15.12.08

Economist um kreppuviðbrögð

Í áramótaútgáfu Economist "The World in 2009" er m.a. umfjöllun um efnahagsmál í Bretlandi. Þar segir:

"In a recession, measures to increase taxes or reduce public spending would be politically impossible and economically foolish."

... sem segir okkur bara eitt: Ástandið á Íslandi er miklu alvarlegra en svo að geta kallast "recession".

20.10.08

Efnahagsástandið virðist draga fram það versta í mörgu fólki. Bloggheimar loga af sjálfumglaðri vandlætingu og sleggjudómum. Það er nánast sama hvar er gripið niður, fólk heimtar blóð og leyfir sér ótrúlegan dónaskap gagnvart náunganum. Nú síðast fékk Dorit á baukinn, fyrir að benda okkur á hið sjálfsagða en áður var búið að níða skóinn af stórum hluta af stjórnmálamönnum og stjórnsýslu Íslands - auk helstu viðskiptajöfra síðustu ára.

Bandaríkjamenn lentu í alvarlegu áfalli 11. sept. 2001, fylltust heilagri vandlætingu og ákváðu að heimurinn yrði aldrei samur. Þeir viku til hliðar hefðbundnum gildum eins og alþjóðarétti og mannréttindum. Niðurstaðan var ekki góð og segja má að viðbrögð þeirra hafi valdið meiri skaða en hörmungarnar sjálfar.

Hér heima heyrast hugmyndir um að reka samstundis alla stjórn Seðlabankans, boða samstundis til kosninga, neyða helstu ráðamenn landsins til að segja af sér, ganga tafarlaust og án umræðu í Evrópusambandið, fella úr gildi lög um umhverfismat, hefja ofveiði á þorski og ráðast í stórfellda eignaupptöku hjá fólki sem ekki hefur svo mikið sem verið ákært, hvað þá heldur dæmt.

Við urðum vissulega fyrir áfalli en við megum ekki víkja til hliðar grunngildum okkar samfélags; umburðarlyndi og réttarríkinu. Það er stundum sagt að maður eigi ekki að hugsa um vandamál heldur lausnir en nákvæmlega núna væri það okkur öllum hollt að velta vandanum fyrir okkur áður en við krefjumst lausna. Kannski er vandinn einmitt fólginn í ofurtrú á lausnir og "þetta reddist" hugsanahætti. Ef núverandi ástand hefur sýnt okkur eitthvað þá er það að hlutir reddast ekki alltaf og það er mikilvægt að bera virðingu fyrir skoðunum fólks (líka erlendra greiningaraðila) sem er á annarri skoðun en við sjálf. Ef okkur tekst ekki að læra þessi sannindi erum við dæmd til að endurtaka þennan leik.

12.10.08

Tilvistarkreppa

Þessi færsla er góð áminning. Að sjálfsögðu er tap margra gríðarlegt og sárast fyrir eldra fólk sem á litla möguleika á að vinna tapið upp. Við sem yngri erum getum hins vegar ekki kvartað. Þrátt fyrir tap og fyrirsjáanlega kjaraskerðingu verða lífskjör okkar áfram með því besta sem gerist í heiminum - í sögu mannkyns.

Kreppan sem allir tala um er tilvistarkreppa. Við þurfum að horfast í augu við að við erum lítil vanmáttug þjóð - ekki stórust í heimi, ekki töframenn í viðskiptum, höfum ekki efni á hömmerum eða Range Roverum og getum ekki leyft okkur að kalla Dani nískupúka.

Það er sjálfsagt að beita sjálfsblekkingum og reyna að finna sökudólga í því fólki sem þessa mánuðina er í forystu stjórnmála og atvinnulífs. En þegar upp er staðið verðum við að horfast í augu við að sem þjóð eyddum við langt um efni fram, skuldsettum heimilin í landinu, hlóðum upp yfirdrætti og trúðum því að allt væri í lagi.

Matvælaöryggi

Í liðinni viku tilkynnti framkvæmdastjóri Bónus að matvælaskortur væri yfirvofandi - þá helst á innfluttri ferskvöru. Jafnframt ráðlagði hann fólki að byrgja sig upp af vörum. Væntanlega tilheyrði þessi "ráðgjöf" sama flokki og ráðgjöf "bankaráðgjafa", en viðvörunin var samt nægjanlega trúverðug til að fólk hamstraði vörur alla síðustu viku.

Ég hef haldið því fram áður að óheftur og tollfrjáls innflutningur mjólkur- og kjötvara myndi valda hruni í innlendri framleiðslu. Það sem meira er: Á tiltölulega fáum árum myndu möguleikar okkar á að endurreisa framleiðsluna verða að engu, því eitt helsta einkenni búskapar er mjög hátt hlutfall fasts kostnaðar miðað við veltu (betur útskýrt í ofangreindri tilvísun).

Það eru einungis nokkrir mánuðir síðan Hagar börðust fyrir stórauknu frelsi í innflutningi á matvælum en núna segjast sömu aðilar ekki geta ábyrgst ferskvöruinnflutning til landsins.

Það mun örugglega ekki líða á löngu áður en talsmenn smásöluverslana taka aftur upp þráðinn og krefjast þess, fyrir hönd almennings, að fá að leggja í rúst innlenda framleiðslu á mjólk og kjöti. Minnumst þess þá hvernig þurrmjólk er á bragðið.

Bankaráðgjöf

Bankarnir kölluðu sölumenn sína "ráðgjafa"!

30.9.08

Gjaldþrot Íslands

Hluthafar Glitnis fara hamförum í fjölmiðlum þessa sólarhringana. Stærstu hluthafarnir hafa hagnast gríðarlega síðustu árin en hafa samt ekki séð ástæðu til að leggja aukið hlutafé inn í bankann. Samt víla þeir það ekki fyrir sér að saka íslenska ríkið um að hafa framið bankarán.

Fyrir liggur að Glitnir stefndi í þrot og að eigendur gátu ekki - eða vildu ekki - leyst vanda félagsins. Íslenska ríkið hafði þrjá kosti:

1. Láta Glitni fara í þrot.
2. Lána 84 milljarða króna.
3. Yfirtaka Glitni.

Fyrsti kostur var óhugsandi, enda hefði hann sett allt fjármálakerfi landsins í uppnám. Annar kostur hefði leyst skammtímavanda bankans, en væntanlega gert hann algerlega verðlausan á mörkuðum og gert honum algerlega ómögulegt að nálgast erlent lánsfé næstu misserin. Sú staða hefði smitað yfir á önnur fjármálafyrirtæki og því sett allt fjármálakerfi landsins í uppnám sbr. lið 1). Eftir stóð þriðji kosturinn!

Allt tal um að ríkið hafi á degi eitt hagnast á dæminu er markleysa því til að ríkið hagnist þarf kaupanda að hlutabréfunum. Ennþá hefur enginn lagt fram kauptilboð í hlut ríkisins á gengi dagsins. Ekki einu sinni þeir sem hafa nú hæst um að ríkið hafi hlunnfarið eigendur.

"Minniháttar" vandamál í "litlum" banka tóku tæpan fimmtung af gjaldeyrisvaraforða ríkisins. Jafngildi allra skatttekna af einstaklingum á einu ári! Hið alvarlega í stöðunni er að ef ríkið hefði misstigið sig í þessum björgunaraðgerðum, þá hefði staða hinna bankanna verið í uppnámi. Þar með væri hagkerfið Ísland á barmi gjaldþrots.

23.9.08

Ekki-aðild

Nákvæmlega hvers vegna viljum við ekki vera meðlimir í ESB? Væri ekki ágætt að fara að rifja það upp í ruglingslegri umræðu þessara vikna. Við tökum nú þegar upp allar reglugerðir sem skipta máli, erum hluti af opnum vinnumarkaði, höfum opið fjármálakerfi, erum að verða sammála um að krónan sé ekki lykillinn að árangursríkri efnahagsstjórn og höfum endalausar menningarlegar og sögulegar tengingar við Evrópu. Hvað er það þá sem við viljum ekki?

Mér dettur bara tvennt í hug: Sameiginleg stjórn fiskveiða og frjáls innflutningur landbúnaðarafurða. Meginregla ESB varðandi stjórn fiskveiða er að úthluta veiðiheimildum í takt við veiðireynslu. Við erum eina landið með veiðireynslu hér við land, svo við verðum væntanlega eina landið sem fær úthlutað veiðiheimildum. Restin er útfærsluatriði sem mun ekki komast á hreint fyrr en að loknum samningum.
Frjáls innflutningur landbúnaðarafurða er sennilega meiri grundvallarbreyting, þótt hún komi illa við færri. Á móti kemur að ESB hefur styrkt jaðarsvæði rausnarlega, en hæpið verður að telja að það bjargi landbúnaðinum. Hitt er svo annað mál að það virðist glettilega mikill áhugi meðal þjóðarinnar að fella niður innflutningshöft einhliða.

Við höfum margoft spurt sömu spurningana og við endum alltaf með sömu svörin: "Endanleg niðurstaða fæst ekki nema með aðildarviðræðum." Því þá ekki að hefja aðildarviðræður, koma þessum málum á hreint og kjósa síðan um samninginn? Ef okkur líst vel á niðurstöðuna þá segjum við já, ef okkur líst illa á, þá segjum við nei. Í báðum tilvikum munum við hafa tekið upplýsta ákvörðun. Er það svo slæmt?

9.9.08

Sameining sveitarfélaga

Samgönguráðherra tilkynnti á dögunum að hann hyggðist leggja fram frumvarp í vetur sem setti lágmarksstærð sveitarfélaga upp í 1000 íbúa. Þessi hugmynd er hvorki ný né óumdeild, en krefst tvímælalaust vandaðrar umræðu. Ég býst við að skoðun fólks á 1000 íbúa markinu fari eftir því hvort litið sé á sveitarfélög sem ákveðið stig í opinberri stjórnsýslu, eða sjálfstæða stjórnvaldseiningu. Ef fyrra sjónarmiðið er uppi, þá er eðlilegt að ríkið setji skýrar reglur um stærð og starfsemi sveitarfélaga. Ef við aðhyllumst seinna sjónarmiðið ættu sveitarfélög að mega ráða því sjálf hvernig þau leysa sínar skyldur. Þannig hefur t.d. Borgarbyggð valið að semja við verktakann Hjallastefnuna um rekstur leikskóla. Á sama hátt hefur sveitarfélagið Skorradalshreppur samið við Borgarbyggð um rekstur leikskóla og skóla. Ég sé ekki að ríkisvaldið þurfi að hafa miklar áhyggur, því í báðum tilfellum er börnunum tryggð góð þjónusta. Á sama hátt munu lítil sveitarfélög finna leiðir til að sjá um rekstur öldrunarþjónustu og framhaldsskóla.

Þau rök sem sennilega ráða mestu þegar upp er staðið eru prakísk: Það er ópraktískt að hafa mjög mörg sveitarfélög; það er ópraktískt að hafa sveitarfélög með ólíkt notendaviðmót og þjónustustig; það er ópraktískt að nota allan þennan tíma í sameiningarumræður og -kosningar. 1000 íbúa reglan leysir praktísk vandamál. Það nægir mér.

7.9.08

Riga og sjálfstæði Íslands

Skrapp á fund í Riga, höfuðborg Lettlands. Gluggaði aðeins í sögu borgarinnar og landsins á leiðinni og fylltist aðdáun yfir margra alda veldi þessarar borgar. Miðbærinn er á heimsminjaskrá UNESCO og ekki að ástæðulausu því þarna er eitt mesta safn Art Nouveau bygginga sem fyrirfinnst í heiminum. Riga var ein hinna svokölluðu Hansaborga og er með mjög evrópskt yfirbragð.

Lettland fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991 og sótti fljótlega um aðild að Evrópusambandinu - til að tryggja sjálfstæði sitt. Hér á Íslandi er aðild að Evrópusambandinu hinsvegar yfirleitt talin fela í sér afsal sjálfstæðis; nokkuð sem mér finnst afar erfitt að skilja.

Sjálfstæðishugtakið hlýtur að fela í sér einhverskonar tilvísun í pólitískan, efnahagslegan og menningarlegan sjálfsákvörðunarrétt. Að enginn neyði mann til neins. Með aðild að ES fáum við formlega aðild að þeirri löggjafarvinnu sem við nú þegar lútum í gegn um EES. Varla minnkar sjálfstæði okkar þar. Efnahagsleg rök mæla flest með ES aðild, þannig að ef eitthvað er þá eykst okkar efnahagslega sjálfstæði við inngöngu. Menningarlega ætti aðild ekki að skipta máli. Það er því erfitt að sjá hvaða sjálfstæði tapast.

Þar fyrir utan má velta því fyrir sér hversu mikið sjálfstæði við höfum haft í gegnum tíðina. Landflótta Norðmenn sem hingað komu og stofnuðu fríríki sem á 200-300 árum beið efnahagslegt og pólitískt skipbrot. Norsk eyja frá 1262, síðan hluti af danska ríkinu þangað til Bretar og síðan Bandaríkjamenn hernámu landið í seinni heimstyrjöldinni. Síðan þá hafa Bandaríkjamenn séð alfarið um varnir landsins - nokkuð sem ekki beinlínis hefur boðið upp á sjálfstæða utanríkisstefnu og einhvern vegin hefur maður á tilfinningunni að við náum tæplega að höndla sjálfstæða stjórnun efnahagslífsins.

Það eru ýmis rök sem mæla gegn aðild að Evrópusambandinu, en afsal sjálfstæðis vegur ekki þungt.

16.8.08

Danir þakka Guðmundi

Enn einn frábær leikur í okkar mönnum í Peking. Nokkuð ljóst að maður þarf að vaka annað kvöld.

Dönsku blöðin enduróma kveinið í Ulrik og telja sænsku dómarana hafa verið sér óvilhalla. Einhvern vegin tekst þeim að horfa fram hjá rauðu spjaldi Loga og nokkrum mjög vafasömum dómum í garð okkar liðs.

Einna athyglisverðast er þó þessi frétt í Berlinske Tidende þar sem Guðmundi Guðmundssyni er þakkað að Ulrik lenti í slagsmálum við Guðjón Val. Haft er eftir Guðjóni að vissulega hafi hann sagt "fuck off" en það hafi ekki verið illa meint (!).

10.8.08

Dráttarvéladagur og sparisjóður


Góð stemmig á Hvanneyri um helgina þegar dráttarvéladagurinn var haldinn hátíðlegur. 90 ár síðan fyrsta dráttarvélin kom til landsins. Sama dag var haldið upp á 80 ára afmæli Hvítárbrúar. Glæsilegt mannvirki! Reist um svipað leyti og Hreppslaug og Hvanneyrarfjós. Fjósið stendur autt og býður þess að hýsa safn um eigin tíma. Laugin þolir ekki kröfur nútímans um öryggi, aðstæður og heita potta. Hvítárbrúin er ekki lengur þjóðbraut. Samfélagið breyttist en þessi glæsilegu mannvirki standa nú eftir steinrunnin.

Sparisjóður Mýrasýslu er litlu eldri en fyrsta dráttarvélin en hefur haldið sér betur. Hingað til... Hornsteinn í héraði um tæpa öld. En rétt eins og fyrsta dráttarvélin hafði sparisjóðurinn ekki afl til að takast á við kröfur nútímans. Rétt eins og dráttarvélin, kallar saga sparisjóðsins fram blik í auga þeirra sem voru honum samferða og ekki skortir þá sem útlista gæði gömlu vélanna og hversu þær voru betri en tryllitækin í dag. Það er eðlilegt og réttmætt en breytir ekki þeirri staðreynd að tími gömlu dráttarvélanna er liðinn. Ekki er annað að sjá en það sama eigi við um sparisjóðina.
Posted by Picasa

17.7.08

Tímaferðalög

Ein besta sönnun þess að tímaferðalög eru ekki möguleg er að ég hef ekki hitt mig, eða neinn annan tímaferðalang... ennþá.

Ég er nýkominn úr tveimur "in vivo" tímaferðalögum. Prófaði eldsmíði einn dag. Smíðaði "krók/snaga" og þann ljótasta kertastjaka sem heimurinn hefur séð. (Sá er nú í vörslu Sorpurðunar Vesturlands.) En reynslan fær mig til að votta járnsmiðum fyrri alda djúpa virðingu. Það er svosem skiljanlegt hvernig menn slóu skeifur, nagla og litla hnífa. En brynjur, verkfæri, potta og pönnur! Respekt.

Hitt tímaferðalagið var tjaldútilega sumarsins. Sól, hiti og silungur uns sólin settist. Þá tók við kuldi, trekkur og tjalddýna. Maður dúðar sig ofan í svefnpoka og vaknar ítrekað í kuldahrolli þangað til klukkan slær fimm. Þá skríður hitinn upp í 35 gráður og maður liggur í móki næstu tímana. Hvernig í ósköpunum komust menn í Norðurpólinn?

Kannski þekkti fólk ekki hugtakið "að vakna úthvíldur". Var úrvinda á hverju kvöldi eftir skeifusmíði úr mýrarrauðu járni. Fór með hálfum huga inn í lúsugt rúmið og sótti hughreystingu í Hallgrím Pétursson.

28.6.08

Höfuðborgarkreppa

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings lætur hafa eftir sér í ruv.is að yfirvofandi kreppa sé bundin við höfðuðborgarsvæðið - landsbyggðin græði á hagstæðu gengi, enda sé hún aðallega í útflutningsframleiðslu. Nú veit ég að Ásgeir veit betur - en því miður eru margir aðrir sem ekki vita betur.

Um hvað snýst yfirvofandi "kreppa" á höfuðborgarsvæðinu. Vandamál við fjármögnun húsnæðis? Atvinnuleysi? Hækkandi verð nauðsynja? Lágt markaðsverð á húsnæði? Allt þetta er "eðlilegt ástand" á landsbyggðinni og hefur verið lengi. Síðustu 10 ár hefur íbúum Dalabyggðar fækkað um meira en 10% og ekkert í greiningu Ásgeirs bendir til annars en sú þróun haldi áfram. Ekkert bendir heldur til þess að íbúum höfuðborgarsvæðisins munu fækka um tugi prósenta næstu árin. Samt er kreppa yfirvofandi á höfuðborgarsvæðinu en ekki í Dalabyggð!

Gríðarleg þensla síðustu ára með tilheyrandi kaupmáttaraukningu var að mestu bundin við höfuðborgarsvæðið, Akureyri og mið-Austurland. Þegar þessu óvenjulega þensluskeiði lýkur, þá er hæpið að tala um kreppu og alls ekki fréttnæmt að áhrifana gæti helst þar sem þenslan var mest.

Og varðandi uppgangstíma á landsbyggðinni, þá þarf fjármagn til uppbyggingar og fjármagn til uppbyggingar fæst amk ekki hjá Kaupthing bank. Getur verið að lánadeildin lesi ekki skýrslur greiningardeildarinnar?

23.6.08

Sumarsólstöður á svölunum




Sólin sest yfir Snæfellsnesi um og uppúr miðnætti þessa dagana - frá okkur séð að minnsta kosti. Endalaus uppspretta sólarlagsmynda. Tveimur tímum síðar árar af degi aðeins norðar.























Posted by Picasa

Írönsk sýn á Ísland

Fór í boð með erlendum sendiherrum í Fossatúni. Þar voru sendiherrar amk 50 ríkja að snæða kvöldmat eftir skoðunarferð um Vesturland. Sá danski gat sagt "ég er danski sendiherrann á Íslandi" á vel frambærilegri íslensku. Hann hélt því fram að ekki aðeins væri Danmörk það land sem stæði Íslandi næst, heldur væri Ísland það land sem stæði Danmörku næst. Sennilega er það rétt - þessar tvær þjóðir ættu að hætta hnútukasti og leggja í staðinn enn meiri rækt við sameiginlegan menningararf.

Íranski sendiherrann koma á óvart. Var nokkuð ánægður með landið og taldi að við ættum heilmikla möguleika "great potential". Við hefðum nóg af vatni, bæði heitu og köldu og landrými væri yfirdrifið. Veðrið vissulega þreytandi en ekki svo slæmt. Við þyrftum hins vegar að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf. Hátækni - ekki þungaiðnað sem færi illa með náttúruna - hátækni og hugbúnaðarþróun. Til þess vantaði vel menntað fólk - miklu fleira fólk. Hann taldi að 5-10 milljónir væri mátulegt. Til að ná því væri ekki um annað að ræða en flytja inn fólk - við gætum tæplega náð þessum fjölda í bráð með náttúrulegri fjölgun.

Ég benti á að svona margir innflytjendur gætu haft áhrif á menningararfinn okkar - tungumálið og vinsældir skólaljóðana en þá var mér bent á að það væri að sjálfsögðu nauðsynlegt að stýra aðstreyminu og taka engan inn í landið sem ekki lærði íslensku. Síðan mættum við ekki vera hrædd við hnattvæðingu og fjölbreytta menningu. Mér fannst skrítið að taka leiðbeiningum um umburðarlyndi og fjölmenningu frá Írana og spilaði út "the ultimate": Við erum ríkasta þjóð í heimi - af hverju ættum við að flytja inn 9,7 milljónir útlendinga. En Íranski sendiherrann blikkaði ekki auga og sagði mér að það gæti breyst og ég yrði að hugsa um unga fólkið. Ungt fólk þyrfti áhugaverðara samfélag og ef við værum bara 300 þúsund myndi unga fólkinu leiðast, það myndi ekki finna sér áhugaverð störf og það myndi flytja burt.

Tveimur dögum síðar las ég nýja stefnumörkun Skota í byggðamálum. Þar var fjölgun íbúa talin eitt af mikilvægustu atriðunum fyrir áframhaldandi þróun dreifbýlis.

15.6.08

Akureyringar skammast sín

Í fréttum á textavarpinu í kvöld - og kannski víðar - kom fram að verslunareigendur á Akureyri töldu bíladagana sverta ímynd Akureyrar. Skilja mátti að á svona hátíð kæmi fólk sem færi á fyllirý og tæki dóp og hagaði sér ekki á ábyrgan hátt. Nú ætla ég að vera manna síðastur til að verja óábyrga hegðun fólks, en við verðum líka að vera raunsæ. Ef Akureyringar vilja verða hluti af íslensku samfélagi - fá til sín mannfjölda af höfuðborgarsvæðinu tvo daga á ári - þá verða þeir líka að vera reiðubúnir til að takast á við margbreytileika samfélagsins. Það eru ekki allir í stúku. Ímynd Akureyrar skaðast ekki af því að fólk fari á fyllerý á Bíladögum - þvert á móti skaðast ímyndin ef Akureyri verður staður þar sem einungis siðprútt fólk er velkomið.

13.6.08

Leikhúsið í Borgarnesi

Brynhildur Guðjónsdóttir fékk tvær Grímur í kvöld sem þýðir að Borgarnes fékk tvær Grímur. Hvernig er það miðað við höfðatölu? Ein á hverja þúsund. Fékk höfuðborgarsvæðið þá 160? Höfðatala er frábær þegar maður er fámennur.

En óháð höfðatölu þá er það staðreynd að við höfum eignast atvinnuleikhús í Borgarfirði. Í fyrra var það Mr. Skallagrímsson og núna Brák. Inn á milli Mýramaður Gísla Einars og Svona eru menn með KK og Einari Kára. Allt afburðasýningar.

Leikhús Landnámssetursins í Borgarnesi eru sérstakar. Þær eru eiginlega ekki sviðsettar heldur fluttar - allt að því maður á mann. Stemmingin er baðstofustemming þar sem leikararnir hefja sýningar á að kynna sig. Svo hefst sagan.

Sýning Brynhildar er sérstök fyrir þær sakir að hún varpar nýju ljósi á Egils sögu. Á það hvernig keltnesk menning blandaðist þeirri norrænu í gegn um fóstrurnar. Á stöðu kvenna á landnámsöld. Og á mótunarár Egils. Brynhildur - rétt eins og Benedikt árið á undan - meðhöndlar Egilssögu eins og hún hlýtur að hafa verið ætluð: Sem sögu! Þegar sagan rúllar skiptir engu hvort hún er sönn eða skálduð - það eina sem skiptir máli er hvort hún sé nægjanlega trúverðug til að fanga hugann og hrífa okkur með. Það tókst hjá Brynhildi og þess vegna var sýning hennar góð.

8.6.08

Opnun Vatnajökulsþjóðgarðs

Var við opnun Vatnajökulsþjóðgarðs um helgina. Jökullinn verður sá stærsti í Evrópu, en reyndar er stór hluti hans sjálfur Vatnajökull. Næstu árin mun þjóðgarðurinn væntanlega stækka frekar og ekki er útilokað að byggð svæði verði innlimuð í garðinni. Margir virðast halda að þjóðgarðar séu heilög verndarsvæði, þar sem ekkert megi nema taka myndir. Svo er alls ekki. Svæði innan þjóðgarða eru flokkuð í 6 verndunarstig, sem fela í sér mismikla verndun.

Í vor var ég í Skotlandi og keyrði í gegnum Cairngorms þjóðgarðinn norðan Glasgow. Þar búa 16.000 manns og stunda fjölbreytta atvinnustarfsemi. Það eru fleiri en á öllu Vesturlandi. Fyrir þessar byggðir er þjóðgarðurinn tækifæri, þótt vissulega fylgi því ákveðnar takmarkanir að búa innan þjóðgarðs.

Myndin er tekin þegar verið var að draga að hún fána með merki Vatnajökulsþjóðgarðs.
Posted by Picasa

Suðurland


Fór á Kirkjubæjarklaustur um helgina. Leiðin er löng, en þægileg. Það er gömul mýta að vegir á Íslandi séu slæmir. Þjóðvegakerfið er í megindráttum mjög gott, þótt auðvitað séu kaflar - sérstaklega á Vestfjörðum sem eru erfiðir. Landsbyggðin er ekki afskekkt lengur og manni virðist stundum að höfuðborgarbúar hafi áttað sig betur á þessu en við sem búum úti á landi. Urmull höfuðborgarbúa fer út á land um hverja helgi með fellihýsi eða hjólhýsi til að njóta helgarinnar í mismikilli friðsæld. Veðrið skiptir ekki öllu máli - enda býður rigning upp á skemmtileg sjónarspil eins og það sem ég myndaði á Rangárvöllunum á laugardaginn.
Posted by Picasa

3.6.08

Verktakar í vandræðum

Um helgina var um 35 starfsmönnum Sólfells sagt upp störfum og framtíð fyrirtækisins er í uppnámi. Ef öflugt heimafyrirtæki eins og Sólfell fer í gjaldþrot mun það hafa slæm áhrif á marga smærri verktaka á Vesturlandi. Snjóboltaáhrifin eru sterk í þessum geira; fall eins getur veikt stöðu margra annarra. Næstu misserin verða erfið fyrir byggingabransann. Saman fara vandamál við fjármögnun skammtímaskulda, vandamál almennings og fyrirtækja við að fjármagna fasteignakaup og umtalsvert offramboð á fasteignamarkaði. Það er kominn tími til að fjölmiðlar hætti að einblína á vandamál bankanna. Þar hafa menn hingað til gengið út með tugi eða hundruði milljóna í bónusgreiðslur fyrir það eitt að hætta störfum. Hinn eiginlegi vandi lánsfjárkreppunnar er rétt að byrja. Venjulegt fólk fær ekki borgað fyrir vinnu sína eða horfir fram á verulega launalækkun. Það er þetta fólk sem heldur uppi hagkerfinu Ísland og þegar það byrjar aðhald þá hægir á.

2.6.08

Geimskip




Óvenju skýrt dæmi um lendingu geimskips á Mýrunum.
Posted by Picasa

26.5.08

Sveigjanleg borgarpólitík

Borgarmálin taka á sig sérkennilegar myndir þessa dagana.

Um 4% borgarbúa styðja borgarstjórann sem myndar meirihluta með D-lista sem hefur 34% fylgi sem er sammála minnihlutanum, sem nýtur stuðnings meirihluta kjósenda um að flugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni en 60% borgarbúa eru ósammála þeim.

Til að flækja málið enn frekar verðlaunaði borgin skipulagstillögu fyrir Vatnsmýrina sem borgarstjóri telur meingallaða en minnihlutinn í borginni (sem nýtur stuðnings meirihluta kjósenda) og hluti meirihlutans telur tillöguna mjög góða því hún sé svo opin og sveigjanleg. Reyndar vantar í hana helstu samgöngumannvirki og í stað þéttrar byggðar fáum við breiðstræti og tjörn og tillagan er ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag en hvað með það - hún er sveigjanleg!

Sama má segja um hið pólitíska landslag í borginni: Það er sveigjanlegt.

25.5.08

Ólæst reiðhjól

Einhvern tíman las ég bók eftir Francis Fukuyama þar sem höfundurinn færði rök fyrir því að traust (eða félagslegur auður á fræðimáli) væri undirstaða velmegunar. Býsna sannfærandi lesning. Mér flaug þessi bók í hug þegar ég gekk fram hjá grunnskólanum á Hvanneyri í vikunni: Hvert einasta reiðhjól var ólæst.

16.5.08

Umrót í sveitarstjórnum

Það er óhætt að fullyrða að síðustu tvö ár hafa verið róstursöm í sveitarstjórnarmálum. Meirihlutar hafa fallið í eftirminnilega í Árborg, Bolungarvík, Reykjavík, Reykjavík og Akranesi og kannski síður eftirminnilega (fyrir mig) á fleiri stöðum. Í öllum ofangreindum tilfellum hafa þessar breytingar verið skyndilegar og ekki er hægt að halda því fram að þær hafi verið endastöð langvarandi stjórnarkreppu. Málefnaágreiningur hefur ekki alltaf verið mjög augljós þeim sem standa utan hringiðunnar en persónulegar deilur þeim mun greinilegri.

Í öllum tilfellum fylgdu slitunum háværar og ómálefnalegar umræður þar sem orð eins og "svik" og "óheiðarleiki" voru óspart notuð ásamt grófum persónulýsingum. Fólk, sem fyrir tveimur árum var falið það mikilvæga hlutverk að annast sameiginlega sjóði og leiða stefnumörkun sveitarfélaganna til framtíðar, hefur sýnt af sér fádæma óháttvísi. Það er eðlilegt að í starfi sveitarstjórna komi upp ágreiningur innan framboða og á milli þeirra, en við sem höfum boðið okkur fram til starfa á þessum vettvangi verðum að sýna ákveðið fordæmi um hvernig deilumál eru leyst. Þar hafa ýmsir brugðist.

Ég held að þær uppákomur sem við höfum orðið vitni að undanfarið hafi tvenn langtímaáhrif. Í fyrsta lagi draga þær úr trausti almennings á sveitarstjórnum. Í öðru lagi draga þær úr líkunum á að myndaðir verði meirihlutar sem byggja á stuðningi lítilla flokka eða flokksbrota. Reynslan sýnir okkur einfaldlega að litlir flokkar og flokksbrot eru óstöðug enda oft mynduð í kringum fá afmörkuð málefni. Það getur vissulega verið freistandi fyrir kjósendur að setja atkvæði sitt á þessi afmörkuðu málefni, en það getur ekki talist heppilegt fyrir lýðræðið til lengri tíma litið. Stefnumörkun pólitískra afla þarf að koma frá grasrótinni og hún þarf að fela í sér heildarsýn á það hvernig við viljum að samfélagið þróist. Málefnasamstarf ráðandi afla þarf svo að byggja á samræðu og málamiðlunum. Litlir eins-málefnisflokkar geta ekki gert málamiðlanir og þess vegna eru þeir ekki áhugaverðir samstarfsaðilar. Þessu virtust ýmsir hafa gleymt en atburðir liðinna missera ættu að hressa upp á minnið.

13.5.08

Olían kostar sitt

Ég setti persónulegt met í morgun: Tók olíu á Passatinn fyrir 10.400.- ... íslenskar. Keyrði svo sparakstur það sem eftir lifði dags og reiknaði gróðann.

Fjölskyldubíllinn okkar er keyrður um 40 þús. km á ári. Það þýðir að fyrir hvern lítra sem bíllinn eyðir pr. 100 km borgum við 66 þús. ... íslenskar. Munurinn á Passatnum sem eyðir 6,5 og standard slyddujeppa sem eyðir 12,5 á hundraðið er tæplega 400 þús. á ári ...íslenskar. Fyrir þann pening kæmist ég í sund þrisvar á dag alla daga ársins. Og þar sem sundlaugin er lokuð á föstudaginn langa þyrfti ég að fara fjórum sinnum suma daga. Ég gæti líka keypt mér ríflega 4000 dollur af skyr.is - meira en 11 á dag, líka á aðfangadag. Þetta væri nú kannski ekki neitt sérstök tilvera, en moralen er að það er hægt að gera margt fyrir 396 þús. íslenskar (ennþá).

Ef ég ætti slyddujeppa og æki á 90 km/klst eyddi ég olíu fyrir 1.856 á tímann! Þetta er næstum því fimm sinnum dýrara en að fara í bíó, sem þó er orðið syndsamlega dýrt. Þegar ég var krakki var ódýrt sport að fara í bíltúr, en nú er það lúxus sem einungis þeir efnameiri geta leyft sér.

Það virðist sem OPEC sé að takast það sem umhverfisverndarsinnar hafa barist fyrir í 50 ár: Að fá fólk til að verða meðvitað um eldsneytiseyðslu. Hjálpin kemur oft úr óvæntri átt!

12.5.08

Vor í Borgarfirði


Græni liturinn er að ná tökum á tilverunni og að jafnaði orðið hlýrra úti en í ísskáp. Það þýðir "vor" á Íslandi. Við gerum ekki meiri kröfur til veðursins.

Þetta gæsapar var að spóka sig fyrir neðan hjá mér í morgun og lét sér fátt um finnast þótt ég sæti með kaffibolla og myndavél á svölunum. Engin fyrir neðan húsið hafa verið friðlönd einhverja áratugi og fuglalíf þar er með eindæmum. Maður skammast sín eiginlega fyrir að hafa ekki brennandi áhuga á fuglaskoðun.

Þegar maður býr í sveitinni geta ársíðirnar orðið yfirþyrmandi. Síðasta haust vöknuðum við reglulega um fjögurleitið þegar hundruð (eða jafnvel þúsundir) gæsa flugu yfir húsið okkar á leið frá náttstað upp í beitilöndin. Nú eru það mófuglarnir, stöku endur og karrar sem eiga sviðið.
Posted by Picasa

9.5.08

Umferðarteppa í Borgarnesi

Á leiðinni heim úr vinnunni lenti ég í umferðarteppu á leiðinni frá gamla bænum í Borgarnesi upp á Hvanneyri. Ég skil ekki ennþá hvað gerðist - veit ekki til þess að vörubílstjórar hafi verið að mótmæla - og ekki eru bændur byrjaðir að hleypa kúnum út. Ekki einu sinni alvarleg skuldahalamengun á vegunum.

En... ég lenti í því að þurfa að bíða á gatnamótum Borgarbrautar og Brúartorgs - örugglega meira en tvær mínútur. Það er algerlega óásættanlegt og ég mun undirbúa tillögu um mislæg gatnamót á Borgarbrautinni fyrir næstu fjárhagsáætlunargerð hjá Borgarbyggð (eða amk umferðarljós).

Þegar maður býr úti á landi vill maður vera laus við umferðarteppur. Maður lítur á stöðvunarskyldu sem alvarlega íhlutun í sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og að rauð eða græn ljós tilheyri fæðingarhátíð frelsarans en ekki hvítasunnu. Við sem búum úti á landi viljum gjarnan vera í friði (það er þess vegna sem við búum úti á landi en ekki í Grafarholti) og við viljum geta notið þess frelsis sem DREIFbýlið felur í sér.

Margt fólk á höfuðborgarsvæðinu hefur því miður áttað sig á hversu mikil lífsgæði felast í deifbýli og í hvert skipti sem vottar fyrir frídegi í dagatalinu þeysir þetta fólk út á land - til okkar! Við förum hins vegar bara heim, þótt við ættum í raun og veru að nota tækifærið og fara til höfuðborgarinnar og njóta fámennisins. Þarna verður vandamálið til: Við á leiðinni heim en allir aðrir á leiðinni að heiman.

Auðvitað væri lífið einfaldara ef allir myndu bara velja sér búsetu á þeim stað sem þeir vildu helst eiga heima. Þá þyrfti enginn að fara neitt og ég kæmist heim úr vinnunni án þess að lenda í umferðarteppu.

7.5.08

Sólarlag í Borgarfirði

Það er erfitt að kvarta yfir útsýninu úr stofunni heima. Snæfellsjökull - sennilega í 80-90 km fjarlægð og sólin - aðeins lengra frá (um 8 ljósmínútur).

Svona útsýni kostar .... ekki neitt úti á landi. Sorrý þið sem búið á höfuðborgarsvæðinu.
Posted by Picasa

6.5.08

Frumkvöðull Vesturlands

Í dag var frumkvöðladagurinn haldinn hátíðlegur á Vesturlandi. Hápunktur dagsins var þegar Frumkvöðull Vesturlands var útnefndur. Nítján voru tilnefndir en sigurvegarinn var Erla Björk Örnólfsdóttir, forstöðumaður Varar - Sjávarrannsóknaseturs við Breiðafjörð. Erla Björk er vísindamaður par excellence og hefur náð að fjármagna rekstur rannsóknsetursins að miklu leyti með öflun rannsóknastyrkja. Sjávarrannsóknasetrið í Ólafsvík er gott dæmi um að öflug þekkingarstarfsemi á góða vaxtarmöguleika á landsbyggðinni þegar rétta fólkið er við stjórnvölinn.

Ef við lítum á þessa útnefningu í víðara samhengi þá er hún líka viðurkenning á mikilvægi háskóla og rannsóknasetra fyrir frumkvöðlastarf og nýsköpun í dreifbýli. Á Vesturlandi eru tveir háskólar, þrír framhaldsskólar og all-nokkur rannsóknasetur, bæði í húmaník og náttúrufræði. Á Snæfellsnesi eru auk Varar, Náttúrustofa Vesturlands, Háskólasetur Snæfellsness og Þjóðgarður Snæfellsness. Samanlagt hafa þessi fjögur setur tæplega 20 starfsmenn. Það munar um minna.

Dreifbýlið á Íslandi stendur frammi fyrir því að sjávarútvegur og landbúnaður geta ekki lengur staðið undir eðlilegum vexti svæðasamfélaga. Sjávarútvegur getur ekki veitt meira - landbúnaðurinn getur ekki selt meira. Og sífelldar tækniframfarir þýða að störfum fækkar. Landsbyggðin þarf því að finna upp á öðrum atvinnutækifærum sem aldrei fyrr.

Einhverntíman heyrði ég sagt að dreifbýli hefði bara tvennt að bjóða nútíma hagkerfi: Auðlindir og hugvit. Nú virðist sem auðlindanálgunin sé hætt að vera spennandi. Eftir stendur hugvitið.
Posted by Picasa

5.5.08

Engin á Hvanneyri

...nei þetta var ekki prentvilla. Það á að standa engin á Hvanneyri með einu enni. Hvanneyrarengin eru ein meginástæðan fyrir því að hér var stofnaður bændaskóli árið 1889. Þá var tilbúinn áburður ekki til-búinn og þess vegna voru flæðiengi gríðarlega verðmæt til heyskapar. Árviss flóð í Hvítá báru með sér næringarefni sem gerðu Hvanneyrarengi að gósenlandi. Gulstörin verður allt að mannhæðarhá á sumrin og enn í dag slegin þó umfangið sé minna en áður. Það sem ekki er slegið leggst undir vetur myndar síðan endalausar breiður af rotnandi sinu. Þessi mynd er tekin vorkvöld í maí þegar ný strá eru að byrja að stinga upp kollinum.
Posted by Picasa

Ánægðir Vestlendingar

Könnun sem SSV gerði á viðhorfum Vestlendinga sýndi að við erum býsna sátt. Sátt við búsetuskilyrðin, leikskólana, atvinnuöryggið og framhaldsskólana. Líka háskólana. Sérstaka athygli vekur að við metum mikils friðsæld, náttúrufegurð og öryggi. Leggjum áherslu á að greið umferð er líka lífsgæði.

Könnunin sýnir fólk sem er meðvitað um gæði þess að búa úti á landi - fólk sem býr úti á landi af því að það vill njóta þess sem dreifbýlið hefur umfram höfuðborgarsvæðið. Könnunin sýnir að yfir 90% Vestlendinga (að Dalamönnum undanskyldum) finnst mjög eða frekar gott að búa á Vesturlandi. Þetta eru sláandi niðurstöður. Hvar er barlómurinn? Hvar er byggðavandinn? Hvar eru átthagafjötrarnir? Hefðbundin byggðaumræða á ekki lengur við á Vesturlandi. Hér er þörf fyrir nýja tegund af byggðastefnu - stefnu sem byggir á almennum aðgerðum en ekki sértækum - stefnu sem ýtir undir fjölbreyttari atvinnutækifæri en ekki varnarbaráttu - stefnu sem setur samgöngur, fjarskipti og opinbera þjónustu í enn meiri forgang en verið hefur.

Kollegar mínir hjá SSV eiga hrós skilið fyrir gott verk en nú er það okkar - ásamt sveitarfélögum á svæðinu að vinna áfram á grundvelli hins breytta landslags.

3.5.08

Ljósleiðari í Arnarneshrepp

Í Mogganum í vikunni var frétt sem sagði frá ljósleiðaravæðingu Arnarneshrepps. Sveitarfélagið borgaði um 26 milljónir til að 55 heimili gætu tengst ljósleiðara og fengið þar með fullt aðgengi að nútímaþjónustu á vefnum. Þótt ég sé almennt ekki fylgjandi opinberum afskiptum af samkeppnismörkuðum tel ég að þetta hafi verið afar rétt ákvörðun hjá sveitarstjórn Arnarneshrepps. Þarna var markaðurinn ekki að virka - mikilvæga grunnþjónustu vantaði í samfélagið og það er ekkert sjálfsagðara en samfélagið taki ákvörðun um að nota sameiginlega sjóði til að greiða ákveðinn stofnkostnað.

Ég held að öflug fjarskipti og samgöngur séu grundvallar forsenda þess að dreifbýli á Íslandi geti dafnað. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða atvinnurekstur eða frístundir - fjarskipti skipta höfuðmáli. Meir að segja í sauðfjárræktinni, einni hefðbundnustu atvinnugrein landsins, hamla nettengingar á landsbyggðinni framþróun á nauðsynlegum hugbúnaði fyrir bændur. Fjarskipti eru einnig lykilatriði fyrir ýmis konar einyrkjastarfsemi s.s. bókhaldsþjónustu, hönnunarvinnu eða almenn ritstörf.

Samfélög sem hafa ekki upp á margt að bjóða í hefðbundinni afþreyingu gera vel í að vera með betri nettengingar en gerist og gengur. Ungt fólk í dag velur sér búsetu. Ef landsbyggðin ætlar að vera samkeppnishæf.... þá þarf hún að vera samkeppnishæf.

30.4.08

Íbúafundur á Hvanneyri

Í gærkvöldi hélt sveitarfélagið íbúafund á Hvanneyri. Rektor Landbúnaðarháskólans sagði frá hugmyndum skólans um framtíðaruppbyggingu. Stefnt er að mikilli fjölgun nemenda næstu árin og ljóst að umsvifin munu hafa veruleg áhrif á íbúaþróun á Hvanneyri. Á fundinum voru íbúar (ekki mjög gamlir) sem mundu þá tíð þegar einungis voru 50 íbúar með lögheimili á Hvanneyri. Nú losa þeir 300 og ekki er ólíklegt að sú tala muni tvöfaldast á næstu 10-15 árum.

Þegar ég kom fyrst til Hvanneyrar fyrir tæplega 20 árum þekktu allir alla og ríflega það. Núna þekkja ekki lengur allir alla, þótt vissulega þekki flestir flesta. Ég held það megi segja að Hvanneyri sé mjög áhugavert dæmi um þróun þéttbýlis - bæði út frá skipulagsmálum og í samfélagslegu tilliti. Staðurinn hefur allar forsendur til áframhaldandi vaxtar; landrými er mikið, umhverfið fallegt, samgöngur góðar og kjölfestuatvinnurekandi staðarins (LBHÍ) í miklum vexti.

Það er hins vegar mikilvægt að stækkunin sé sjálfbær. Með því á ég við að "samfélagið" fylgi með íbúaþróuninni. Samfélag er nefnilega annað og meira en hópur af fólki á sama stað - samfélag felur í sér menningu, siði, sögur og ekki síst tengsl milli fólks. Ef þetta netverk nær ekki að vaxa samhliða íbúafjölgun veikist "samfélagið" og það er slæmt.

Sterk samfélög einkennast af trausti, félagslegum auði og ríkri samkennd. Veik samfélög eru sundurlaus og "kemur-mér-ekki-við" verður ríkjandi viðhorf. Við treystum þeim sem við þekkjum og náum að samsvara okkur við. En til að samsvara okkur við gildi annarra verðum við að kynnast þeim og það tekur tíma. Þess vegna er hraður vöxtur ekki endilega jákvæður fyrir samfélög.

...en hraður vöxtur er betri en hraður samdráttur....

Gildi góðra vörumerkja

Hreiðar Már telur mikilvægt að Kaupþing sameinist SPRON til að tryggja sér gamalgróið vörumerki sem neytendur treysta. Það er gott að stjórnendur Kaupþings hafa áttað sig á gildi gamalgróinna vörumerkja. Þeir notuðu tugi milljóna til að má út öll ummerki Búnaðarbankans sem var eitt af best þekktu vörumerkjum fjármálageirans á Íslandi. Síðan var nokkurra ára flopp með KB-banka, áður en Kaupþing varð ofaná. Þá á að sameinast SPRON til að vinna traust íslenskra viðskiptavina. Það tekst örugglega.

ps. SPRON er sennilega eitt fyrsta raunverulega fórnarlamb bankakreppunnar. Gamalgróinn banki sem er kominn að fótum fram. Var settur á markað í haust og þeir fyrstu sem seldu var stjórn bankans.

28.4.08

Strætó á Vesturlandi

Félag eldri borgara í Borgarnesi ályktaði nýlega um almenningssamgöngur, eins og Skessuhornið greinir frá á heimasíðu sinni. Ástæðan er nýleg umræða um að þjónusta Strætó nái til Borgarness, Selfoss og Keflavíkur. Tilraun með strætó upp á Akranes hafa gengið vonum framar. Einu vandamálin hafa verið yfirfullir vagnar - áður óþekkt vandamál hjá Strætó á Íslandi.

Áhugi nágrannabyggða Reykjavíkur á almenningssamgöngum er eðlilegt skref í því sem kalla má þéttbýlisvæðingu. Íbúar þessara svæða líta í auknum mæli á sig sem hluta af þéttbýli suðvesturhornins og gera þar af leiðandi kröfur um sambærilega þjónustu. Það er hins vegar ljóst að kostnaðurinn á hverja ferð verður ekki borinn uppi af núverandi gjaldskrá Strætó. Þá eru tvær leiðir: Hafa dýrara í lengri ferðirnar eða borga mismuninn úr sveitarsjóði. Hvorug leiðin er sérlega spennandi en líkleg niðurstaða er sambland beggja.

Í flestum erlendum borgum sem ég þekki til eru fargjöld í almenningssamgöngur mishá eftir því hversu langt maður ferðast. Það væri ekki óeðlilegt að maður þyrfti að borga meira fyrir að fara frá Lækjartorgi að Brúartorgi í Borgarnesi heldur en frá Lækjartorgi að Hlemmi.

Hversu mikill má munurinn vera? Ef við lítum á raunkostnað fyrir bílferð, þá kostar um 230 kr í göngin og til viðbótar eru um 75 km. Á bíl sem eyðir 10 lítrum á hundraðið og með bensínkostnað nálægt 150 kr þá er bara eldsneytiskostnaðurinn 1125. Samanlagður beinn útlagður kostnaður miðað við einn mann í bíl er því um 1350 krónur. Ég myndi halda að strætómiðinn mætti kosta á bilinu 30-50% af þessari upphæð.

ps. Skv. ríkisskattstjóra kostar hver ekinn km 75 kr. Hann telur því bílferðina suður kosta tæplega 6000 kall!

27.4.08

Loksins Spaugstofulok

Það fór eins fyrir Spaugstofunni og mörgum þeim sem hún hæddi: Hún þekkti ekki vitjunartíma sinn. Þeir fáu þættir sem ég hef horft á síðustu vetur hafa verið lítið annað en veikur endurómur af gullöldinni. Grínið hefur misst fínleikann og skerpuna - orðið stórkallalegt eins og það sé samið fyrir þorrablót kallaklúbba. Tilraunir til þjóðfélagsádeilu hafa sveiflast á milli þessa að vera ófyndnar og meiðandi. Hugmyndavinnan fátækleg.

Laugardagskvöld eftir fréttir er "prime-time" í sjónvarpi. Við verðum að gera miklar kröfur til þess efnis sem ríkisfjölmiðillinn setur á þennan tíma, en ekki festa okkur í nostalgíu. Þátturinn í gær var klisjukennd tilraun til að skilja í sátt eftir óþægilegar uppákomur vetrarins. Gott grín þarf ekki að afsaka sig líkt og þarna var gert en "ástsælustu grínistar þjóðarinnar" verða að skilja við sáttir.

Okkur er lofað einum vetri enn - og svo ekki meir.

26.4.08

Tvö græn lón

Síðustu vikur hafa tveir aðilar opinberað hugmyndir um baðlón á Vesturlandi. Annars vegar er hópur fólks undir forystu Margrétar Bjarkar Björnsdóttur sem áformar að breyta Lýsuhól í ferðamannastað. Þar er að finna heitt ölkelduvatn sem hefur verið notað til heilsubótar og lækninga svo öldum skiptir. Heitt ölkelduvatn er raritet á okkar jörð og ef vel tekst til verður þetta einn af áhugaverðustu ferðamannastöðum á landinu.

Hitt græna lónið er hugmynd sem Kjartan Ragnarsson hefur unnið með í nokkurn tíma. Hún gengur út á að setja upp baðlón við Deildartunguhver og Reykjadalsá í Borgarfirði. Deildartunguhver er vatnsmesti hver í Evrópu og Kjartan er frumkvöðull af guðs náð. Það er því ástæða til að vera bjartsýnn.

Aflífun dýra

Skessuhornið birti stutta frétt um aflífun minka. Þar var rætt við Sif Traustadóttur sem er formaður dýralæknafélags Íslands um svokallaðar minkasíur. Þetta er veiðitæki sem drekkir minkum og hefur reynst afar árangursríkt. Sif segir: „Ég er hrædd um að uppi yrði fótur og fit ef við dýralæknar myndum aflífa hunda og ketti fólks á þennan hátt. Það virðist nefnilega ekki vera sama hvaða dýr er um að ræða. Ef á að aflífa mink má gera það á þennan hátt eða í lásboga eða annan ómannúlegan hátt, en ef um er að ræða dýr sem stendur fólki nær, þá gegnir öðru máli.“

Þetta eru orð í tíma töluð og vonandi heldur Dýralæknafélagið áfram með málið. Þótt ég sé hlynntur staðbundnum minkaveiðum til að vernda fugla og fiskalíf tel ég það siðferðislega skyldu okkar að lóga minkunum á mannúðlegan hátt. Við gerum strangar kröfur til aflífunar í sláturhúsum og það er engin ástæða til að þær kröfur eigi ekki líka við um veiðar.

25.4.08

Mótmæli

Mikið er notalegt að sjá hversu viðvaningslega lögreglan tók á vörubílstjórum í gær. Ég vil ekki búa í landi þar sem óeirðalögreglan er í góðri æfingu.

Verra að sjá viðvangisleg vinnubrögð fréttamanna; öllum ráðum beitt til að gera sem mest úr tiltölulega einfaldri uppákomu. Allar reglur um hlutlæga og yfirvegaða umfjöllun fjúka.

Er virkilega einhver sem hefur samúð með vörubílstjórum: Þeir vilja ódýrari olíu, þrátt fyrir að þeir búi nú þegar við eitt ódýrasta olíuverð í Evrópu og þeir vilja sleppa við að fylgja almennum reglum um hvíldartíma. Hvað næst: Sérstaka undanþágu frá reglum um að ganga frá farmi þannig að hann losni ekki?

23.4.08

Small is beautyful

Lítil ríki geta margt. Þau mega láta í sér heyra og eiga að axla ábyrgð í stórum heimi. En reynum að halda smá sans fyrir hlutföllum. Lýðræði byggir á sans fyrir hlutföllum. Ef maður er margir þá á maður mikinn rétt - ef maður er fáir á maður lítinn rétt. Við erum ekki aðeins fá - við erum örfá. Og við eigum ekki rétt á að sitja við sama borð og leiðandi þjóðir í heiminum. Við eigum ekki rétt á að sitja í Öryggisráðinu. Og jafnvel þótt við náum að sannfæra nógu marga leiðtoga þriðjaheims landa um að við munum síðar meir styðja þá til setu í Öryggisráðinu, til að við náum kjöri, þá munum við engu ráða.

Veðrið

Fyrsta bloggið - varla við hæfi að skrifa um annað en veðrið. Annað væri nánast föðurlandssvik. Í fyrsta skipti í mörg ár er þolanleg veðurspá fyrir sumardaginn fyrsta eftir þreytandi vetur. Sumardagurinn fyrsti er í takti við annað taktleysi okkar Íslendinga; þorum ekki að horfast í augu við veruleikann. Sumarið er bara tveir mánuðir og hvorugur góður . Eins og franskur sendiherra í Danmörku sagði eitt sinni um veðrið þar: Vont veður í fjóra mánuði og vetur í átta.